17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Jóhann Jósefsson:

Það var aðeins stutt aths. vegna þeirra ummæla hæstv. viðskmrh., að menn væru að fjasa fram eftir nóttu um þetta mál. Og það var svo að heyra, að í þessu lægi heldur lítilsvirðing á háttv. þm., a. m. k. þeim, sem að hans dómi halda uppi þessu fjasi. Ég verð að telja þetta ákaflega ómerkileg ummæli. Það er búið að sýna fram á það, hversu langan tíma þessi hv. þd. hefur haft þetta mál til meðferðar. Og hann er ekki svo óhæfilegur, að það verði með nokkrum rétti kallað fjas, sem nú hefur verið sagt um málið, eða það fært undir það, að það sé ónytjuhjal. Hitt er dálítið eðlilegt, að mönnum verði nokkuð hverft við það, að það er notað sem rök fyrir því, að engar aths. eða leiðréttingar megi koma fram og vera samþ. á þessu frv. frá þessum þriðja hluta hv. þm., sem í þessari hv. d. eiga sæti, að málinu er stefnt þannig inn í þessa hv. d., þegar svo nærri er komið þingslitum sem raun ber vitni.

Ég veit það vel, að hæstv. ríkisstj., eins og nú stendur, hefur mikið vald og getur ráðið málum til lykta þrátt fyrir það, þó að allstórir hópar af þm. séu óánægðir með afgreiðslu þeirra. En það er nú svo, að aðferðir eins og hér er beitt og ummæli eins og hér eru viðhöfð, þau eru ekki til þess fallin að vekja eða efla traust á þingræðisvilja hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég hefði kosið fremur, að minni einræðiskennd hefði komið fram heldur en gerði vart við sig í framkomu og ummælum hæstv. ráðh. Það er heldur skemmtileg tilhugsun, ef sá háttur á að fara að verða hér á hæstv. Alþ., að kastað sé hreint og beint köpuryrðum til hv. þm., ef þeir ekki í einu og öllu vilja samþ. það, sem ríkisstj. leggur fyrir. Þetta lítur ekkert betur út fyrir það, þó að hæstv. ríkisstj. hafi látið fresta kosningum til Alþ., eins og gert var, frá þeim löglega tíma. Ég vil frekar meina, að það taki sig enn þá verr út í því ljósi, og vildi óska þess, að slík lítilsvirðingarummæli úr ráðherrastóli ættu sér ekki stað eins og hér voru viðhöfð í sambandi við umr. um þetta mál. Ég held, að það sé, sem sagt, alveg óþarfi. Við 1. umr. málsins var til þess mælzt, að hv. þm. færu ekki út í almennar umr. um málið, sem var ekki heldur gert. Hitt þarf engan að undra, eins og málið horfir við, þótt þeir þm., sem ekki eru ánægðir með afgreiðslu málsins, vilji nokkuð ræða málið til hlítar nú og freista þess til þrautar að fá lagfært það í frv., sem lagfæra þykir þurfa. Einhver hæstv. ráðh., ég held hæstv. viðskmrh., mælti svo í garð okkar sjálfstæðismanna hér í kvöld, að við gætum varla vantreyst okkar eigin ráðherrum til framkvæmda í þessu máli. Hvað, sem um það má segja, þá vil ég vísa til þess, að það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. hér fyrr í kvöld sem svar við þeirri ádeilu frá mér, að hæstv. ríkisstj. hefði fyrr og á annan hátt átt að taka í þessa tauma hvað snertir ráðstafanir gegn dýrtíðinni og ráðstafanir til uppbóta á verð landbúnaðarafurða, — það kom þá fram í svari hæstv. forsrh., að það hefði ekki verið samkomulag innan ríkisstj. um það, hvernig á þessum málum skyldi tekið. Það, sem hefur skeð í þessu, það getur aftur skeð. Og þessi ummæli hæstv. forsrh. gefa ekkert sérstakt fyrirheit um það, að full eining eða samkomulag verði heldur um framkvæmd þessa máls. Þó að það þyki nauðsynlegt að gefa svo að segja takmarkalausar heimildir, eins og hér liggja fyrir till. um, þá tel ég, að það sé næsta lítil trygging fyrir því, í fyrsta lagi að samkomulag eða eining verði um framkvæmd málsins, og því síður, að þær framkvæmdir nái því takmarki, sem menn virðast hafa fyrir augum: Þess vegna er það, að ég fyrir mitt leyti vil reyna, á meðan málið er í höndum hæstv. Alþ., að koma inn einhverjum takmörkunum. Því að ég álít það algerlega óþarft, að það liggi svona gersamlega á valdi hæstv. ríkisstj., hve langt er farið innan ramma þessara 18% skattálagningar í þessu máli. Því að ég hef enga tryggingu fyrir því, að sanngjarnlega verði farið í það mál. Ég vil vona, að svo verði. En trygging er ekki hægt að segja, að. liggi fyrir, sízt af öllu, þegar fyrir liggur yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um það, að innan hæstv. ríkisstj. hafi verið uppi ákveðnar till. á vissu tímabili til úrlausnar á þessu máli, till., sem e. t. v. margir hefðu fellt sig við, en hann hætti við, að um þær hefði ekki náðst samkomulag hjá hæstv. ríkisstj. Ég held, sem sagt, að hæstv. ríkisstj. ætti að hafa það í huga, að hv. þm. geta, enn sem komið er, ekki fullkomlega sætt sig við Það, að það sé bara talið fjas, þó að þeir vilji koma sínum vilja fram í svona stórmáli eins og þessu.