10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Jóhann Jósefsson:

Ég er satt að segja með svipaðar tilfinningar í brjósti og barn í skóla, sem stendur undir ströngu prófi hjá skólastjóra, því að hv. 1. þm. N.-M. talaði með svo miklum myndugleik, eins og hæstarétti í skattamálum sæmir og ber, og byrstir sig við þessa smærri borgara, sem eru að pota með smáviðleitni til að halda á réttum kili fjárhag hreppa- og bæjarfélaga.

Það, sem þessi hv. þm. fer fram á, er þá að fá að vita ýmislegt um hag þess bæjarfélags, er um ræðir. Ég skal segja honum, að ég er ekki með þessar tölur í höfðinu, t. d. útsvarsupphæð í Vestmannaeyjum undanfarin ár. Annars veit ég ekki, hvað langt árabil hann vill fá að vita um. „Undanfarin ár“ er svo óákveðið hugtak, en ég get ekki farið að taka fram fyrir hendurnar á honum um að skýra það, sem felst í hugskoti hans. (PZ: Við skulum segja tvö síðustu ár.) Hvað þetta vörugjald hefur gefið, veit ég hér um bil. Það hefur leikið á 30–40 þús. kr. á ári: Hvort það var hærra eða lægra síðasta ár, veit ég ekki, en það má upplýsa hv. þm. um það, og er ekki nema sjálfsagt að gera það við 3. umr., en á þessari stundu get ég ekki svarað honum nákvæmar en ég hef nú gert. (MJ: Hann kann þetta allt sjálfur.) Já, hann þarf ekki að koma með svona spurningar, því að það er ekkert í skattamálum, sem hann ekki veit, og engar tölur þar, sem hann þekkir ekki. Það er náttúrlega sjálfsagt af mér að verða við tilmælum frá svona háum stað, en það er bara af sérstöku lítillæti, að þessi hv. þm. lætur sem hann viti ekki hvað eina í þessu máli og vill láta mig upplýsa sig, sem er fáfróður í þessum sökum.