14.03.1941
Efri deild: 17. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Við 2. umr. þessa máls hér í deildinni lýsti ég yfir því, að ég væri því andvígur, eins og ég hef verið á undanförnum þingum, og ég þykist hafa gildari ástæður til þess nú en nokkru sinni fyrr.

Ég spurði hv. þm. Vestm. og nefndina, hvort hann eða hún hefði athugað, hve miklu væri jafnað niður árlega á gjaldendur í Vestmannaeyjum og hve miklu vörugjaldið hefði numið. Nefndin þagði, og tók ég það sem merki þess, að hún hefði ekki athugað þetta. En hv. þm. Vestm. svaraði fyrst og fremst með lofsöng um minni mitt, sem er að engu leyti mér að þakka, heldur þeim, sem gaf mér það. Ef honum því finnst minni mitt þakkarvert, þá skal hann þakka þeim, er gaf mér það í vöggugjöf. Í öðru lagi upplýsti hann, að vörugjaldið mundi nema 30–40 þús. kr. á ári, og í þriðja lagi, að hann hefði. enga hugmynd um, hve miklu væri jafnað niður á ári í Vestmannaeyjum.

Þetta svar hv. þm. Vestm. var náttúrlega alveg ófullnægjandi. Það kom í ljós, er ég fór að afla mér upplýsinga um málið og reyna að fá svör við því, er þm. Vestm. og nefndin gafst upp við að svara, að upplýsingar fengust ekki hér í Rvík. Þó að lögskylt sé að senda bæjarreikninga til hagstofunnar og sömuleiðis til stofnunar þeirrar, er Jónas Guðmundsson, eftirlitsmaður bæjar- og sveitarfélaga, veitir forstöðu, finnast engir yngri reikningar en frá 1937 vera komnir til skila frá Vestmannaeyjakaupstað. Ef til vill getur þm. Vestm. upplýst, af hverju það stafar. Með símskeytum tókst mér þó að fá þaðan tölurnar, sem ég bað hv. þm. um. Jafnað hefur verið niður útsvörum sem hér segir:

Árið krónur

1937 ................ 214 000

1938 ................ 245125

1939 ................ 221610

1940 ................ 274 325

Vörugjaldið, sem var samkv. upplýsingum hv. þm. 30–40 þús., hefur þá aldrei numið meira en 1/7–1/5 þeirrar upphæðar, sem bærinn gat ætíð náð inn í beinum sköttum. Það liggur þá alveg ljóst fyrir, að hvenær sem hagur gjaldenda batnar svo, að fært sé að leggja á þá svo sem nemur þessu broti meira í beinum sköttum, er nauðsyn þessa vörugjalds úr sögunni, þótt hún hefði einhver verið áður.

Nú hefur hagur gjaldenda í útvegsbæjum batnað stórum. Ég veit, að Vestmannaeyjar hafa ekki orðið þar með öllu út undan. Við útsvarsálagning s. l. haust reyndust nettótekjurnar frá árinu 1939 vera 3 899 426 kr., — tæpar 4 millj. —, en skuldlaus eign 4 309 827 kr. Álagningin varð ekki nema 7% á nettótekjurnar, þó að meira. væri lagt á en nokkru sinni fyrr. Á næstliðnu ári og yfirstandandi vetur batnar hagur gjaldenda svo stórkostlega, að með sama gjaldstiga og notaður hefur verið mundi bærinn fá geysitekjur, — líklega mætti lækka gjaldstigann um helming, án þess að tekjuhæðin færi niður fyrir vað, sem var undanfarið. Vörugjald þetta, sem samþ. var hér svo sem ill nauðsyn, þegar búið var að telja mönnum trú um, að bæjarfélagið væri svo aumt, að það þyrfti þessa sér til bjargar, það á engan tilverurétt lengur.

Þetta gjald er beinlínis neyzluskattur af þeim nauðsynjum almennings, sem fluttar eru í land í Vestmannaeyjum, og útflutningsgjald af þeirri framleiðslu, sem út er flutt. Enginn þarf að ímynda sér, að þetta bitni á öðrum en almenningi. Auðvitað er lagt á vöruna svo sem gjaldinu svarar eða vel það, því að það mun vera lagt við innkaupsverð, áður en álagningin er reiknuð út, en ekki á eftir. Sem stendur mun sú undantekning verða um frystan fisk, að sakir lágmarksverðs lendir vörugjald af honum ekki á fiskseljendum sjálfum, heldur kaupanda. Þessi skattheimtuaðferð er löngu fordæmd, en leyfð á þessum stað með þeirri afsökun, að svo hagi til, að gjaldinu gæti ekki orðið velt á aðra en Vestmannaeyinga sjálfa. Það er eins og það hafi gleymzt, að Alþfl. allur og mikill hluti Framsfl. hefur lýst sig algerlega andvígan slíkri skattalöggjöf. Hér er ekki um annað að ræða en að menn eins og hv. þm. Vestm. þótt hann sé nú fluttur þaðan sjálfur, eru að reyna að færa opinber gjöld af sér yfir á neytendur og framleiðendur, nokkurn veginn jafnt, þ. e. yfir á þá, sem nefskattar bitna mest á. Þeir menn, sem hafa undanfarið fylgt þessum bráðabirgðaákvæðum vegna sérstaks ástands á staðnum, en gagnstætt stefnu sinni, hljóta nú að sjá, hve aðstæður eru breyttar og þörfin á því stefnubroti ekki lengur til. Þó að ég geti ekki farið með tölur um tekjuaukninguna í kaupstaðnum síðan 1939, þegar álagning komst hæst og þó aðeins upp í 7% af nettótekjum, getur enginn mælt því í gegn, að ástandið er gerbreytt nú: Gæti ég hugsað, að á tveim stríðsgróðamönnum mætti hækka útsvarið um margfalt vörugjaldið, án þess að þeir yrðu þess meira varir en margir, sem fáar krónur bera. Hafi ég fyrr haft fullar ástæður til að vera móti frv., hef ég þær sannarlega nú.