14.03.1941
Efri deild: 17. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2860)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Eins og sést í nál. á þskj. 53, skrifaði ég undir það með fyrirvara. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hef ég verið móti því að innheimta slík gjöld sem þetta og tel það yfirleitt mjög varhugaverða skattalöggjöf. Auk þess tel ég órétt, að þessum eina kaupstað séu veitt þarna sérréttindi. Hins vegar er mér ljóst, að þar sem frv. hefur verið samþ. hér á undanförnum þingum, er ekki hægt að búast við öðru en það verði samþ. nú, og er þá um það eitt að ræða, hvort fram megi koma við það æskilegri breytingu. Þess vegna höfum við hv. 2. landsk. borið fram brtt. á þskj. 67, um að bráðabirgðalög þessi gildi ekki nema til ársloka 1942, í stað ársloka 1944. Ég get ekki fallizt á, að sömu ástæður, sem legið hafa að samþykkt þessa frv. á undanförnum þingum, séu nú óbreyttar fyrir hendi, og því síður, að þær hljóti að haldast til 1944. Ég gat þess í n., að Vestmannaeyjar mundu ekki hafa borið mjög skarðan hlut frá borði s. l. ár, þótt menn hafi ekki haft þar eins mikið upp úr fiskinum eins og ef þeir hefðu getað flutt hann út sjálfir og selt fyrir eiginn reikning. Á næsta þingi gæti framlenging bráðabirgðal. því orðið mikið álitamál.

Eitt af því, sem hv. þm. Vestm. færði þá frv. til styrktar, var, að sem stæði mundu útlendir menn greiða verulegan hluta útflutningsgjaldsins. Ég hefði talið rétt, að útlendir menn, sem kaupa hér fisk, yrðu skyldir til að greiða útsvar. Ég hygg það séu upp undir 60 skip, sem þannig hafa tekið fisk víðs vegar kringum land. Áður en lágmarksverð var sett á fiskinn, keyptu þau náttúrlega eins lágu verði og hægt var að komast af með á hverjum stað. Útsvarsskylda slíkra skipa hefði getað orðið talsverð stoð fyrir ýmis bæjarfélög, einkum á Austurlandi, þar sem talið er, að þau séu ekki of vel stæð fyrir. Og er undarlegt, að ríkisstj. skuli ekki hafa tekið þetta til athugunar til að bæta hag bæjarfélaganna.

Eins og á stendur, þykir mér ekki rétt að rísa móti samþykkt frv., en nóg, að það fái lagagildi til ársloka 1942. Innan þess tíma, ætti útsvarsmálum fisktökuskipa að vera kippt í lag. Auk þess getur ýmislegt breytzt. Ef þingvilji verður fyrir því á næsta Alþingi að framlengja þessi lög, er auðvelt að gera það. Verði ekki þingvilji fyrir því þá, munu menn sjá, að órétt var að hinda hendur þingsins þannig fram í tímann.