14.03.1941
Efri deild: 17. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Ástæðan til þess, að ég skrifaði undir nál., þar sem mælt er með frv. óbreyttu, er sú, að mér finnst Vestmannaeyingar hafa algerða sérstöðu í þessum efnum. Þeir hafa litla sem enga möguleika á því að leggja þessa byrði á aðra en sig sjálfa og að einhverju leyti á útlendinga. Mér finnst því öðrum landsmönnum koma málið afskaplega lítið við, það skipti ekki miklu máli fyrir aðra, hvaða aðferð þeir hafa til að ná þessum tekjum í bæjarsjóð, úr því þeir leggja þær á sjálfa sig.

Það kann að vera rétt, sem hv. 1. þm. N.-M. segir, að það sé minni þörf á þessum tekjum í bæjarsjóðinn nú en verið hefur, en af þeim ástæðum, sem ég greindi áðan, finnst mér það ekki afgerandi í málinu, úr því að Vestmannaeyingar sjálfir óska eftir að hafa þessa tilhögun.

Sama er að segja um þá brtt., sem fyrir liggur á þskj. 67, um að framlengja ekki heimildina nema til ársloka 1942. Mér finnst till. alveg óþörf, þó að hún sé skaðlaus. Það hefði vel mátt samþ. frv. þannig, að Vestmannaeyingum væri leyft að innheimta þetta vörugjald um ótiltekinn tíma. Ef ekki væri lengur þingvilji fyrir heimildinni, mætti afnema þessi lög eins og hver önnur lög.

Ég var ekki við, þegar 2. umr. fór hér fram, og veit því ekki, hvernig gerð var grein fyrir áliti n. Ég gat ekki haft framsögu málsins, sem n. hafði falið mér, sökum veikinda, og vildi því taka fram mína afstöðu nú.