10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

41. mál, krikjuþing

Flm. (Magnús Jónsson) :

Þar sem nokkuð er áliðið fundartímans og ég vildi gjarnan, að annað frv., sem eftir er á dagskránni, komist gegnum 1. umr., skal ég stytta mál mitt um þetta frv. Ef til vill leyfir hæstv. forseti, að ég nefni bæði frv. í einu. Þau stefna bæði að því að efla starfsskilyrði íslenzku þjóðkirkjunnar.

Hingað til hefur ekki verið um annað að ræða í þessum efnum en prestastefnurnar, sem eru í eðli sínu samkomur til allt annars en ætlazt er til með kirkjuþinginu. Prestastefnuna sitja eingöngu prestar. Og þeim er ekki einu sinni sköpuð góð aðstaða til að sækja þessar samkomur. Þær eru þess vegna nær eingöngu skipaðar prestum úr nágrenni þess staðar, þar sem þær eru haldnar. Prestar hafa gert töluvert að því að reyna að sækja prestastefnuna, en það er erfitt fyrir þá. Hún verður heldur aldrei fulltrúasamkoma fyrir prestaköllin. Hún er eins og hver annar fundur til uppörvunar þeim, er hann sitja, en um hana er enginn fastur rammi. Menn eru hins vegar sammála um það, að ef starf kirkjunnar á að vera með nokkrum krafti, þá verður starfið einnig að vera tekið upp af áhugasömum leikmönnum. Frv. um kirkjuþing var samið 1937, af kirkjumálanefndinni, sem þá var skipuð. Þetta frv. kom aldrei fram á Alþ. Ég held líka, að það hafi ekki verið svo mikill skaði, því þar var kirkjuþingið sniðið svo líkt prestastefnunni, að ég held, að það hefði ekki komið að tilætluðum notum. Þetta átti að vera fjölmenn samkoma, en þar var ekkert skilyrði sett um það, hvort fulltrúarnir ættu að vera prestar eða leikmenn. Hefði því mátt ganga út frá, að það hefðu orðið nær eingöngu prestar, sem sóttu þetta þing. Enda var gert ráð fyrir að leggja prestastefnuna niður.

Þetta mál hefur verið rætt mikið í Prestafélagi Íslands. Það er ávöxtur af löngum undirbúningi. Þó getur vel verið, að því sé ábótavant. Ég skal nú með fáum orðum lýsa frv.

Gert er ráð fyrir, að til kirkjuþings verði kosnir 15. menn. Þar af 14 í 7 kjördæmum, en einn verði kosinn af guðfræðideild háskólans. Þar á eftir eru talin upp kjördæmin. Þau eru höfð ákaflega stór, en það ætti ekki að koma að sök, vegna þess hvernig kosningum á að haga. Fyrir hvert kjördæmi á að kjósa einn leikmann og einn prest. Það tel ég meginatriði frv. Ég tel það aðalatriðið, að prestar og leikmenn komi saman og ráði ráðum sínum. Ég hef þá trú, að á þingi, sem þannig væri skipað, mundi koma margt fram, sem ekki hefur áður komið fram, vegna þess að menn hafa ekki getað komið saman og talazt við. Ég hef hugsað mér, að auk þessara kjörnu fulltrúa ætti biskupinn sæti á þinginu og kirkjuráðsmenn. Kirkjuþingið yrði því í mesta lagi skipað um 20 mönnum, svo að þetta ættu ekki að verða neinar ægilegar samkomur, þótt þær væru haldnar annað hvert ár og stæðu svo sem hálfan mánuð. Ég hef reynt að sníða frv. þannig, að ekki sé farið angurgapalega af stað. Það er miklu meira undir því komið, að þingið starfi vel og sé vel undirbúið. Það er heilbrigðast að fara hægt af stað með svona mál.

Þá er hér atriði, sem gæti orkað tvímælis. Er það um það, hvernig kjósa skuli til kirkjuþings. Ég hef stungið upp á því að haga kosningunum líkt og kosningum í fjölmennum félögum, að senda út kjörseðla til allra þeirra, er kosningarrétt eiga. Kjósandinn ritar síðan nafn þess, er hann vill kjósa, á seðilinn og sendir hann í pósti til kjörstjórnar. Ég held, að þetta verði einfaldasta aðferðin, og finnst sjálfsagt að nota hana.

Þá er þarna annað atriði, sem einnig getur orkað tvímælis. Það er um það, hverjir eigi að vera kjörgengir til kirkjuþings. Hvað fulltrúum prestanna viðvíkur tel ég réttast, að þeir prestar, sem embætti hafa á hendi, þegar kosningar fara fram, hafi kjörgengi og atkvæðisrétt. En um leikmennina væri eðlilegast, að mínu áliti, að þeir, sem kosnir hafa verið af söfnuðunum til að hafa forgöngu um málefni kirkjunnar, skuli einir hafa kjörgengi og kosningarrétt. Til þessara starfa eru yfirleitt valdir áhugamiklir menn um þessi mál. En þessum mönnum er hins vegar lítill sómi sýndur. Til marks um það er meðal annars það, að ég ætlaði hér um daginn að fá skrá yfir þessa menn, en slík skrá var engin til og hefur aldrei verið gerð. Mér fyndist þessum mönnum sízt of mikill sómi sýndur, þótt þeir væru þeir einu, sem hefðu kosningarrétt og kjörgengi til kirkjuþings.

Viðvíkjandi kostnaði af þessu frv. er það að segja, að menn eru oft efablandnir í sambandi við þessar áætlanir. Ég hef áætlað, að kostnaðurinn mundi verða svona 6–7 þús. krónur. annað hvert ár. Við skyldum segja, að þetta yrði 10000 kr. Þá samsvarar það 5000 kr. á ári. Ekki er það nú ægilegri kostnaður. Það er talið sjálfsagt, að landbúnaðurinn eigi sitt þing. Mér finnst það líka alveg sjálfsagt, — en hverjum gæti þá fundizt það annað en sjálfsagt að verja 5000 kr. á ári til þess að kirkjan geti rækt sitt starf betur?

Ég hef hugsað mér starf kirkjuþings óbundið. Það gæti gert ályktanir um hvaða mál sem væri. Ég vil ekki með þessu skerða neitt vald annarra aðila, heldur aðeins gefa þessum kjörnu fulltrúum kost á að búa í hendur Alþ. eða stj. sínar till., sem þeir óska að láta frá sér fara. Ég er alveg sannfærður um, að kirkjuþing eins og þetta gæti mjög fljótlega orðið mjög heppilegur aðili til samvinnu fyrir Alþ. um kirkjumál. Hitt er annað mál, að það er mjög undir persónulegum skoðunum hvers og eins komið, hvað þetta mál er aðkallandi.

Ég skal ekki fara nánar út í rökræður um þetta, þótt ég persónulega sé sannfærður um, að kirkjan sé sú stofnun, sem Alþ. ætti að taka sig saman um að efla, jafnvel þó litið væri burt frá trúmálum. Það ætti að efla þá stofnun, sem mun verða sterkasta aflið til verndar mörgum verðmætum þjóðfélagsins.

Ég get svo látið þetta nægja, en vil að lokum óska eftir, að d. vilji hleypa þessu frv. til 2. umr. og menntmn.