16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2878)

41. mál, krikjuþing

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson) :

Herra forseti! Eins og hv. þdm. hafa séð, hefur menntmn. klofnað í þessu máli. Höfum við tveir nm., hv. 2. landsk. þm. og ég, mælt með frv. óbreyttu, en þriðji nm., hv. þm. S.-Þ., er því andvígur og hefur skilað sérstöku nál. Ég tel, að hér sé um mjög þarft mál að ræða, og ég vil sérstaklega henda hv. þdm. á, hversu vel þetta frv. er undirbúið af hv. flm. þess. Munu fá þmfrv. vera svo vel úr garði gerð og það, sem hér er um að ræða, né eins mikil vinna lögð í þau, enda er þetta ekki nýtt mál. Eins og segir í grg., hefur það verið á döfinni 35 til 40 ár, þó ekki hafi orðið af framkvæmd, fyrr en ef það verður nú. Ég er alveg sammála hv. flm. um það, að afstaða hv. þm. til þessa máls. mun nokkuð fara eftir því, hversu mikilvægt þeir telja málefni kirkjunnar eins og nú er. Ég ætla hér ekki að fara út í neinar trúmálaumræður, en úr því að viðurkennt er, að kirkjan sé þörf stofnun á venjulegum tímum, má ætla, að hún sé einkum þörf á þeim tímum, sem nú ríkja, og er því nú sérstök ástæða til að sinna málefnum hennar. Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að kirkjuþing íslenzku þjóðkirkjunnar verði haldið annað hvert ár; skuli það standa í hálfan mán. og haldið í Reykjavík. Er gert ráð fyrir sérstakri kjördæmaskipun, skýrt afmarkaðri; þar sem landinu er skipt í 7 kjördæmi og hefur hvert tvo fulltrúa. Er í grg. frv. gefin nánari skýring á þessu, og nægir að vísa til þess. í hverju hinna 7 kjördæma eru kosnir 2 kirkjuþingsmenn, einn prestur og einn leikmaður. Sú skoðun hefur komið fram, að þetta væri nokkurs konar stéttarþing, og aðalröksemdin gegn þessu máli er sú, að ekki sé þörf á að auka stéttabaráttuna í landinu. En þetta er hinn mesti misskilningur, þar sem þingið yrði að hálfu leyti skipað leikmönnum. Ég er sammála hv. minni hl., að ekki sé þörf á að auka stéttábáráttuna, en þarna er um ekkert slíkt að ræða.

Hvernig kosningum skuli hagað, er svo ráð fyrir gert í frv., að prófastar og þjónandi prestar sjái um kosningu kirkjuþingsmanna úr sínum hópi, en safnaðarfulltrúar úr hópi leikmanna. Kjörstjórn er skipuð af biskupi, einum manni tilnefndum af kirkjuráði og einum manni tilnefndum af kirkjumálaráðherra, og skal hann vera lögfræðingur. Kosningar skulu vera skriflegar og leynilegar. Skal kjörtímabilið vera 6 ár, en ef kirkjuþingsmaður úr hópi leikmanna forfallast á þessu tímabili, tekur varamaður við sæti hans. Deyi kirkjuþingsmaður úr hópi presta, skal kjósa annan á ný. Í guðfræðideild háskólans kjósa guðfræðingar og prófessorar einn mann úr sinum hópi á kirkjuþingið, og auk þess á biskup sæti á því og er réttkjörinn forseti þess. Er gert ráð fyrir, að kirkjuþingsmenn hafi 15 kr. á dag og uppbót, eins og hún er hjá starfsmönnum ríkisins. Hvað kostnaðinum viðvíkur getur hann ekki farið fram úr 3 til 4 þús. kr. á ári með því verðlagi, sem nú er. Ef menn því viðurkenna, að okkur sé þörf á þessu nýja þingi til uppbyggingar andlegu lífi þjóðarinnar, þá mun þessi smávægilega upphæð ekki hindra framgang þessa máls.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en treysti því, að hv. þdm. samþ. frv., eins og meiri hl. menntmn. leggur til.