16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

41. mál, krikjuþing

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Vegna þess að ég fer nú með kirkjumál í landinu, þá mun þykja eðlilegt, að ég láti í ljós skoðun mína á þessu máli. En ég hef ekki margt að leggja til í þessu máli, sem hér liggur fyrir.

Ég hef heyrt það, að hv. þm. láta mjög í ljós þá skoðun, að þeir vilji styrkja þjóðkirkjuna, og er það gott að heyra. Það hefur einnig á ýmsan hátt verið reynt og gert á seinni árum.

Ég væri ekki mótfallinn þessu frv., ef ég teldi, að það mætti koma að því gagni, sem flm. álíta, en ég er ekki á sömu skoðun um gagnsemi þess.

Ég held, að þó að þessir menn væru valdir á kirkjuþingið og þó að leikmenn væru þar á meðal, þá mundi það ekki ráða neinum straumhvörfum í íslenzku trúar- og kirkjulífi. Ég held, að þessir fáu leikmenn mundu ekki leggja það til í þessu máli, að það breyti miklu frá því, sem nú er, enda álít ég, að safnaðarlífið í hverri sókn sé miklu meira um vert en þó að einn maður kæmi úr jafnstóru svæði á landinu á kirkjuþing í fáa daga.

Við höfum einnig um langt skeið haft eins konar kirkjuþing eða prestastefnur, sem haldnar voru oft hér í Reykjavík og stundum annars staðar á landinu, þar sem málefni kirkjunnar voru rædd. Og ég held, að ef prestum landsins tækist að gefa þeirri samkomu enn meira líf en hún hefur sýnt, — ég segi ekki þar með, að prestastefnurnar hafi ekki tekið mörg góð og stór mál til athugunar —, þá geri þær eins mikið og sama gagn og slíkt kirkjuþing, sem hér er gert ráð fyrir. Auk þess gæti safnaðarlífið heima í sóknunum orðið að miklu meira liði fyrir kirkjulífið en þó að fáir menn, 7 leikmenn eða svo, mættu hér á kirkjuþingi, sem fáir mundu hlusta á og menn tækju sennilega lítið eftir.

Það er af þessum sökum, sem ég hef ekki trú á þessu kirkjuþingi. Um þetta mál má vitanlega endalaust deila og færa fram rök með og móti, en ég hef ekki trú á því, að þetta verði að gagni, og ekki heldur að það sé í raun og veru byrjað hér á réttum enda málsins.

Ég er á þeirri skoðun, eins og ég hef þegar sagt, að það séu prestastefnur annars vegar og aukið safnaðarlíf hins vegar, sem geti valdið miklu í þessu máli, en ekki kirkjuþing, og þannig eigi að starfa í málinu. Og ég vil segja, að þetta sé í samræmi við reynsluna. Þar, sem prestar hafa lagt sig fram við það, þá hefur þeim tekizt að auka félagslífið meðal safnaðarins.

Ég ætla ekki að nefna nein dæmi. Hver og einn getur haft fjölda þeirra í huga, þar sem trúar- og kirkjulíf hefur tekið miklum breytingum til bóta. Og ég álít, að prestastefnur séu fullfærar um það að ræða málefni kirkjunnar að öðru leyti, og þeim geti tekizt að auka trúaráhugann heima í sóknunum. Og vegna þess að ég álít, að þetta styrki ekki kirkjulífið í landinu, þá get ég ekki fylgt þessu frv.