16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2885)

41. mál, krikjuþing

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. En ég vil aðeins bæta lítillega við það, sem ég sagði áðan, og ég vil þakka hv. 2. landsk. fyrir hans ræðu í þessu máli, sem sýndi það, hvað hann hefur opin augu fyrir einmitt margháttuðu starfi lifandi kirkju. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að starf kirkjunnar sé alltaf hrein boðun trúarinnar, en kirkjan á að starfa að og hefur alltaf starfað að þeim málum, sem hv. 2. landsk. dró hér fram, og það ekki bara leikmenn, heldur prestarnir líka. Aðalfrömuðir í sósíölum málum í okkar landi og einnig í öðrum löndum, mannúðarmálum, bindindismálum og öllum tegundum siðferðismála um heim allan, hafa alltaf verið hópar kirkjunnar manna. Þeir hafa alltaf verið þar fremstir í fylkingu. Það mætti sjálfsagt skrifa mikla sögu um það út af fyrir sig, Og hv. 2. landsk, dró það réttilega fram, að það er ákaflega sláandi aðbenda á þá viðburði, sem gerast í heiminum nú. Og það er enginn maður, sem ekki finnur í því ásökunarefni fyrir kristna kirkju í heiminum, að þetta skuli geta átt sér stað. En í því felst það, að starf kirkjunnar miðar í allt aðra átt heldur en heimsviðburðir okkar tíma. Og margir helztu stjórnmálamenn heimsins hafa ekki von um það, að þeim ógnum, sem nú geisa í heiminum, linni á nokkurn hátt, nema kirkjan eða kristnin nái svo miklum krafti að geta unnið bug á þessum ósköpum. Og það er ekki ómögulegt, að kirkjunni og kristninni auðnist að ná til þess að lægja þessar öldur. En viðkomandi því að saka kirkjuna um að hafa ekki getað komið í veg fyrir, að svo er komið sem komið er, má benda á það, hve erfitt þetta er. Verklýðshreyfingin hefur líka tekið afstöðu í andstöðu við ófrið. Hún hefur staðið ráðalaus gagnvart þessu böli, sumpart gefizt upp og sumpart hrifizt með í ósköpunum, þegar ofsinn hefur gripið menn.

Vil ég svo benda á það í sambandi við margt, sem komið hefur hér fram, hvað kirkjan hefur haldið sér demokratiskri sem stofnun. Þegar páfadómurinn stóð sem hæst, var ekkert á móti því, að betlarar af götunni gætu orðið páfar, og þeir urðu það stundum. Þegar allt var í aðli og öðrum forréttindum í heiminum, þá var kirkjan svona demokratisk. Og þeir, sem hér ganga í guðfræðideild háskólans; eru frá ýmsum stéttum. Sú háskóladeild er alltaf demokratisk deild, , sem er ekkert einkennilegt. Í þessari deild eru menn víðsvegar að af landinu; þar er hlutfallslega langmest um það af deildum háskólans, að menn séu úr öllum stéttum og öllum landshlutum. Það er þess vegna ekkert fjær sanni en það, að það sé einhver stéttatendens í kirkjunni, eins og á ekki heldur að vera og má ekki vera.

Ég veit, að hv. 1. þm. N.-M. er ákaflega fróður maður og veit margt. En hann fór þó út fyrir það, sem hann veit, þegar hann sagði, að eldurinn í kirkjunni væri dauður. Og það er leiðinlegt að verða þessa var, sem fram hefur komið hjá þessum hv. þm., þegar maður hugsar um hans ætt. Frændi hans, sem var kennimaður og við höfum málaða mynd af hér í næsta herbergi, var mesti vakningarmaður í, trúmálum á sinni tíð. Og þessi hv. þm. er svo líkur honum í sjón, að ef máluð væri mynd af honum í prestaskrúða, býst ég við, að þeir væru næstum óþekkjanlegir að, hv. 1. þm. N.-M. og þessi mikli kennimaður. Faðir þessa hv. þm. var einnig mesti vakningarmaður, sem kom virkilegri vakningu af stað á Norðurlandi með sínum prestsskap. Ég held, sem betur fer, að hv. 1. þm. N.-M. fari hér ekki með rétt mál. En hins vegar, þegar menn urðu fyrir því, að eldurinn hjá þeim var dauður og þeir fóru á aðra bæi til að sækja eld, þá þótti alltaf rétt að taka þeim vel. Ef hv. 1. þm. N.-M. heldur, að eldurinn í kirkjunni sé dauður og að það megi sækja hann á bæinn hans, þá ætti hann ekki að fara að neita um neistann.

Mér þykir leitt, að hv. 1. þm. N.-M. og hv. menntmn. og hæstv. kirkjumálaráðh. misskilja þetta frv. þannig, að til þess sé stofnað til að koma af stað trúar vakningu, og að það sé eitthvað tvennt, sem eigi að velja á milli, trúarvakning og kirkjuþing. En ég nenni ekki að fara út í það aftur.

Hv. 1. þm. N.-M. hreyfði andmælum gegn einu atriði þessa frv., nefnilega kosningafyrirkomulaginu. Talaði hann um, að menn væru bundnir um langan tíma og því væri ómögulegt að velja þá þannig. En úr því að það á að velja fáa menn, en með sem minnstum tilkostnaði, þá er ekki hægt að girða fyrir þetta. En hér er ekki um beina kosningu að ræða, heldur óbeina. Og það má vænta þess, að þeir, sem starfa í sóknarnefndum, og hlutverk þeirra á að vera að kjósa kirkjuþingsmenn, þá fari þeir menn að kynna sér þessi mál. Ég get hugsað mér, að það kynni kannske að verða helzt til mikill sveitadráttur um það, hverjir ættu að vera kirkjuþingsmenn, en ýmsir menn í leikmannastétt skara fram úr í áhuga á andlegum málum, sem eðlilegt er, að væru kosnir og er það nokkur trygging fyrir því, að beztu mennirnir til kirkjuþings yrðu fyrir kjöri. Að öðru leyti má segja um allar kosningar: hvar er tryggingin fyrir því, að beztu mennirnir verði kosnir til þess, sem velja á menn til? Hvaða trygging er fyrir því, að hæfustu menn til þingsetu séu kosnir við kosningar til Alþ.? Viðkomandi kosningu til kirkjuþings er hægt að fara næst því að ná þessari tryggingu með því að setja skynsamlegar reglur, og ég álít, að í frv. sé farin heppileg leið með því að haga kosningu eins og þar er gert ráð fyrir, en vera ekki að hringla fram og til baka um það, hvaða menn eigi sæti á kirkjuþingi. Því skyldu menn ekki eins vera leiðir á því fyrirkomulagi, þegar maður situr lengi á Alþ. fyrir sama kjördæmið? Þetta er þó þannig haft. Ef maður reynist vel sem þm., þá er hann kosinn oft aftur og aftur á þingi á hverju ári, kannske alla sína ævi. Þetta á við um marga menn. Hvers vegna er ekki sagt um alþm., að þeir eigi að vera fyrir þetta eða hitt kjördæmið úr öðrum hreppi næsta ár heldur en í fyrra eða í ár? Nei, ef maður er svo þekktur fyrir áhuga á trúmálum og andlegum málum, að hann safnar fylgi um sig á stóru svæði, þá eru miklar líkur til þess, að hann verði nýtur á kirkjuþingi. Og hvað gerir þá til, þó að hann verði kosinn oft?

Ég varð fyrir ekki litlum vonbrigðum af ræðu hæstv. forsrh. Ég hafði ekki talað um málið við hann. En mér datt ekki í hug annað en að sá ráðh., sem fer með kirkjumál, mundi heldur veita því lið, að frv. gengi fram hér á Alþ. og með því lofa að gera þessa tilraun, ekki meiri kostnað en hún hefur í för með sér. En kröfurnar eru nú settar upp í háspennu. Það er ekki hægt að vera með þessu, af því að það er ekki alveg víst, að það mundi valda straumhvörfum í kirkjunni. Það er ekki verið að tala svona, þegar verið er að ræða um að senda menn til útlanda til þess selja nokkrar síldartunnur eða þá til Suður-Ameríku. til þess að selja þar nokkra fiskpakka. Þá er fórnað tugum og hundruðum þúsunda kr., en ekki verið að tala um straumhvörf. Það dettur engum í hug, að búnaðarþing valdi neinum straumhvörfum í landinu, svo að land búnaðurinn verði allur annar og allt eigi að gerbreytast við setu þess þings í búnaði landsmanna. Það er vitanlegt, að trúar- og kirkjulíf á að eflast, alveg án tillits til þess, að þessir fáu menn koma saman á kirkjuþingi annað hvert ár. Mér voru það ákaflega mikil vonbrigði, að hæstv. kirkjumálaráðh. skyldi taka svona í þetta mál.

Þetta kirkjuþing á að vera, ég vil segja, ákaflega þurr samkoma, þar sem á að taka fyrir frumvörp um það, sem hún álítur, að geti orðið að gagni um efling trúar- og kirkjulífsins í landinu. Það má enginn halda, að það sé meiningin, að vegna þessa kirkjuþings eigi allir prestar að hætta öllum vakningatilraunum, eða að biskupinn eigi að hætta að tala við presta um kirkjuleg mál. Mér fannst það galli á því frv., sem áður var á ferð um kirkjuþing fyrir nokkuð löngu, að þar var gert ráð fyrir, að prestastefnan skyldi vera lögð niður. En hér er gert ráð fyrir, að menn komi saman annað hvert ár, og sé þá kirkjuráð búið að gera till., sem leggist síðan fyrir kirkjuþingið til athugunar og e. t. v. breyt., svo að Alþ. geti fengið ýmis mál, sem til þess koma frá kirkjunnar mönnum, betur undirbúin. Ég álít, að ytri umbúðir séu ekki gagnslausar eða einskis verðar fyrir hið innra líf. Eins og skelin er búin til varnar því innra lífi, sem í henni er, en er ekki lífið sjálft, þannig álít ég, að það sé alls ekki einskisvert, hvernig umbúðirnar eru.

Það er nú svo á þessari háttv. samkomu, að stundum eru menn ákaflega sárir á að veita einar 5 þús. kr., en stundum fleygja menn stórum fúlgum fjár í svo að segja ekki neitt, jafnvel til þess, sem að engu gagni kemur.

Þegar menn eru sendir á þing eða fundi ytra, dettur held ég fáum í hug, að það muni verða til þess að valda neinum straumhvörfum. En margt gott hefur samt af því leitt. En hér, þarf að vera vissa fyrirfram um það, að þetta, sem hér er miðað að, valdi straumhvörfum, til þess að hv. þm. vilji fylgja því. Ég get hugsað, að mönnum hafi ekki þótt það burðugt, þegar fyrsta ráðgefandi þingið, skipað nokkrum mönnum, mátti koma saman hér á landi til þess að semja bænaskrá. En afleiðingin af því varð þó sú, að það urðu straumhvörf. Það er ekki víst, að slík straumhvörf yrðu hér, þó að þetta frv. yrði samþ., en það væri undir því komið, hvernig störf þess þings yrðu. Á prestastefnum ræða prestar sín áhugamál, um söng, prédikun, sakramentin og uppbygging í starfinu. En kirkjuþingið á að vera öðruvísi samkoma, sem á að vinna að góðum undirbúningi alveg raunhæfra mála. En þau mál gætu búið í haginn fyrir margvíslega vakningu í kirkjunni. Ég hefði þess vegna vænzt þess, að hæstv. kirkjumálaráðh. hefði viljað veita því lið, að þessi tilraun væri gerð, og a. m. k. að málið fengi að ganga nokkuð áfram hér í þessari hv. d.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta, en aðeins enn þá óska eftir velvild hv. þm. um, að málið fái að ganga fram.