16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

41. mál, krikjuþing

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Ég geri ráð fyrir, að hv. 1. þm. Reykv. sé nokkur greiði gerður með því að hafa einhverjar umr. um þetta frv., vegna þess að hann hefur, bæði í n. og hér í ræðu sinni, réttilega tekið fram, að með þessum 3 frv. sínum væri hann að nokkru leyti að leita eftir vilja hv. þd. og gefa mönnum tækifæri til að athuga og ræða þessi mál. Mér finnst hins vegar, þegar ég heyri, að hv. flm. þessa frv., þrátt fyrir það, þótt hann sé öruggur stuðningsmaður stj., hefur þó ekki að mér virðist rætt um málið við þann veraldlega yfirmann kirkjumálanna, sem er hæstv. kirkjumálaráðh., og finnst mér það út af fyrir sig mega teljast galli á hans málsmeðferð í þessu máli. Og þegar hann, sem er prófessor í guðfraeði, kemur með svona frv., þá hefði hann átt að tryggja sér það, að það hefði stuðning þess ráðh., sem mest hefur með málið að gera af hæstv. ráðh. Ég sé ekki heldur, að hann hafi talað við biskup um þetta mál, áður en hann bar fram frv., en ég veit það þó ekki.

Mér finnst, að hv. flm., hv. frsm. meiri hl. og hv. 2. landsk. (eftir því, sem ég hef fylgst með

ræðu hans) hafi varla gert sér nógu skýra grein fyrir því, hvort þeir hugsi sér, að samþykkt þessa frv. gæti leitt til þess, að fleiri stéttaþing kæmu af þessu tagi. Ég býst við, að erfitt mundi verða að neita stórum stéttum um sams konar fríðindi, svo sem læknastéttinni; kennurum og t. d. póstmönnum og kannske fleiri stéttum, ef þetta verður samþ. Þetta eru í mínum augum veruleg mótmæli gegn því að setja þessa stofnun nú strax af stað, a. m. k. fyrr en forgöngumenn kirkjunnar eru búnir að skapa utan um þetta virkilegt líf.

Ég lít því á frv. að því leyti eins og hann leit á þetta. Ég skal nefna dæmi um þetta. Ég skal benda á, að t. d. vélstjórar, sem eru mjög fámenn stétt, þeir geta bókstaflega, ef þeir bara vilja taka sér frí, skapað hungursneyð í þessu landi. Þeir þurfa ekki að segja annað en það, að þeir bara sigli ekki. Ég vil bara benda á, að svona lítil stétt getur gert þetta. Og það liggur alltaf við borð, að hver stétt um sig setji þjóðfélaginu afarkosti. Og án þess að ég ætli að fara að angra hv. 2. landsk., sem hefur óneitanlega verið mikill atorkumaður um sköpun vissra deilda í þjóðfélaginu, þá finnst mér, að hv. 1. þm. Reykv., sem ekki óskar eftir, að þjóðfélagið leysist upp í slíkar ákveðnar deildir, ætti ekki að styðja að því með starfi sínu á Alþ.

Ég heyri það á ræðu hv. 1. þm. Reykv., að hann lítur þannig á, að synodus eigi að halda áfram og hafa þá andlegu hlið með höndum, þá hlið, sem mestu skiptir fyrir starf prestanna. Af ræðu hv. þm. má skilja, að hann ætlar synodus að vera fyrir kirkjulegu hliðina, en þessu kirkjuþingi fyrir þá veraldlegu. Og ég vit segja, að þetta styrkir mína skoðun á því, að þetta sé tilraun til þess að draga prestana inn í stéttarfélagsskap, en frá því, sem mest er um vert, að þeir séu, óháðir og fjölhæfir menn. Ég vil segja, að hv. l. þm. Reykv. sé ágætt dæmi um það, hvernig prestar landsins hafa verið í störfum sínum fyrir þjóðina að undanförnu. Hv. þm. er mjög fjölhæfur maður. Það er óhætt að fullyrða, að það sé vart til það starf í íslenzku þjóðfélagi, .sem hann væri ekki fullkomlega gjaldgengur í og fremri öðrum að hæfileikum. Ég vil segja, að það sé happ fyrir Alþ. að hafa slíkan mann til að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar. En þótt allir prestar landsins séu að sjálfsögðu ekki jafnir þessum hv. þm., þá er hann ágætt dæmi um fjölhæfni prestastéttarinnar. Þessi stétt hefur verið talin gjaldgeng í allar mögulegar stöður. Hún hefur þar af leiðandi, fyrir utan sitt kirkjulega starf, haft þýðingarmikið hlutverk að vinna fyrir þjóðfélagið. Og þetta stafar af því, að þessi stétt hefur haldið sér fyrir utan þennan þrönga hugsunarhátt, sem hefur sett margar þjóðir út af sinni réttu braut. Ég vildi þess vegna, að ég gæti sannfært hv. flm. um það, að hann sé með þessu frv. að draga prestastéttina frá því, sem hefur verið hennar mesti hróður og sómi, yfir í hóp stéttarfélaganna. Og ég vil segja, að fylgi hv. 2. landsk. við frv. sé einhver bezta sönnunin fyrir því, þar sem hann er málsvari stéttasamtakanna, að hv. flm. ætti ekki að halda jafnfast á málinu og hann gerir.