04.06.1941
Neðri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

41. mál, krikjuþing

Frsm. (Þorsteinn Briem) :

Hv. þm. V.-Húnv. minntist á einn agnúa, sem hann fann á þessu frv. Það voru ákvæði 1. gr. um, að þingið skuli háð í Reykjavík. Ég hygg, að þetta ákvæði sé sett í frv. vegna biskups, sem hefur aðsetur í Reykjavík. Það þykir ekki hentugt, að hann sé lengi í burtu frá embætti sínu, nema þegar hann er í vísitazíuferðum. Ef biskup skiptir um aðsetur, þá verður þingstaðurinn þar, sem hann á sæti. Því má skjóta fram, að búnaðarþing og fiskiþing eru háð í Reykjavík, þótt engin fyrirmæli um það séu í lögum. Annars var ekki að heyra, að þessi hv. þm, væri frv. andstæður, því hann ætlar að flytja brtt. við það við 3. umr.

Hv. þm. N.-Þ., sem var heldur að hnýta í frv., hitti þó réttilega á höfuðatriði málsins, sem sé þátttöku leikmanna í kirkjustarfínu, sem honum þótti vera of lítil samkv. frv. Það mátti skilja orð hans svo, að það væru ekki söfnuðirnir í þessu landi, sem gætu kosið fulltrúa sína á kirkjuþing, en það eru einmitt þeir, sem kjósa þá, ekki beint, heldur gegnum kjörmenn. Ég hygg, að það sé kunnugt dæmi, m. a. frá mestu lýðræðisþjóð veraldarinnar, að þar þykir ekki óhentugt, að þeir, sem öll þjóðin á að kjósa, séu kosnir af kjörmönnum. — Hann minntist á, að ekki væri alltaf vandað svo mikið til kosninga sóknarnefnda. Það kann að vera, að svo sé með allar kosningar, en ég hygg, að meiri áhugi verði fyrir því, þegar þeir eru kosnir sem kjörmenn til að velja fulltrúa á kirkjuþing.

Hv. 1. þm. Rang. minntist á þetta frv. og virtist hugmyndinni fylgjandi, en það væru ýmsar fleiri stofnanir innan kirkjunnar. En á það er að líta, að sumt af þessum félagsskap er alls ekki lögbundið, eins og t. d. prestafélagið. Sama er að segja um kirkjuráðið. Það hefur ekki enn þá haldið neina fundi í júní. Fundir þess eru oft á ári, eftir því sem mál ber að. Fundartími synodus er ekki heldur lögákveðinn, svo að ég minnist, og samkomustaðurinn ekki heldur lögákveðinn, enda er hann ekki alltaf sá sami.

Hv. 2. þm. Skagf. minntist á, að hér væri verið að stofna til stéttarþings. Það má segja, að synodus sé stéttarþing, þar sem þar mæta eingöngu prestar, en kirkjuþingið ekki, heldur þvert á móti; það er kosið af allri þjóðinni, má segja, svo að það er fjarri því, að það beri nokkurn blæ af stéttarþingi, a. m. k. helmingi minni en synodus.

Ég get ekki verið að gera ágreining um þetta 3 kr. kaup. Ég hygg, að það þyki ekki skipta máli, hvorki fyrir Alþingi eða kirkjuþingsmenn.

Ég hef ekki orðið var við andúð gegn þessu frv. hjá þeim, sem um það hafa talað, og mér skilst, að þeir séu ekki óvinveittir því, en það er með það eins og allt, sem er að fæðast, að ekki er að vita, að hverju gagni barn verður, en það verður alltaf gleði, þegar barn fæðist. Menn vona, að úr því verði góður og gegn maður, þó að það komi fyrst í ljós síðar, og spádómar um gagn og ógagn af slíkum hlutum er tilgangslaust að koma með. En reynslan sýnir hjá þeirri nágrannaþjóð, sem hefur þetta fyrirkomulag, að þjóðin vill ekki missa það og þykir það hafa orðið til mikillar blessunar fyrir kirkju þess lands, og ég hygg, að sú muni raunin einnig verða hér.