16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

42. mál, biskupsdæmi

Magnús Jónsson:

Það er venjulega litið á slíka afgreiðslu mála, sem hér er lagt til, eins og það að stinga málinu svefnþorn, en ég get eftir atvikum unað við þessa afgreiðslu á þessu máli, vegna þess að þetta mál er flutt af mér persónulega. Ég hef borið það fram upp á eigin spýtur, og það hefur ekkert verið rætt nema lauslega. Ég er hins vegar sannfærður um, að þetta er mál, sem nær fram að ganga, ef framtíðin er fyrir okkur. Og þetta er meðal annars af því, að þetta er liður í okkar sjálfstæðismáli, að vinna upp sem flest af því, sem frá okkur var tekið með því að sjúga merg og blóð úr þjóðinni. Á þeim tímum voru dregin saman seglin á flestum sviðum.

Ég get ekki fallizt á þær röksemdir, sem fram hafa verið bornar á móti því að endurreisa tvo biskupsstóla. Ég get hins vegar vel unað við þessa afgr. málsins, þar sem því er vísað til frekari umræðna á Synodus og meðal presta. Að því leyti get ég þakkað n. fyrir þessa afgreiðslu.