10.03.1941
Neðri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

45. mál, bændaskóli

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég get fallizt á það, sem hæstv. forsrh. tók fram í ræðu sinni, að nauðsyn bæri til þess, að skólakerfi landsins væri tekið til endurskoðunar og athugunar. Verður að haga starfi skólanna þannig, að þeir svari tilgangi sínum á öllum sviðum. Ég hef þess vegna ekkert að athuga við þessa væntanlegu endurskoðun, en frá mínu sjónarmiði er þessum málum þannig háttað, að til eru skólar í landinu, sem eiga svo afmarkaðan og sjálfsagðan tilgang og sérstakt starf af höndum að inna, að um þá verði ekki deilt, hvað sem má svo segja um aðra skóla. Þetta eru bændaskólarnir. Ég þykist líka viss um, að þeir þm. munu færri vera, ef þeir eru nokkrir, sem litu öðruvísi á þetta mál. Það má ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd, að bændaskólarnir vinna mikið starf að heill landsmanna, með því að veita bændastétt landsins nauðsynlega menntun. Það eru ekki nema 2–3 ár síðan núgildandi 1. um bændaskóla voru samþ. á Alþ. með ákvörðunarstaði á Hólum og Hvanneyri. Nú hafa þeir annmarkar komið í ljós á skólakerfi voru, sem enginn kom auga á 1938, enda var engin þörf á öðru þá en að fá lögin um bændaskóla samþ. Eins og hæstv. forsrh. gat um, hafa héraðsskólarnir ekkert sérstakt verkefni, og því væri í ráði að taka þá til húsmæðra- og bændafræðslu. Sýnir þessi ráðstöfun greinilega, hversu mikil þörf er á slíkum skólum. Hvað snertir húsmæðrafræðsluna, þá er vaknaður almennur áhugi meðal íslenzkra kvenna fyrir stofnun slíkra skóla, þar sem ungar stúlkur eru búnar undir að geta veitt heimilum forstöðu. Hið sama gildir um bændaskólana, og ég vænti þess, að hv. landbn., sem fær málið til athugunar, taki þetta með í reikninginn í athugunum sínum. Eins og hæstv. forsrh. gat um, er það hans uppástunga, að einhverjir af héraðsskólunum yrðu hagnýttir sem fyrri bekkur í bændafræðslu, og þeir, sem vildu læra meira, færu að Hólum eða Hvanneyri til framhaldsnáms. En ég lít nú þannig á málið, að Suðurland eigi fullan rétt á að fá bændaskóla, sem veitti fullnægjandi fræðslu beggja bekkjanna. Suðurland er þannig úr garði gert frá náttúrunnar hendi, að það stendur sízt að baki þeim héruðum, sem nú fá að njóta bændaskólanna, svo sem Borgarfirði og Norðurlandi. Ekki er heldur hægt að segja um Sunnlendinga, að þeir þurfi síður skóla, af því að þar sé einn stærsti héraðsskóli landsins. Ég veit ekki betur en Norðurlan,; þar sem Hólaskóli er, hafi 2 alþýðuskóla, annan í Þingeyjarsýslu, en hinn í Húnavatnssýslu, fyrir utan ýmis konar búnaðarfræðslu í höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Líkt er ástatt um Hvanneyrarskólann. Þar er skóli í nágrenninu, sem svarar til Laugarvatnsskólans. Þá kem ég aftur að þeim rökum, að frá sjónarmiði þeirra, sem telja bændaskóla nauðsynlega til uppbyggingar stéttinni, hlýtur að vera áríðandi, að sem flest héruðin fái að njóta þeirra. Þessu hygg ég, að erfitt yrði að andmæla. Og þótt skólakerfi vort sé öðruvísi en skyldi og hvorki héraðsskólar né barnaskólar nái tilgangi sínum, er gott til þess að vita, að bændaskólarnir geta sagt með góðri samvizku: „Það kemur ekki mál við mig.“

Ég skal svo ekki lengja umr. frekar, en vænti þess, að hv. landbn. afgreiði málið með góðum skilningi og hjálpi því til að ná fram að ganga.