21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

45. mál, bændaskóli

Eiríkur Einarsson:

Ég hefði getað óskað mér, að hv. landbn., sem skilað hefur álitsskjali um þetta frv., hefði fætt þar eitt afkvæmi. En álitsgerðin hefur orðið tvíburafæðing, og þegar svo er, getur alltaf verið mikið álitamál, hvort afkvæmin eru efnileg.

Þó að hv. meiri hl. n. mæli sanngirni- og vinsemdarorðum til málsins, ganga samt till. hans út á frestun þess. Er talað um það af hálfu Þeirra, sem vilja fresta málinu, að það sé undirbúningslaust. Ég get ekki skilið þessa málsmeðferð, — ekki af því, að ég telji ekki, að málið þurfi undirbúnings við. Undirbúnings þarfnast það tvímælalaust. Og þar kemur tvennt til greina: Það, hvort bændaskólinn eigi rétt á sér, og svo hitt, hvar hann skuli vera: En það, hvort bændaskóli á Suðurlandi eigi rétt á sér, er játað af öllum, líka þeim, sem vilja fresta málinu. Um það atriði er því fyrir sá undirbúningur, sem gildir. Hitt atriðið, sem er mikilsvert, er spurningin: Á það ekki að vera tilgangurinn með samþykkt þessa frv., að það gefi beint tilefni til staðarvals? Mér finnst samþykkt frv. hljóta að gefa myndugleik til staðarvals. Væri þá meining þess þetta, að ekki væri ástæða til að samþ. að stofna bændaskóla, nema honum væri jafnframt ákveðinn staður í kaupstað eða sveit. En á Suðurlandi er svo rúmgott til slíkra hluta, að þeir, sem ættu að velja skólanum stað, ættu sízt að þurfa að vera í vandræðum.

Þá er það ekki rétt, að þetta mál hafi ekki verið rætt af Sunnlendinga hálfu. Ég held, að hv. frsm. hafi ekki farið rangt með þetta viss vitandi. Á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands var einmitt gerð samþykkt um þetta. (StgrSt: Það hefur þá ekki verið sent Alþingi.) Það má vera; samþykktin var gerð eigi að síður, og þrír menn kosnir, sinn úr hverju héraði, til að halda á málinu, þeir Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, Sigurður Ágústsson í Birtingaholti og Skaftfellingur hinn þriðji. Ég hef rætt um þessa samþykkt við flm. hennar á búnaðarsambandsþinginu. Það mun sannast, að allir menn, sem sækja til framgangs í athafnalífinu og treysta á framtíð íslenzkra sveita, verða fylgjandi þessu máli. Ég skil varla, hvað þeim gengur til, sem óska málinu góðs, en vilja ekki annað fyrir það gera en skjóta því inn í það byrgi, sem nú á að hrófla upp til að geyma í allar umbótatillögur í skólamálum til næsta Alþ., nefndina, sem kvað eiga að leysa öll vandkvæði okkar í menntamálum. Annars hafa legið fyrir þinginu skólamál, sem ekki hefur þótt nauðsyn að leggja undir þá n., t. d. l. um húsmæðrafræðslu, sem nú mun ráðið, að nái fullnaðarsamþykki næstu daga. Það er nokkuð sérgreint mál, en stofnun þessa bændaskóla er það ekki síður. Að vísu veik hæstv. forsrh. að því í ræðu sinni um daginn og hv. frsm. meiri hl. nú, að taka þyrfti til álita, hvort ekki yrði hægt að sameina að einhverju leyti fræðslu húsmæðraskólanna og bændaskólanna við undirbúningsfræðslu þá, sem héraðsskólarnir veita, t. d. að eins vetrar nám þar veitti aðgang að framhaldsskólum húsmæðra- og bændaefna. — En mér virðist Suðurlandsláglendið eiga rétt á að fá ekki aðeins undirbúningsskóla, þannig að unga fólkinu þaðan sé ætlað að sækja menntun sína undir lífsstarfið í önnur héruð, heldur eigi sú framhaldsfræðsla að komast á þar sem allra fyrst. Sú fjarstæða er ekki svaraverð, að of skammt yrði þá milli Laugarvatnsskólans og bændaskólans. Þvert á móti væri það kostur, að samvinna þeirra væri ekki torvelduð sakir fjarlægðar. Þessi röksemd hefur ekki heldur verið höfð gegn því, að Reykholtsskóli mætti vera í sama héraði og Hvanneyri eða héraðsskólar norðan lands á báða bóga við Hólaskóla. Allir Sunnlendingar, sem vilja ekki krjúpa lægra en þeim sýnist sanngjarnt, munu fylgja eftir kröfunni um bændaskóla sinn.

Ég kann minni hl. landbn. þakkir fyrir, að hann lítur á málið líkt og ég, og ég veit, að margir hv. þm. eru sama sinnis. Meiri hl. n. hefur ekki heldur haft nema vinsamleg orð um málið, þótt ég telji tillögur hans ekki æskilegar.