10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls hér í hv. d., þá var það tilgangur minn, að ríkisstj., eða a. m. k. atvinnumálaráðun., mundi hlutast til um það, að flutt væri frv. um sjómannaskóla á þessu þingi. Farmannasambandið hafði snúið sér til atvinnumálaráðun. og beint til þess ósk um það, að það hlutaðist til um, að slíkt frv. yrði flutt. Þetta var s. l. haust. Ráðuneytið gaf þá fyrirheit um að gera þetta eftir að það fengi til þess samþykki fjármálaráðuneytisins.

Í öndverðu hafði ég hugsað mér, að þetta mál yrði í mjög óskyldum búningi þeim, sem það er í þessu frv., og kom það fram í blaði hér í Reykjavík s. 1. haust, eftir að séð varð, að afkoma útgerðarinnar mundi verða betri heldur en áður en skattfrelsisl. voru sett, en áður en vitað var, að hún yrði svipað því eins góð og raun varð á. Ég taldi þá rétt að greiða fjárfúlgu nokkra til þess að upp yrði komið veglegum verustað fyrir starfsemi sjómanna hér í höfuðstaðnum, bæði sjómannaskóla og skóla fyrir þær stéttir sjómanna, sem skóla sækja, og hafði ég hugsað það miklu víðtækara heldur en að miða það eingöngu við skólastarfið. Eftir að útgerðin fór að græða verulega, þótti bæði mér og öðrum réttmætt að afnema skattfrelsisl., sem gilt höfðu fyrir útgerðina, og þar með var af minni hendi horfið frá þeirri till., sem ég hafði hugsað mér að bera fram. En hins vegar var því slegið föstu milli mín og hæstv. fjmrh., að þetta frv. yrði borið fram á þinginu. En þá hlupu tveir hv. þm. vinstri flokkanna fram fyrir skjöldu, þótt þeir vissu um ætlun mína í þessu efni, og við það get ég ekki sætt mig. Tel ég það frv. hafa verið illa undirbúið. Eftir því frv. átti ríkið að leggja fram 100 þús. kr. á ári til byggingar sjómannaskóla. Þetta hafði verið lagað, og heimildin í frv. er komin upp í 300 þús. kr. á ári, þar til byggingarkostnaði er að fullu lokið. En ég hef talið réttara, að þetta mál fái annað form. Ég vil ekki afsala hæstv. Alþ. að hafa endanlega meðgerð með það, hvernig þessu máli er komið fyrir: En eins og þetta frv. ber með sér, hefur hvorki þing né stjórn endanlegan rétt til þess að ráða yfir lausn málsins, ef n., sem. valin er af vissum aðilum, kemur sér saman um stað fyrir skólann, um fyrirkomulag hans og byggingu. Ég tel rétta meðferð þessa máls þá, sem nú er orðin að nokkru leyti, að Alþ. sýni sinn vilja með því að veita stj. fjárfúlgu í fyrsta skipti til þessa. Ég lagði til, að brtt. yrði samþ. við 16. gr. fjárl. um 500 þús. kr. fjárveitingu til þessarar skólabyggingar á næsta ári, en til samkomulags við hv. fjvn. gekk ég inn á að flytja till. af 16. gr. á 22. gr. fjárl., sem er heimildargr., en lýsti þó jafnframt yfir, að þetta skipti að því leyti engu máli, að hæstv. fjmrh. hefði tilkynnt mér, að ef þess yrði nokkur kostur, mundi ríkissjóður alveg jafnt leggja fram fé, hvort sem fjárveitingin væri á 16. gr. eða heimildin á 22. gr. Svo er haldið áfram að leika þann leik hér á hæstv. Alþ. að hafa þetta mál til þess að fegra sig með. Um leið og ég tók aftur mína brtt., tóku sósíalistar (Alþfl.-menn) upp þessa till., þó að þeir vissu, að öll ríkisstj., og þar með hæstv. félmrh., sem er þeirra flokksmaður, var með því, að þessi upphæð var flutt af 16. gr. og yfir á 22. gr. Ég ætlaði að standa við það, sem ég hafði heitið, um að flytja þessa till. frá 16. gr. yfir á 22. gr., og ætlaðist til, að Alþfl. gerði það líka, eins og aðrir stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar.

Ég mun nú, áður en þessu máli lýkur, bera fram till., sennilega rökst. dagskrá. Vil ég biðja hæstv. forseta að sjá svo til, að ég fái tóm til að semja hana áður en umr. lýkur nú, en ég hugsa mér, að hún verði á þá lund, að þar sem Alþ. hafi heimilað ríkisstj. að leggja fram 500 þús. kr. til byggingar sjómannaskóla, og þar sem þetta frv. hafi ekki fengið nægilegan undirbúning, og þar sem sýnt þyki, að málið líði ekki neitt tjón við það, þótt löggjöf um það verði frestað, vegna þess að á þessu ári verði hvort sem er ekki auðið að hefjast handa um byggingu skólans, og þar sem ríkisstj. hafi lofað að leggja málið vel undirbúið fyrir næsta þing, taki deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Ég heiti því, að ef þessi leið verður farin, þá mun ég undirbúa þetta mál í samræmi við forráðamenn sjómanna og leggja þetta mál fyrir næsta þing á þann hátt, sem vel er við unandi.