10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Ég taldi rétt, ásamt þeim, sem skrifað hafa undir þessa áskorun um að taka þetta mál á dagskrá, að hv. þd. skæri úr því, hvernig það skyldi afgr. Ég tel ákaflega litla ástæðu til þess fyrir hæstv. atvmrh. að beita sér á móti þessu frv., þótt það sé flutt af tveimur hv. þm. Önnur ástæða sýnist í raun og veru ekki vera fyrir andstöðu hans gegn frv. Það er orðinn lítill réttur hv. þm., ef þeir eiga, vegna þess að einhver ráðh., jafnvel þótt hæstv. atvmrh. sé, hefur sagt, að hann mundi flytja frv. um sama efni, ef þm, eiga af þessum ástæðum að halda aftur þeim frv., sem þeir vilja flytja og koma í framkvæmd. Ég mótmæli því alveg, að hv. þm, hafi ekki frelsi til að leggja fram þær till., sem þeim sýnist, þegar þeir vita, að þær fara í sömu átt og vilji þeirrar ríkisstj., sem þeir styðja. Það hefur líka komið í ljós, að þetta frv. á mjög eindregið fylgi, ekki aðeins meiri hl. hv. þdm., heldur mikils þorra þm., þar sem það hefur farið gegnum þrjár umr. í hv. Ed. og tvær umr. í þessari hv. d., andmælalaust og fengið eindregin meðmæli hv. sjútvn. í báðum d.

Ég neita því alveg, að þetta frv. geti að einu eða neinu leyti tekið nokkurt vald úr höndum þingsins, og ég óska eftir því, ef hæstv. atvmrh. vill halda fast við sín ummæli um það, að hann færi einhver rök fyrir því. Þetta frv. sýnir þvert á móti mjög eindreginn þingvilja í þessu máli. Það hefur sýnt sig við allar þær umr., sem það hefur farið í gegnum, og samhljóða því eru álit beggja sjútvn. Alþ. Mér koma þau ummæli hæstv. atvmrh. mjög einkennilega fyrir, að það hafi verið einhver leikur að styðja að því, að heimild yrði tekin upp til þess að greiðslan til sjómannaskólans árið 1942 yrði tekin upp á 16. gr. fjárl., en ekki færð á 22. gr. Hvers vegna lagði hæstv. atvmrh. þá til í fyrstu, að heimildin yrði tekin upp á 16. gr.? Var það einhver leikaraskapur hjá hæstv. atvmrh.? Mér þætti mjög leitt, ef ætti að skilja ummæli hans svo, að hann hafi ekki flutt sína till. í alvöru hér í fyrstu.

Annars er heimild á 22. gr. ekki líkt því eins vafalaus og fjárveiting á 16. gr., jafnvel þó að fyrir liggi alls konar yfirlýsingar. Við höfum m. a. heyrt á hv. frsm. fjvn., að hann beindi þeirri eindregnu ósk til ríkisstj. að fara mjög varlega í hækkun á heimildum 22. gr. fjárl.

Mér skilst, að um þetta mál sé í sjálfu sér enginn ágreiningur, heldur séum við sammála um, að þetta eigi að komast í framkvæmd. En hæstv. atvmrh. virðist vilja fresta framkvæmd málsins um eitt ár, og að mér sýnist algerlega að nauðsynjalausu og gegn vilja mikils þorra þingmanna, sem hafa látið sitt álit í ljós um Það, að þetta mál kæmist fram óbreytt, að undanteknu því, að hv. þm. N.-Þ. hefur áskilið sér rétt til að flytja brtt. viðkomandi ákvörðun staðar fyrir þennan skóla, og þessi hv. þm. hefur gert þessa brtt, Ágreiningurinn sýnist þá vera eingöngu um þetta, hvort það eigi að fresta þessu máli um eitt ár eða ekki, og láta hæstv. atvmrh. hafa undirbúning málsins á hendi, sem mikill þorri hv. þm., með fylgi sínu við frv., sem hér liggur fyrir, er nú þegar búinn að láta í ljós álit um, að sé nægilega undirbúið.

Nú getum við vitanlega ekkert um það sagt, hvernig ástandið muni verða á árinu 1942. Við getum ekki um það sagt, hvort möguleikar verða á því að hefja undirbúning undir byggingu sjómannaskóla þá, þó að við vitum það, að nú á þessu ári eru nægir möguleikar til þess. Þannig, að þó að hæstv. atvmrh. sjálfsagt ekki ætlist til þess, þá getur frestun um eitt ár á þessu máli orðið til þess að fresta því um óákveðinn tíma, í stað þess að samþ. þetta frv. og tryggja þar með, að hafizt verði handa um byggingu sjómannaskóla þegar á þessu ári. Ég skal ekki að nauðsynjalausu teygja þessar umr., en ég vil geta þess, að ég veit ekki betur en að atkvgr. hér í d. hafi sýnt það, að meginþorri dm. sé þessu frv. samþykkur. Það kæmi mér því mjög á óvart, ef rökstudd dagskrá frá hæstv. atvmrh. yrði samþ.