10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það er alveg rétt sem hæstv. atvmrh. tók fram, að stj. er öll á einu máli um það að setja inn á 22. gr. fjárl. heimild til þess að greiða til byggingar

sjómannaskóla ½ millj. kr. En ég sé ekki, að það á nokkurn hátt raski því, að á þessu þingi verði sett löggjöf um byggingu skólans. Mér hefur virzt, að innan ríkisstj. væri áhugi fyrir því, að það yrðu gerðar allar þær ráðstafanir, sem unnt væri, til þess að flýta fyrir byggingu skólans, og ég veit, að hæstv. atvmrh. hefur látið það álit sitt í ljós innan ríkisstj., að hann vildi að því stuðla, að skólinn yrði sem allra fyrst byggður. Hæstv. atvmrh. er það ljóst, ekki síður en öðrum, sem til þekkja, að ástandið eins og það er með skólahúsið er vissulega ekki til frambúðar, og það ríður mjög á því, að hafizt verði handa sem fyrst um byggingu nýs sjómannaskóla hér á landi. Ég sé því ekki betur en að það geti mjög vel farið saman, að á þessu þingi verði sett löggjöf um byggingu stýrimannaskóla og einnig hitt, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að leggja fram allverulega upphæð til þessarar hyggingar á næsta ári, — ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ég var fylgjandi því, að till. væri aðeins heimildartill. (á 22. gr.), en ekki sett inn á 16. gr. fjárl., eins og til var ætlazt, og það var vegna þess, að mér var kunnugt um það, að innan ríkisstj. var almennur áhugi fyrir því, að hafizt yrði handa svo fljótt sem unnt væri um byggingu stýrimannaskóla. Hins vegar vildi ég fyrir mitt leyti, að heimilað yrði, að ríkisstj. fengi allmikla fjárfúlgu til umráða og vildi einnig, að sett yrðu 1. á þessu þingi um bygginguna. Annað mál er það, hvort hæstv. atvmrh. vildi t. d. flytja einhverja brtt. við þetta frv., sem fyrir liggur, og ég álít það ekki aðalatriðið, hvort frv. verður samþ. í þessu formi. Aðalatriðið frá mínu sjónarmiði er, að þetta þing samþ. löggjöf um byggingu skólans, því að það flýtir fyrir framkvæmd málsins. Mér er það ljóst, að hæstv. atvmrh. hefur áhuga á því, að skólinn verði reistur, en ég teldi miklu betra að fá löggjöf um þetta mál nú á yfirstandandi þingi.