10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2956)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það er gott, að lög og réttur eiga sér enn málsvara hér í þessu landi, en það er broslegt að heyra, hver málsvarinn er. Það fer mjög í taugar þessa saklausa lambs, að ég hafði það eftir hæstv. fjmrh., að hann mundi leyfa sér að greiða vissa fjárveitingu, sem Alþ. vill láta greiða. Það sýnir meðferð sjómannaskólafrv. á Alþ. Ég hafði leyft mér þá skelfilegu dauðasynd, að dómi þessa sakleysingja, að hafa það eftir hæstv. fjmrh., að hann mundi greiða þessa upphæð, þó að til þess væri ekki nema heimild, ef peningarnir væru til. Ég býst við því, að þó að upphæðina ætti að greiða eftir 16. gr., þá hefði fjmrh. ekki greitt hana, ef peningarnir yrðu ekki til, — sem þessi hv. þm. virtist þó gera ráð fyrir, að gert yrði. Ég get þess vegna tekið ummæli hæstv. fjmrh. út úr þessum umr. Hitt nær náttúrlega ekki nokkurri átt, að ég ætli að hafa að engu vissa samþ. í fjárl. eins og t. d. fjárveitinguna til hafnargerðar á Suðurnesjum. Ég held, að það hafi verið frá því skýrt við umr., en þessi hv. þm. var þá ekki í d., að hér væri miðað við að byggð yrði landshöfn, þannig að í staðinn fyrir, að ríkið leggur venjulega fram 1/3, þá leggi ríkið í þessu tilfelli fram allan kostnað. Af því leiðir, að af þessari höfn verður ríkið að standa undir vissum kostnaði og verður að hafa vissar tekjur. En nú fór hv. 1. þm. N.-M. fram á, að ef þessi höfn yrði byggð sem landshöfn, þá skyldi lóðaleiga ekki hækka frá því, sem nú er. Hugsum okkur, að nú ætti að byggja höfn, sem kostaði 5 millj. kr., og við gerðum það fyrir hv. þm. N- M. að samþ. hans till. Það liggur þá í hlutarins eðli, að ef byggja á höfn fyrir fleiri millj. kr., þá leiðir af því, að leiga fyrir landið, sem liggur að höfninni, verður hærri en hún var áður en höfnin var byggð. En annað mál er það, að ríkið ætti að geta eignazt löndin, sem að höfninni liggja. Ég held, að ég hafi með þessu borið af mér ámæli hv. þm.