08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

145. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Hv. þm. Hafnf. lítur svo á, að með þessu frv. sé ég að bera fram vantraust á ríkisstj. Mætti með sama rétti segja, að þeir hv. þm., sem voru með því að breyta tekju- og eignarskattslögunum, hafi greitt atkv. með vantrausti á stjórnina. Hv. þm. má hafa þessa skoðun fyrir mér, en hún hefur ekki við neitt að styðjast. En ég vil benda hv. þm. á, að á meðan það er á valdi fjmrh., sem hefur þá skoðun, að réttast sé að taka öll gjöld sem jafnast af öllum þegnum þjóðfélagsins, án tillits til gjaldgetu þeirra, er ekki nema eðlilegt, að hann noti slík heimildarlög. Hitt væri annað mál, ef sjónarmið þeirra manna væri ríkjandi í stj., sem álíta, að gjöldin beri að leggja á eftir gjaldgetu einstaklinganna, — þá yrðu slík heimildarlög ekki notuð. Það er því ekkert óeðlilegt við það, þótt hv. þm. Hafnf. álíti rétt að skattleggja þá, sem ferðast til Hafnarfjarðar og frá, og ná tekjum til Hafnarfjarðarbæjar á þann hátt, því það er í samræmi við stefnu Sjálfstfl., en það er óskiljanlegt, að hv. 2. landsk. skuli halda slíku fram, maður, sem fyllir þann flokk, sem telur slíka skattlagningu fullkomið ranglæti, en telur, að gjöldin eigi að leggja á eftir efnum og ástæðum. — Þegar málið snertir Hafnarfjarðarbæ, bregzt hann sinni eigin lífsstefnu og flokks síns. Hv. þm. (SÁÓ) er nú kominn á þann aldur og það þroskastig, að hann ætti að vera sjálfum sér samkvæmur. Ég get því vel skilið, að hann vilji athuga það nánar, hvort hann eigi að fylgja frv. eða ekki, og því vill hann, að málið fari til n., og þá helzt n., sem hann á sæti í. — Ég læt mig það engu skipta, hvort málið fer til n. eða ekki, en ef hv. þm. Hafnf. er það sársaukaminna, að borin sé fram rökstudd dagskrá þess efnis, að stjórnin noti ekki þessa heimild fyrst um sinn, get ég fyrir mitt leyti fallizt á þá afgreiðslu málsins. Þetta gjald hefur alltaf verið ranglátt, en nú er það auk þess óþarft, enda getur Hafnarfjarðarbær náð hærra gjaldi af einum manni með réttlátri útsvarsálagningu en þetta gjald veitti á ári.