12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

145. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði. Þessi dæmi, sem hann nefndi, eru alls ekki hliðstæð við Hafnarfjörð, og ég tók fram skýr rök fyrir því, af hverju Hafnarfjörður ætti að fá þetta frekar en nokkur annar bær á landinu. Ég vil benda á það, að hvað snertir þessa 3 bæi, sem hv. þm. nefndi, þá er það svo með Húsavík, að þar liggur vegurinn ekki í gegnum þorpið, — maður þarf ekki að fara niður í þorpið til að halda áfram leiðinni, nema þá til þess að fá sér að borða, og það er náttúrlega plús fyrir bæinn, að það sé gert. Hvað Blönduós snertir, þá býst ég við, að þar sé þetta svipað. Ég skal ekki segja um það, hvort vegurinn er þar beint byrði á plássinu sjálfu, en hann getur verið byrði á hreppnum. Um Akureyrarbæ er það þannig, að þar liggur vegurinn gegnum bæinn, en sá er munurinn, að þeir, sem fara í gegnum Akureyrarbæ, hvort sem þeir koma utan úr firði eða innan, fara það af því, að þar er þeirra verzlunarmiðstöð. En þannig er ekki með Hafnarfjörð, verzlunarmiðstöð þeirra, sem fara þar í gegn, er Reykjavík, og er þetta því sérstaða, sem Hafnarfjörður hefur, og álít ég það því fullkomlega sanngirniskröfu, að þetta verði tekið til athugunar.