17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

52. mál, þjóðfáni Íslendinga

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Borgf., að það hafi verið óviðeigandi, eða því sem næst, af ríkisstj. að setja inn í þetta frv. ákvæði, sem 1. og 2. gr. innihalda. Mér finnst sannast að segja þessar aðfinnslur ekki byggðar á miklum röksemdum. Þegar talað er um að setja löggjöf um meðferð fánans, þá er það tvímælalaust nauðsýnlegt, í sambandi við þá virðingu, sem ber að sýna honum, að ákvæðin um gerð hans séu ekki í konungsúrskurðum. En það er eitt af því fyrsta, sem maður rekur sig á í sambandi við þetta mál, að um þetta hefur hver konungsúrskurður inn á fætur öðrum verið gefinn út. Og þess vegna er þetta tvímælalaust eitt af því, sem til heyrir því efni, sem þál. fjallar um.

Mér finnst, að það einkennilega við þær aðfinnslur, sem fram hafa komið, vera það, að það er verið að finna að því, að þau ákvæði, sem nú gilda um gerð fánans, skuli vera sett inn í 1. og 2. gr. Það er aðeins tekið upp það, sem nú er, og þetta breytir þess vegna engu. Ef menn eru óánægðir með fánann, þá verða menn að koma með frv. um breyt. þar á. Ríkisstj. hefur ekki gert neitt annað en að taka upp þau ákv., sem gilda. Og ég tel þess vegna að fyllsta ástæða hafi verið til þess að stíga þetta spor. Hv. þm. Borgf. viðurkenndi, að óviðeigandi væri, að ákvæði um þetta væru í konungsúrskurði.

Eins og ég tók fram í framsögu, er það vel athugandi, hvort sérfánarnir eiga að vera með öðrum hætti en verið hefur. Og hv. þm. fá þá kærkomið tækifæri til þess að koma með brtt. um þau atriði.

Annars vil ég í lengstu lög leiða hjá mér allar deilur um gerð fánans. Ég get vel skilið tilfinningar þeirra manna fyrir bláhvíta fánanum, sem börðust fyrir honum, en slíkar tilfinningar mundu hafa vaknað hjá hverjum þeim, sem barizt hefði fyrir einhverri sérstakri gerð af fánanum. Mönnum þótti ekkert sérstaklega vænt um þessa liti í fánanum, bláa og hvíta litinn, heldur þótti mönnum vænt um þann fyrsta, fallega, íslenzka fána, sem þeir börðust fyrir og fékk jafnmikinn mótbyr og við allir vitum, en þessi barátta jók auðvitað vinsældir fánans, sem geymast enn í dag. En ég vil vænta þess, að menn skilji, að fáninn, sem við höfum haft milli 20 og 30 ár í þessu landi, hafi líka haft þau áhrif, að mörgum þyki vænt um hann, og það ekki síður en hinum þótti um bláhvíta fánann. Ég er t. d. viss um, að sjómannastéttinni þykir svo vænt um þennan fána, að ég efast um, að ef breytt yrði til, þá fengjust þeir til að sigla undir öðrum fána.

Það er ekki heldur hægt að neita því, að íslenzki fáninn; eins og hann nú er, er fagur. Það mátti líka vænta þess, að svo væri, eftir því hvaða menn það voru, sem ákváðu gerð hans, en það voru þeir Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Aðils; Þórarinn B. Þorláksson listmálari, Matthías Þórðarson. þjóðmináávörður og Guðmundur Björnsson landlæknir. Hygg ég, að þessum mönnum verði vart borið á brýn, að þeir hafi ekki verið listhneigðir menn, sem höfðu fullkominn smekk fyrir því, hvernig átti að setja saman liti. Og að rauði liturinn sé sameiningarmerki fyrir Dani, eins og ég hef heyrt fleygt, það held ég, að sé á litlum rökum reist, því það er vitað mál, að flestar þjóðir sækjast mjög eftir því að hafa rauða litinn á fánum sínum vegna þess hve litasamsetning með rauðu er oft fögur og eins hitt, að það sýndi sig, þegar fánarnir voru reyndir, að íslenzki fáninn er miklu betri siglingafáni en sá bláhvíti. Um þetta voru gerðar mjög merkar tilraunir. Bláhvíti fáninn var dreginn að hún úti í Engey, og piltar úr sjómannaskólanum voru látnir reyna í björtu veðri, hvort þeir þekktu sænska fánann frá bláhvíta fánanum. Það sýndi sig, að fjarlægðin þurfti ekki að vera mjög mikil til þess að fánarnir þekktust ekki í sundur. Og það var ekki sízt fyrir þessar tilraunir og fyrir tillögur skólastjóra stýrimannaskólans, að þessi fáni varð fyrir valinu, en ekki bláhvíti fáninn, en milli þeirra stóð valið aðallega. Annars er það alveg rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Borgf., að við ættum ekki, þótt vilji væri fyrir því á Alþ., að breyta fánanum, fyrr en í sambandi við full slit við Dani. Og ef slík sambandsslit fara fram fyrir ófriðarlok, þá tel ég meira að segja hæpið og jafnvel útilokað, að við ættum að hætta á það að breyta gerð fánans. Af því mundu geta stafað hinar mestu hættur fyrir skip okkar. Íslenzki fáninn er þekktur orðinn á flestum siglingaleiðum, en bláhvíti fáninn algerlega óþekktur, og ef við breyttum til um gerð fánans, þá yrði sennilega ekki almennt tekið eftir því í þeim hildarleik, sem nú geisar, og gæti af því stafað veruleg hætta fyrir skip okkar.

Annars hef ég ekki mikla trú á því, að meirihlutavilji sé fyrir því á Alþ., að breyta til um gerð fánans. Ég sé því ekki, að neitt sé athugavert við það, þótt upp í frv. væri tekin ákv. konungsúrskurða, sem nú gilda um gerð fánans. Hins vegar viðurkenni ég, að það má hæglega taka til athugunar í n. að breyta til um gerð sérfánanna. Það er atriði, sem ég býst við, að ekki valdi ágreiningi við mig.