28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

52. mál, þjóðfáni Íslendinga

Jörundur Brynjólfsson:

Tilefni þessa frv. var, eins og kunnugt er, þál., sem samþ. var í Ed. á síðasta þingi, þar sem skorað var á ríkisstj. að safna gögnum frá þeim þjóðum, sem okkur eru skyldastar, um það, eftir hvaða reglum þær nota fána sína og hvernig háttað er löggjöf þeirra um það efni. Frv. þetta, sem allshn. deildarinnar hefur haft til meðferðar og mælt með, að samþykkt verði, byggist á þeirri áskorun og er nokkru víðtækara en þál. gerir ráð fyrir. Vonandi kemur öllum saman um það á sínum tíma, hvernig þetta mál beri að leysa, en nú getur sumt orkað tvímælis. Eins og málin standa, sýnist mér ekki rétt að útkljá málið að þessu sinni. Tilefni voru til þess fyrst og fremst, að áskorun kæmi fram hér í þinginu um það að lögbjóða notkun þjóðfánans, og var aðaltilefnið það, að mönnum þótti mjög á skorta um það, hvernig íslenzki þjóðfáninn var notaður hér af ýmsum landsmönnum og við ýmis tækifæri og á margvíslega vegu, að óvíst gæti talizt, að slík notkun væri sæmandi fyrir þjóðernistákn okkar Íslendinga. Þetta mun hafa verið fyrst og fremst tilefnið. Og það er ekki nema sjálfsagt, að á sínum tíma verði tryggilega um það búið, að þetta þjóðarmerki sé í allri notkun og meðferð í heiðri haft.

Nú hefur Alþingi nýlega ákveðið fyrir fullt og allt á sínum tíma að taka öll sín málefni í eigin hendur og meðferð þeirra. En þar sem þó ekki er gengið formlega frá fullum skilnaði, heldur slegið á frest, þá þykir mér eðlilegast, að svo væri einnig um gerð fánans, og það atriði látið bíða þess tíma, þegar formlega verður gengið frá því, að landið taki öll sín mál í eigin hendur.

Við þekkjum það frá fyrri tíð, að nokkur ágreiningur var um gerð fánans af okkar hálfu Íslendinga. Og þeir, sem þátt tóku í frelsisbaráttu þjóðarinnar fyrrum og höfðu notað sem tákn fyrir þeirri hreyfingu fána af annarri gerð, undu því ekki vel, hvaða gerð var höfð á fánanum. Út í það ætla ég ekki að fara nánar. Þessi tilfinning fyrir gerð fánans er vakandi meðal þjóðarinnar, þó máske sérstaklega meðal þeirra eldri manna, sem þátt tóku í frelsisbaráttunni á sínum tíma. En ég geri ráð fyrir því, að ýmsir af yngra fólkinu, sem hafa kynnt sér, hvernig háttað var um frelsisbaráttu þjóðarimar, hafi einnig líka tilfinningu fyrir gerð fánans eins og hinir eldri menn frá frelsisbaráttutímanum. En upp á milli þessara skoðana ætla ég ekki að gera. Ég álít, að það atriði þessa máls eigi að bíða þess tíma, þegar endanlega verður gengið frá frelsismálum þjóðarinnar. Og þá verður sá minni hl., sem þá verður að hlíta ákvörðun meiri hlutans, að láta sér þær ákvarðanir lynda. Það má vera, að einhverjir kunni að halda því fram, að það sé næsta óviðfelldið nú að ákveða um gerð fánans og notkun hans, þar sem það hvíli aðeins á konungsúrskurði. Þó að ég sé í hópi þeirra manna, sem að sumu leyti hefðu viljað ganga til fulls frá þessu máli, Þá er ég samt sem áður ekki svo bráðlátur, að ég telji ekki, að þetta atriði geti hvílt á eldri fyrirmælum, og þess vegna megi þetta bíða, unz gengið er endanlega frá öðrum atriðum sjálfstæðismálsins, eins og ég hef vikið að.

Annars get ég tekið það fram, að ég hef ekkert á móti því, ef Alþ., sem nú situr, vill að ákvörðun sé tekin um sjálfa notkun fánans, því að það er nokkuð annað mál og aðrar ástæður

fyrir því, heldur en ákvörðun um gerð fánans. En ég get sagt fyrir mitt leyti, að mér finnst það ekki svo aðkallandi, að það þyrfti endilega að flýta afgreiðslu þess að þessu sinni.

Í þeim umr., sem fram hafa farið um gerð fánans hefur verið í það vitnað, að fyrirmynd þjóðfána okkar, sem við höfum nú, sé að sækja til eldri gerðar, sem kom fram á Alþ. endur fyrir löngu, og það er að mörgu leyti rétt. Og það má víst um till. um gerð fánans, sem fram hafa komið, segja, að þær mundu Íslendingum enn fjarri skapi heldur en sá fáni, sem við höfum nú. Ég vil benda á, að þegar fánamálið var borið fram, var það undir allt öðrum kringumstæðum en nú, og þjóðin hafði allt aðra afstöðu til frelsismálanna heldur en síðar hefur orðið og sérstaklega aðra afstöðu en við nú höfum. Enda bera þær gerðir fánans það fullkomlega með sér, hvernig menn skildu afstöðu landsins til þessa máls, þar sem í einum reitnum var danski þjóðfáninn og átti að tákna samband ríkisins við Dani. Þannig var skilningurinn þá, og ég vil segja, að hann hafi verið eðlilegur eins og málum var þá háttað og eins og undirtektirnar voru þá hjá þjóðinni. Þá var í alla staði eðlilegt, að menn treystust ekki til að bera fram frekari kröfur en bornar voru fram af beztu mönnum Alþingis. Á þeim árum var afstaða okkar til þessara mála svo gerólík því, sem hún er nú, og mönnum kom ekki til hugar, að það þýddi neitt að bera fram frekari kröfur til þess að fá þeim framgengt, enda gengu þær það langt, að þeim, sem með völdin fóru af hálfu okkar sambandsþjóðar, fannst ekki ná neinni átt að fallast á þær.

Ég vil að lokum vænta þess, með tilliti til sjálfstæðismála okkar í heild, að hæstv. Alþ. láti ákvörðun um gerð fánans verða samferða endanlegri lausn sjálfstæðismálsins. Um brtt., sem fyrir liggja frá allshn., hef ég ekki nema gott eitt að segja. Ég tel, að þær séu til bóta á frv., og get fullkomlega á þær fallizt út af fyrir sig.