28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

52. mál, þjóðfáni Íslendinga

Viðskmrh:

(Eysteinn Jónason) : Ég efast ekkert um það, að forsrh. hefði viljað taka þátt í þessum umr., því að það hefur sérstaklega verið í hans hendi undirbúningur þessa frv. En áður en þetta mál var tekið hér í hv. d. til umr., var tekið fyrir mál í hv. Ed., sem hann telur sig þurfa að taka þátt í umr. um.

Ég: vildi því, til þess að einhver rödd kæmi fram frá ríkisstj. við þessa umr. málsins, taka það fram, að upphaf þessa máls er það, að þáltill. kom fram á síðasta Alþ, um að skora á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um notkun þjóðfánans, sem segði fyrir um það, hvernig þjóðfáninn skuli notaður, og þá sérstaklega tekið fram, hvernig Alþ. áliti, að ekki ætti að nota þjóðfánann Síðan var falið sérstökum aðilum að undirbúa frv. um þetta. Og fyrst farið var að undirbúa frv. um þetta þótti rétt að taka í frv. ákvæði. um gerð fánans, en hingað til hafði verið látið sitja við konunglega tilskipun um það, hversu gerð fánans skuli vera. Þetta frv. hefur svo verið lagt fyrir Alþ., og hefur nú satt að segja verið á því seinagangur hér í hv. d. En af því að þetta mál snertir ekki mig sérstaklega, hef ég ekki veitt því athygli, af hverju sá seinagangur stafar. En hvað, sem um það er að segja, álít ég það einmitt rétt, að þetta frv. gangi fram á þessu þingi og menn geri það upp við sig, hvernig þeir vilja skipa þessu máli til frambúðar, og skal ég færa rök að því, hvers vegna mér þykir það æskilegt.

Það virðist vera samhugur um verndun fánans, en hitt kom fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., að ástæða gæti verið til þess að draga að ákveða gerð hans, og virðist mér það vera sökum þess, að sumir vilji breyta gerð þjóðfánans frá því, sem nú er. Og þá skyldi taka nokkurn frest til þess að athuga um gerð fánans.

Ég álít, að það sé ekki rétt að breyta gerð þjóðfánans, heldur eigum við að hafa þá gerð, sem við höfum haft frá 1918. Við erum þeim fána vanir, og og get sagt fyrir mig, að ég er hæstánægður með þann fána, sem við nú höfum. Og ég hygg, að. þjóðinni þyki vænt um þessa fánagerð, sem við höfum haft þessi ár. Og ég hygg einnig, að ekkert tímabil okkar lands og þjóðar hafi verið eins glæsilegt, þegar á allt er lítið, og það, sem liðið er síðan er við höfum fengið þennan fána.

Nú hefur það komið fram, utan þings a. m. k., að rétt væri að breyta um gerð þjóðfánans. Og það er ekki því að neita, að það hefur verið talað um þá fánagerð, sem við nú höfum, ekki með þeirri virðingu, að ég álít, að eftir því sem það stendur lengur opið að ræða fánamálið á þeim grundvelli, sem verið hefur undanfarið, þá sé það til hins verra, og þess vegna sé bezt að ræða út um það strax, hvort Alþ. fellst á að breyta fánanum eða ekki.

Þær umr., sem hafa átt sér stað um fánann, hafa að mörgu leyti verið óviðkunnanlegar, því að það hefur verið dregið inn í þær umr. atriði., sem engin ástæða er til að draga inn í umr. um þjóðfána okkar, sem mörgum landsmönnum þykir vænt um eins og hann er nú. Þess vegna vil ég, að þeir, sem vilja breyta þjóðfánanum, komi með þær till. strax, og takist þeim það, er bezt að það verði strax, en ekki haldið áfram þeim leiðindum, sem því fylgja að ræða áfram um þetta, því að margir hafa bundið tryggð við fánann eins og hann er nú.

Það er talað um þetta mál eins og aldrei hafi verið tækifæri til þess að breyta fánanum fyrr en 1941. Hvers vegna hafa menn ekki, sem ekki hafa getað unað við þennan fána, komið með till. um að breyta honum? Þeir hafa ekki sagt nokkurt orð um þennan fána í tuttugu ár. En ef Alþ. á nú að fara að breyta gerð þjóðfánans er ég viss um, að það mundi valda sársauka hjá fjölda landsmanna, sem bundið hafa tryggð við þennan þjóðfána, sem við nú höfum. Ég held, að þeir menn, sem vilja hafa bláhvíta fánann eigi ekki að ganga fram hjá því, að viðhorf þessara manna getur verið annað en hinna, sem ekki tóku þátt í þessari baráttu sérstaklega, og verður að taka tillit til þess, að sjónarmið hinna verður að taka tillit til þess, að sjónarmið hinna yngri manna í þessu máli kunna að eiga fullt svo mikinn rétt á sér. Þegar bláhvíti fáninn var notaður, var baráttan í fánamálinu ekki um það, hvort nota skyldi bláhvítan fána eða einhvern veginn öðruvísi litan fána, heldur um hitt, hvort Íslendingar yfirleitt ættu að fá að hafa sinn eiginn fána eða ekki. Annars ætla ég ekki að ræða mikið á móti breyt. á gerð fánans nú. En ég hygg hins vegar, að við eigum að gera út um það strax nú þegar á þessu þingi, hvort við breytum gerð fánans eða ekki, til þess að við getum svo látið niður falla allar orðræður um breyt. á fánanum eftir það. og að láta þær falla niður, held ég, að væri til bóta, bæði fyrir þá, sem fylgja breyt. í þessu efni, og líka hina, sem vilja hafa þann fána óbreyttan, sem nú er.