02.04.1941
Neðri deild: 29. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

13. mál, fiskveiðar í landhelgi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Þetta frv. er borið

fram til staðfestingar bráðabirgðalögum, sem sett voru á s. 1. sumri, og fjallar um smávægilega rýmkun á landhelgislöggjöfinni.

Það hefur ríkt mikill samhugur um það á undanförnum þingum að halda fast við þá löggjöf og slaka í engu á henni. Og hefur hún réttilega verið skoðuð sem eins konar varnargarður um þann atvinnuveginn, sem afkoma landsmanna byggist að langmestu leyti á.

Að slík breyt. var gerð af hálfu ríkisstj. á þessum l. samkv. bráðabirgðal., stafar af því, eins og grg. fyrir þessu frv. ber með sér, að allmörg norsk fiskiskip leituðu hingað til lands á flótta s. 1. vor undan þeim innrásarher, sem hertók Noreg. Nú hafa erlend skip, eins og kunnugt er, mjög takmarkaðan rétt til þess að stunda hér veiðar og nota ísl. hafnir, og hefðu því eigendur og áhafnir þessara skipa enga afkomumöguleika haft hér án þessarar tilslökunar.

Með því að það hefði þótt óverjandi kaldranaskapur að meina bágstöddum frændum okkar að stunda hér veiðar, eins og á stóð, þá samþykkti ríkisstj. að gefa út þessi bráðabirgðal., þar sem ísl. ríkisborgurum var heimilað að taka þessi skip á leigu og hafa á þeim að nokkru leyti norskar áhafnir.

Ég vænti þess, að þessi heimild, sem var eingöngu takmörkuð við síldveiðarnar og gilti eingöngu fyrir síðastl. sumar — og hefur reyndar ekki neina þýðingu lengur nema sem fordæmi —, sæti ekki andmælum hér í hv. d., þegar hliðsjón er höfð af því, hvaða hvatir lágu til grundvallar hjá ríkisstj., þegar þessi l. voru gefin út.

Ég vildi svo mælast til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.