28.03.1941
Neðri deild: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Það hefur vart mikla þýðingu fyrir afgreiðslu þessa máls, þó að við hv. frsm. þrætum dálítið um launakjör. Hins vegar var það alveg óþarfi af honum að fara að snúa út úr því, sem ég sagði og stóð í nál. Það, sem rangt var í fyrra í launagreiðslum manna, verður rangt aftur, þegar stundarástand það, sem nú ríkir, breytist. Það er því með öllu óþarfi að vera með útúrsnúninga í þessu sambandi.

Að tekjur sjómanna hafi hækkað hlutfallslega miklu meira en tekjur þeirra manna, sem hér er um að ræða, er alveg rétt, en eins og hv. frsm. hefur verið bent á, þolir slíkt engan samanburð. Munurinn á þeim störfum, sem hvor aðili um sig á að vinna, er gífurlegur. Sjómaðurinn verður að sækja yfir opið haf í alls konar harðviðrum og vera alltaf í stöðugri lífshættu, en margur embættismaðurinn þarf ekki annað að gera, eða að minnsta kosti lítið annað, en sitja nokkra klukkutíma á dag í upphitaðri stofu við létt störf. Þannig er því að minnsta kosti varið með allan fjöldann hér í höfuðstaðnum. Hér er því tvennu ólíku saman að jafna.

Um það að bæta þeim embættis- og starfsmönnum ríkissjóðs, sem lægst hafa launin, dýrtíðina að fullu, er enginn ágreiningur. hað er hægt sakir þess; hve sjómennirnir öfluðu mikið s. 1. ár. En að full nauðsyn sé á því, að hinir hálaunuðu fái einnig fulla dýrtíðaruppbót, gegnir öðru máli.