28.03.1941
Neðri deild: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Út af misskilningi þeim, sem orðið hefur út af þeim ummælum í nál., þar sem segir: „Jafnframt kom sú skoðun fram í nefndinni, að þing og stjórn tækju á sig með samþykkt þessa frv. siðferðilega ábyrgð um að beita áhrifum sínum til að framleiðslustéttir þjóðfélagsins fengju a. m. k. sams konar hækkun á tekjum sínum“ o. s. frv., vil ég taka það fram, að með þessu er ekki sagt, að slíkt hafi verið skoðun allrar nefndarinnar.

Ég mun ekki fara í neinar kappræður við hv. þm. A.-Húnv., en ég vil aðeins segja það, að ef embættismennirnir í kjördæmi hans gera ekki annað en sitja í upphitaðri stofu mestan hluta ársins við eitthvert dútl, þá er ekki vön, að hann beri hlýjan hug til þeirra. Mér virtist bara, að full ástæða væri fyrir hann að bera fram frv. í þinginu til þess að rumska eitthvað við þessum mönnum. Þeir mundu hafa gott af því. Annars eru slík vinnubrögð sem þau, er hv. þm. minntist á að væru meðal embættismanna, alveg óþekkt hjá mér og þar, sem ég þekki til. Þvert á móti er mér kunnugt um það, að meginþorri þeirra embættismanna, sem ég þekki, inna af höndum mikil og erfið störf.