07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (3047)

31. mál, raforkusjóður

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi aðeins leiðrétta hjá hv. þm. Borgf., að hann taldi, að ég væri á móti þeirri lántökuheimild, sem bent er á í brtt. Það er ekki rétt, ef hann hefur hlýtt á mig áðan. Ég hef ekkert sérstakt á móti því annað en það, að ég tel hina leiðina betri fyrir sjóðinn. Það, sem ég sagði í minni ræðu áðan, var, að ég taldi það höfuðgalla, að þar er gert ráð fyrir að leggja skatt á þær rafveitur, sem fyrir eru. Ég vildi spyrja hv. þm. Borgf., hvaða sanngirni hann mundi telja það, ef skattur yrði lagður á hverja kú, til þess að bæjarmenn gætu keypt sér kú. Hvort tveggja eru ákjósanlegir hlutir. Kýr er ákaflega æskileg og nauðsynleg, alveg eins og rafmagn er nauðsynlegt og æskilegt til afnota fyrir landsmenn. Ég tel, að ekki nái nokkurri átt að leggja þungan skatt á þær rafveitur, sem þegar hefur verið komið upp, mörgum með óhagstæðum lánum. Ég tel það ósvífni og rangsleitni að ætlast til þess, að þær séu skattlagðar vegna annarra rafveitna, sem koma á upp og eiga að njóta miklu hagkvæmari skilmála. Það er ekkert réttlæti til í þessu frá hvaða sjónarmiði sem er. Auk þess er þetta frá þjóðhagslegu sjónarmiði bersýnilega óskynsamleg leið til fjáröflunar. Alþ.fl. hefur þrásinnis borið fram frv. til að hraða rafvirkjunum til afnota fyrir landsmenn yfirleitt. Á þingi 1933 bar Jón Baldvinsson fram frv. um þetta efni, og hjá meiri hl. n. varð samkomulag um að leggja þetta frv. til grundvallar við afgreiðslu málsins. Þar var gert ráð fyrir, að ríkissjóður legði fram 5 millj. til sjóðsins. Þá voru aðrir tímar en nú hv að snertir verðbréfasölu og þó séð fyrir honum fjárhagslega eins og í þessu frv., en ekki gert ráð fyrir að skattleggja þá, sem hafa haft fyrirhyggju og dugnað til að koma sér upp rafveitum.

Hv. þm. telur, að ekki sé líklegt, að auðvelt verði að afla mikils fjár með verðbréfasölu. En heldur hann að hlaupið sé að því að taka 5 millj. kr. lán, ef ekki er hægt að selja verðbréfin? Ég er ekki í vafa um, að þó það væri stærra, mundi verða auðvelt að selja vaxtabréfin. Á þessu er enginn vafi, og það veit hver maður. Svo mikil breyt. hefur orðið í þessu efni, að það er ekki sambærilegt við það, sem áður var. Verulegur hluti af því fé, sem nú gengur manna á milli, liggur einmitt í verðbréfum. Þessi bréf ganga kaupum og sölum og eru fljótandi peningar, og mikið gengur í ný bréf, þannig að enginn vafi er á því, að verðbréfasala og umsetning yfirleitt fer áreiðanlega mjög í vöxt á næstu árum. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta þrennt hjá hv. þm.

Ég hef ekki út af fyrir sig á móti því, að sjóðnum sé aflað fjár, en tel það höfuðgalla, að gert er ráð fyrir, að verulegur hluti sé fenginn með þessum skatti, sem ég áðan nefndi, hvort sem litið er á það frá fjárhagshlið eða sanngirni.