07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

31. mál, raforkusjóður

Steingrímur Steinþórsson:

Ég mun ekki hafa verið hér, þegar þessi frv., sem till. fjhn. eru soðnar upp úr, voru hér til 1. umr. Það, sem ég segi hér, hljóðar því frekar á þann veg, að við 1. umr. væri, heldur en 2. umr., og vænti ég, að hæstv. forseti leyfi mér það, því mér þykir ástæða til að minnast hér á eitt atriði, er snertir frv. almennt.

Ég er mjög ánægður yfir því, að náðst hefur samkomulag um að hrinda máli þessu áfram, því ég er alveg sannfærður um, að þess verður ekki langt að bíða, að fólk fæst ekki til að vera annars staðar en þar, sem rafmagn er til afnota að einhverju leyti. Það er svo margvíslegt gagn og stórkostleg þægindi, sem þessi undrakraftur, er afar okkar og ömmur höfðu engin tök á að hagnýta sér, getur veitt fólki. Og það er alveg víst, að ef við ætlum okkur að halda fólkinu í sveitum landsins í framtíðinni, þá verðum við að stefna að því, að hægt verði að koma rafmagni til þessa fólks. Ég skoða þetta frv. sem grundvöll að því. Hitt er mér líka ljóst, að það er langt frá því, að þau fjárframlög, sem hér er ætlazt til, séu nægileg til þess að hrinda þessu í framkvæmd í fyrirsjáanlegri framtíð. Í sambandi við þetta vildi ég geta þess, að á nýafstöðnu búnaðarþingi var nokkuð rætt um þetta mál, og munu þessi frv. hafa legið fyrir búnaðarþingi. Þar kom fram, eins og vænta mátti, mjög eindreginn og almennur vilji fulltrúa bændanna á því, að þessu máli yrði sem allra fyrst komið í framkvæmd á þann hátt, að byrjað verði á skipulegum framkvæmdum um það að koma rafmagni sem víðast og sem fyrst út um sveitir landsins. Það að ég stend hér upp, er vegna þess, að ég vildi biðja hv. fjhn. að athuga till. frá búnaðarþinginu, þar sem búnaðarþingið skorar á ríkisstj. og Alþingi, að lög um happdrætti Íslands verði framlengd á þann hátt, að þegar útrunninn er sá tími, sem háskólinn hefur að lögum einkaleyfi til þess að hafa tekjur happdrættisins, þá gangi tekjur af happdrættinu til raforkuveitusjóðs. Það eru nokkur ár eftir af þeim tíma, sem háskólinn hefur til umráða, og dettur engum í hug að fara á nokkurn hátt að taka af honum þann rétt, sem honum ber í þessu efni. Ég lít svo á, að það eigi mjög að taka til athugunar, hvort þær tekjur mundu vera á annan hátt betur komnar en að vinna að því að koma rafmagni í byggðir landsins á þann hátt, að það yrði ekki dýrara en svo, að almenningur gæti risið undir stofnkostnaði við virkjun rafmagns.

Ég ætla ekki að ræða um þær brtt., sem fyrir liggja, eða einstök atriði frv., en taldi rétt að geta þessarar till. frá búnaðarþinginu hér, og fyrir mitt leyti vil ég vænta þess, að hv. fjhn. taki hana til athugunar, áður en 3. umr. fer hér fram í hv. d. Þetta er áreiðanlega eitthvert stærsta framtíðarmálið fyrir landið í heild, því þess megum við vera minnug, að ekki verður um mikla menningu eða þjóðlíf að ræða, ef með tímanum fer svo, að ekkert fólk verður eftir í sveitum landsins. Þó að ég ætli ekki að fara að gera neinn samanburð, þá verður þjóðin enn að lifa af þeim 2 höfuðatvinnuvegum landsmanna, sjávarútvegi og landbúnaði, og nauðsynin á að halda þar jafnvægi á milli hefur aldrei verið meiri en nú. Þetta frv. stefnir að því, að hafizt verði handa um að koma rafmagni til almennings í öllum strjálbýlli héruðum landsins, og þótt fjárráð sjóðsins samkv. frv. séu of lítil þá er þó betur af stað farið með frv. eins og það er, en gerir ekki neitt í þessu mikla nauðsynjamáli.