07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

31. mál, raforkusjóður

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Hv. þm. Seyðf. hefur, eins og ég gerði ráð fyrir, gert nokkra grein fyrir sinni sérstöðu í þessu máli.

Það er ýmislegt, sem fram kom hjá honum, sem ástæða er til að gera athugasemdir við og hefur þegar verið gert að nokkru. Eitt vil ég þegar leiðrétta. Hann sagði, að meiri hl. n. hefði gert ráð fyrir að veita mönnum lán til 30 ára. Það er ekki rétt, því í brtt. meiri hl. er gert ráð fyrir því, að þau verði veitt í lengsta lagi til 23 ára. Það má segja, að þetta skipti ekki miklu máli, og það var ýmislegt annað, sem fram kom í ræðu hans, sem meiri ástæða er til að gera athugaemdir við. Hann var að því er mér virtist nokkuð stórorður í sinni ræðu. Hann taldi framkomu okkar meirihlutamanna í fjhn. bera vott um rangsleitni og ósvífni. Þetta eru stærri orð en hv. þm. Seyðf. er vanur að hafa í sínum ræðum, og mér finnst það geta bent til þess, að hann finni, að ekki er fast undir fæti, þar sem hann stendur í rökræðum um þetta mál. Hann las upp tölur og útreikninga, sem hann hefur gert til þess að sýna, að þetta gjald sé tilfinnanlegt fyrir hverja einstaka stóð. Náttúrlega er það rétt, að þetta er nokkurt gjald. Þó get ég ekki á það fallizt, að það hafi stórkostlega þýðingu fyrir rafveitur eða rekstur þeirra. Hv. þm. Seyðf. talaði m. a. um það, að þessar rafveitur, sem fyrir eru, þurfi yfirleitt að borga háa vexti og yfirleitt hærri en gert er ráð fyrir, að sjóðurinn taki af sínum lánum. Þetta er rétt, en ég vil benda á það, að þó að það sé mikilsvert að fá lán með hagstæðum vaxtakjörum, þá hefur það ekki minni þýðingu fyrir þessi fyrirtæki, hvað stofnkostnaður þeirra er mikill. Og nú vitum við það, að rafstöðvar hafa svo að segja einungis risið upp í kaupstöðum, þar sem byggðin er þéttust, og það fyrst og fremst vegna þess, að þar er stofnkostnaðurinn minnstur miðað við heimilafjölda og þess vegna meiri möguleikar til að ráðast í framkvæmdir þar en annars staðar.

Það hefur verið hægt að koma upp rafstöðvum á einstaka sveitabýlum, þar sem aðstaða hefur verið bezt til þess. En annars eru hinar dreifðu byggðir yfirleitt án þessara hlunninda.

Kaupstaðirnir hafa fengið á undanförnum árum, eins og oft hefur verið bent á, stórmikla aðstoð til þess að koma upp rafstöðvum. Og það er áreiðanlegt. að það er fullkomið sanngirnismál, að fólkið, sem býr í kaupstöðunum og hefur haft aðstöðu til þess að njóta þeirra þæginda, sem rafmagnið veitir, leggi nokkuð af mörkum, til þess að aðrir landsmenn verði þeirra einnig aðnjótandi.

Það hefur verið tekið fram, að það er ekki hægt að útbreiða rafmagn út um sveitir landsins nema gerður verði einhver jöfnuður, þannig að þeir, sem geta haft rafmagn með minnstum kostnaði, taki á sig nokkurt gjald, til þess að þeir, sem búa við verri skilyrði í þeim efnum, geti einnig orðið þessara hlunninda aðnjótandi.

Þegar ég flutti frv. um þetta efni fyrst fyrir tveim árum, þá var það tekið fram, að þetta gjald á rafstöðvar væri að nokkru leyti sniðið eftir löggjöf Norðmanna um þetta efni, og get ég vísað til grg., sem fylgdi þessu fyrsta frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta nema tilefni gefist til. Ég vildi aðeins óska þess, að fulltrúar þeirra kaupstaðabúa og annarra, sem nú hafa fengið rafmagn með aðstoð ríkisins, væru svo víðsýnir, að þeir sæju, að það er sanngirnismál, að þeir taki á sig nokkurt gjald til þess að greiða fyrir útbreiðslu rafmagns í landinu.

Till. búnaðarþings, sem hv. 2. þm. Skagf. gat um í sinni ræðu, finnst mér sjálfsagt að taka til athugunar.