07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

31. mál, raforkusjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Þetta frv., sem liggur fyrir þessari hv. d., er gamall kunningi, og urðu nokkuð miklar umr. um frv. svipað þessu frv. í fyrra. Og það má víst segja um þetta frv. eins og það er, að aðaltill. þess, sem mest er rætt um, séu gott dæmi um það, hvernig tillögumenn hugsa sér að eyðileggja gott málefni. Þeir hafa með þessari till. verið að reyna að finna út óvinsælustu og gagnminnstu leiðina til að afla til góðs fyrirtækis ofurlítilla tekna. Ég sé ekki betur en ef þessi leið er valin, að leggja þennan nefskatt á þá, sem nú nota rafmagn, verði það svo seintekið fé, að það verði æðilangt þangað til hægt verði að lýsa upp sveitirnar að nokkrum mun.

Það má segja, að í fyrra, þegar um þetta mál var rætt, væri hægt að verja það, að þessi aðferð væri notuð til þess að afla fjár, með því að nauðsyn hefði verið fyrir hendi hvað snertir að útvega lánsfé. En nú virðist þessi ástæða ekki lengur frambærileg, þó að svo undarlega beri við, að nokkrir hv. þm. hafi reynt að færa hana fram. Það er talið, að eigi að nota þetta gjald eða skatt til þess að virkja fossana og lýsa upp sveitirnar. Ég sé satt að segja ekki, hvernig þeir hugsa sér slíkar, framkvæmdir, því að skatturinn mundi nema um 100 þús. kr. á ári og ekki koma að gagni fyrr en eftir 10 ár. (Ég undantek 5 millj. kr. ákvæðið.) Það er undarlegt að taka með miklum fjálgleik að gera miklar umbætur á kjörum bænda með þessu. Ég get ekki betur séð en að aðalatriði frv. sé, eins og það var fyrst lagt fyrir með þessum rafstöðvaskatti, að nota gott mál til þess að koma enn nýjum skatti á almenning. Ég er ekki aðeins á móti því, heldur alveg hissa á, að þeir menn, sem áður hafa reynt að verja þetta með því, hvað lítið væri um lánsfé í landinu, skuli dirfast að reyna að verja þetta með þeim rökum nú. Því að mönnum er vel kunnugt um, að yfirdrifið fé er til í landinu til þess að taka í sjóði til þess að raflýsa sveitirnar.

Það þarf ekki að kvarta yfir, að nú séu ekki nógir peningar. Það er svo mikið af peningum hér hjá burgeisunum í Reykjavík, að þeir vita, ekki, hvað þeir eiga að gera við þá. Braskið með hús og annað hér í Reykjavík fer dagvaxandi, svo til vandræða horfir. Það væri hægt að ná inn miklu meira fé með því að skattleggja eitthvað af þeim stríðsgróða. Það er undarlegt að bera það fram sem siðferðilegan grundvöll fyrir þessum rafmagnsskatti, að ríkið hafi aðstoðað kaupstaðina til þess að koma upp sínum rafstöðvum. En hver aðstoðaði stríðsgróðamennina til þess að veita þeim skattfrelsi? Ég vil minna framsóknarmenn þá, sem hafa verið að skora á kaupstaðarbúa að vera víðsýna í þessu máli, á það, hvernig flokkur þeirra, meðan hann var tiltölulega lítið spilltur, vildi afla fjár, þegar byggingar- og landnámssjóður var stofnaður eftir 1927 — þá var hann með till. um það að afla fjár með því að — skattleggja á stórgróðamennina í Rvík. En framsóknarmenn hurfu skjótt frá þessu og tóku þetta fé með almennum tollum. Og ég veit, að af fjöldanum er þetta álitið eitt af syndaföllum Framsfl. Það kemur því úr hörðustu átt, að framsóknarmenn skuli skora á kaupstaðarbúana að samþ. neyzluskatt á íbúa kaupstaðanna til þess að leiða rafmagnið út um sveitirnar. Ég álít því nauðsynlegt, og það, sem þarf að gera í þessu máli, að koma alveg út úr Þessu frv. þessu skattaákvæði um skattinn á rafstöðvarnar, það er gagnslaust og verður til þess eins að baka þessu frv. og þessu máli hinar mestu óvinsældir.

Það þarf ekki mikinn stríðsgróðaskatt vil þess að bæta raforkuveitusjóðnum upp þessar 100 þús. kr. á ári, sem honum er ætlað að fá frá íbúum kaupstaðanna. Það er ekki til frambærileg ástæða til þess að halda þessu ákvæði í frv. Þetta er aðeins löngun til þess að koma einum nefskatti í viðbót á fólkið í landinu, nema þarna væri alveg sérstök löngun til þess að hlífa hátekjumönnunum í Reykjavík. Ég skal ekki segja, hvort framsóknarmenn eru þegar svo nátengdir þeim.

Svona frv., eða þessu líkt, var í fyrra fellt hér á Alþ., vegna þess að þm. einblíndu á þetta atriði, neyzluskattinn, og ætti það að vera til varnaðar nú. Það væri miklu meiri ástæða til þess að fella þetta frv. nú en í fyrra, vegna þess að nefskattur á nú miklu minni rétt á sér, og átti hann þó lítinn rétt á sér í fyrra. Til þess að hrinda af stað því nauðsynjamáli að leiða rafmagnið út um dreifbýli landsins, þarf fyrst og fremst þor til þess að taka peningana þar, sem þeir eru fyrir, en það er hjá stríðsgróðahátekjumönnunum í Reykjavík. En ég mun greiða atkv. á móti þessari gr. frv. um nefskattinn á rafstöðvarnar.