10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3063)

31. mál, raforkusjóður

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál nú, enda er það óþarfi, þar sem það var mikið rætt við 2. umr.

Meiri hl. fjhn. gat ekki fallizt á þær till., sem hv. þm. Seyðf. hefur borið hér fram. Hann vill fella niður gjald af raforkuveitum, en það telur meiri hl. n., að sé sanngjarnt, að sé greitt í þennan sjóð og með því séu honum tryggðar nokkrar tekjur í framtíðinni, þó að gjaldið sé ekki hátt og þar af leiðandi ekki tilfinnanlegt fyrir þær stöðvar, sem eiga að greiða það. Við leggjum því til, að 1. till. hans verði felld og þá jafnframt 2. till., því að verði 2. gr. frv. óbreytt, þá leiðir þar af, að 3. gr. verður það einnig, því að hún kveður á um, hvenær gjaldið af rafveitunum skuli greiðast í sjóðinn. Ég vil enn fremur segja það um 2. brtt. hv. þm. Seyðf., að þar sem nú er komin inn í frv. heimild handa stj. til að taka lán handa sjóðnum, allt að 5 millj. kr., virðist óþarfi að setja þau ákvæði þar til viðbótar, sem hv. þm. leggur til.

Um síðustu brtt. hans, við 5. gr., vil ég segja það, að ég tel varhugavert að samþ. hana, því að mér sýnist, að það ætti að geta vel komið til mála, að veitt væri lán úr sjóðnum til einkastöðva, þó að líkur gætu verið til, að einhvern tíma í framtíðinni mætti koma þar upp félagsvirkjun, kannske eftir mjög langan tíma, og væri hart, ef fyrir það ætti að neita um lán til einkavirkjunar á slíkum stöðum. Ég vil því einnig leggja á móti þessari till. og vænti, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.