04.04.1941
Efri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Síðastl. sumar hafði ríkisstj. talsvert til athugunar, hvaða ráðstafanir væri unnt að gera til þess að tryggja eða bæta tjón af völdum hernaðaraðgerða, ef til kæmi, og fékk sér til ráða í þeim efnum menn, sem sérstaklega voru fróðir um tryggingamál. Niðurstaðan af þessum umræðum og rannsóknum varð sú, að það var samið eða gert uppkast að frv. um tryggingar á fasteignum með sérstökum hætti, sem ég kann ekki að greina fyrirvaralaust vegna þess, að það liggur ekki fyrir hér. Var frv. þetta rætt í ríkisstj. og miðstjórnum flokkanna, og það virtist vera samkomulag um það, að ef til kæmi, að tjón yrði á fasteignum, þá yrði komið skipulagi á þessar tryggingar, sem nánar er greint í þessu frv. Hins vegar var það sameiginlegt álit ríkisstj. þá, að ekki væri ástæða til að setja það í lög með bráðabirgðalögum. Þannig hefur þetta mál staðið síðan.

Nú ekki alls fyrir löngu hefur það verið tekið upp á ný innan ríkisstj., m. a. vegna þess, að innflytjendur, sem eiga hér nokkrar vörubirgðir, hafa látið í ljós kvíða um, að komið gæti til mála, að þeir yrðu fyrir skaða, ef til loftárása kæmi. Ég hef spurt, hvort ekki verði komið á löggjöf um tryggingar á vörubirgðum, en undirbúningi málsins að öðru leyti en því, er snertir fasteignatryggingar, er ekki það langt komið, að hægt sé að segja um það, hvort stjórnin muni gera sérstakar till. um tryggingar á vörubirgðum eða hvernig þeim yrði fyrir komið. En það er rétt hjá fyrirspyrjanda, að þetta er vandamál, sem á næstunni verður að taka til slíkrar rannsóknar, að niðurstaða fáist um það, hvort réttmætt sé og nauðsynlegt að setja þessa löggjöf. Það virtust vera meiri agnúar á að láta slíkar tryggingar ná til vara heldur en til fasteigna, sem yrðu fyrir skaða, en ég fer ekki út í það á þessu stigi. Hins vegar get ég út af síðustu spurningu hv. þm. Vestm. látið þess getið, að eftir að búið var að gera þetta uppkast eða drög að frv. um fasteignatryggingar, þá hugsuðu menn sér, að þó að lögin væru ekki formlega sett, þá mundi vera hægt að láta tjónið koma undir þau á sínum tíma. (JJós: Með öðrum orðum verka aftur fyrir sig.) Hins vegar hefur ekkert verið rætt um það, sem vörubirgðir snertir, hvort eins yrði með þær. — Ég verð sem sagt að taka undir það með hv. þm. Vestm., að það er fullkomlega tímabært, að þessu máli sé hreyft á Alþingi, og mun stjórnin hafa opin augun fyrir því að leiða þessa athugun til lykta á einhvern hátt, áður en langt um líður. Annars liggur það náttúrlega opið fyrir, að einstakir þm. geri um þetta till. En hins vegar er það rétt aðferð hjá þm. að leita fyrirspurna um þetta hjá ríkisstj., áður en till. koma frá öðrum. En ég geri ráð fyrir, að þetta hljóti að bera á góma með einhverju móti áður en langur tími líður.