29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (3113)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 40, er um heimild til handa ríkisstj. að selja bóndanum í Nesi í Selvogi nokkurn hluta af því landi, sem af honum hefur verið tekið til sandgræðslu ríkisins.

Eins og menn hafa sjálfsagt veitt eftirtekt, er frv. flutt af hæstv. forseta þessarar d., 1. þm. Árn., sem er nákunnugur þessu máli og má að sjálfsögðu ætla, að þekki þarna alla staðhætti betur en við.

Það hafa komið, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, bréf til n. frá báðum hliðum, annars vegar mótmæli frá sandgræðslustjóra og hreppsnefnd sveitarinnar, en hins vegar hafa komið skýringar frá þeim aðila, sem þarna á hlut að máli, og krafa frá nokkrum hópi kjósenda innan sveitarinnar um að samþ. frv. — Ég veit ekki, hvort hv. þdm. hafa kynnt sér þessi skjöl og skilríki, en vil vænta þess, að þeir geri það, svo að þeir geti myndað sér skoðun um málið.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, virðist okkur hv. þm. Borgf., sem erum hér í minni hluta landbn., að engin hætta muni af því stafa, þó að sú landspilda, sem hér er farið fram á að selja, verði látin af hendi. Eftir öllum upplýsingum virðist, að sandfokshætta á þessu svæði stafi miklu meira frá öðrum stöðum en þessari landspildu. Annars virðist augljóst eftir því, hversu mikið kapp er lagt á þetta mál, bæði með og móti, að einhver pólitík eða eitthvað persónulegt hafi komizt inn í þetta mál. En hvort sem hér kann að vera persónuleg eða pólitísk togstreita og kapp, viljum við hv. þm. Borgf. ekki láta það hafa nokkur úrslitaáhrif á málið. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. segir, að þar sem hætta er á uppblæstri út frá illa grónum svæðum, er mjög óheppilegt að breyta frá þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið um friðun. En bóndinn, sem leitar eftir þessari spildu, til þess að börn hans, sem búa vilja á staðnum, þurfi ekki að hrekjast þaðan, og er reyndur maður og aldraður og þekkir svæðið og hættur sandfoksins öllum mönnum betur, mundi ekki fara þess á leit, ef hann teldi hættu á nýjum uppblæstri, hann mundi ekki vilja gera þetta börnum sínum að hefndargjöf. Og ekki mundi hv. flm. (JörB) hafa flutt málið, ef hann hefði ekki allgóðar röksemdir fyrir því, að eyðingarhætta af sandfoki frá þessum stað sé hverfandi lítil. Annars hygg ég, að hann muni skýra frá þeim hlutum sjálfur, og skal ekki fjölyrða um málið. Kapp það, sem sandgræðslustjóri og hreppsnefnd leggja á að hindra málið, virðist ekki að sama skapi rökstutt. Og nú liggur fyrir þinginu frv., sem ég tel víst, að nái samþykki, þar sem m. a. er heimilað að takmarka fjártölu á löndum, sem talin eru í hættu af of mikilli beit. Þeirri takmörkun mætti beita í Neslandi, ef í ljós kæmi, að þess þyrfti síðar meir. Ég held því, að alveg óhætt sé að samþykkja þessi heimildarlög.

*Jörundur Brynjólfsson: Það er rétt til getið af hv. frsm. minni hl. (JPálm), að ég mundi ekki hafa flutt þetta mál, ef ég hefði búizt við, að það gæti orðið til skaðsemdar, og því síður þar sem mér er annt um gróður landsins, að honum sé ekki að óþörfu spillt. Ég býst við, að málið kunni að verða mér nokkuð þungt í fangi, þar sem fram hafa komið mótmæli bæði af hálfu sandgræðslustjóra og hreppsnefndar ásamt fleiri hreppsbúum Selvogshrepps. Ég þykist kunna að meta umhyggju sandgræðslustjóra og þá ósérhlífni, sem hann hefur sýnt í starfi sínu við að hlynna að sandgróðrinum. En ég held hann mikli um of fyrir sér, hver hætta stafi af þessu máli. Landið, sem um ræðir, var eitt sinn örfoka, en mjög farið að gróa, þegar það var girt, og stóð þá til, að þessi spilda yrði ekki tekin í sandgræðslugirðinguna, en sandgræðslustjóra þótti þess þurfa þá og mun hafa gert kröfu til meira lands en tekið var. Það mun rétt vera, að úr þessari átt hafi ekki verið orðin mikil uppblásturshætta, er svo mjög var tekið að gróa upp. Og hættan fyrir byggðina í Selvogi er aðallega að austan, frá söndunum vestur frá Ölfusá, og að vestan, frá Víðisandi, sem er laus ægissandur og rýkur mjög háskalega, þegar hvassviðri stendur af honum yfir gróin svæði. En þessi spilda í Neslandi er engin vörn gegn því sandfoki. Mér finnst full von, að sandgræðslustjóri og menn í sveitinni vilji vera vel á verði gegn vágestinum, en þeir líta of einhliða á þetta. hv. frsm. minni hl. gat þess til, að persónulegt eða pólitískt kapp kynni að hafa blindað einhverja í þessum sökum. Ég veit ekki þau deili á því, að ég vilji um það tala, og vona, að frá hvorugri hlið sé því til að dreifa. Hvað sem því líður, ber manni að meta og vega þær ástæður, sem fram eru færðar. Ég læt mér ekki heldur detta annað í hug en bæði meiri og minni hl. hv. landbn. hafi lagt þann úrskurð einn á málið, sem þeir voru hvor um sig sannfærðir um, að væri réttur. Ég get ekki með orðum mínum sannað né afsannað fullyrðingar þeirra, sem móti málinu standa, frekar en þeir mínar. Málið ætti að liggja sæmilega ljóst fyrir hv. þdm., og þeir verða að gera það upp við sig, hvaða afstöðu þeir taka til þess. Mér þykir það náttúrlega leiðinlegt, að það skuli hafa vakið mönnum þennan ugg og ótta. Ég hefði ekki flutt málið, ef ég hefði séð ástæðu til óttans, og bóndinn í Nesi mundi ekki hafa horið fram óskir sínar um. það að fá landið, ef hann hefði haldið það blési upp og reyndist börnum hans skammgóður vermir. Það þarf ekki neinn persónulegan kunnugleika á bændum landsins til að forðast slíkar getsakir um skammsýni þeirra, og einkum þá, er í hlut á Guðmundur í Nesi, sem hefur alla ævi sýnt frábæran dugnað og ósérplægni og umhyggju fyrir niðjum sínum. Hann fer ekki fram á það, sem þeim og sveitinni stafar hætta af. Þau hafa einnig sýnt það, að þeim er annt um sveitina og vilja starfa þar. Þessar óskir um stærra land eru bornar fram með það fyrir augum að tryggja afkomu þeirra á jörðinni. Ég fjölyrði ekki um þetta frekar. En æskilegt hefði mér þótt, ef hægt væri að mæta óskum bóndans í Nesi og hann gæti fengið þá viðbót, sem hann telur sér svo mikils virði, ef fáanleg er.