29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (3118)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Það hefur að vissu leyti verið ánægjulegt að hlusta á ræður þeirra hv. þm., sem til máls hafa tekið. Annars vegar hafa 2 ræðumenn, þeir hv. 8. landsk. og flm. málsins, látið mjög lofsamleg umæli falla um bóndann í Nesi, hvað hann væri duglegur og ábyggilegur maður og merkur bóndi í alla staði. Hins vegar hefur hv. frsm. meiri hl. haldið mikla lofræðu um sandgræðslustjóra sem einn hinn bezta og ábyggilegasta mann. Ég skal ekki gera neinar aths. við þessi ummæli á hvoruga hlið. En þrátt fyrir það, þó að ég, sem þekki þessa menn vel, vilji taka undir þessi lofsamlegu ummæli um þá, þá vil ég fara eftir þeim upplýsingum, sem í grg. eru um það, að það sé sanngjarnt, að Alþ. samþ. frv. Ég hef ekki af þessum ræðum, sem haldnar hafa verið, getað fundið neitt, sem andmæli því, að okkur hér í d. beri að standa með okkar forseta sem flm. þessa máls og samþ. þetta frv. Því að ég trúi því afdráttarlaust, sem hann segir um þetta land, að það hafi verið mjög upp gróið, þegar girðingin var sett. Ég held, að það sé því ekki með sanngirni hægt að segja, að landið hafi gróið upp vegna girðingarinnar. Í öðru lagi kom það mjög greinilega fram í ræðu hv. flm. málsins, að það er rétt, sem ég hef fengið út úr upplýsingum, sem fyrir liggja, að þarna er um miklu meiri sandfokshættu að ræða en frá þeirri landspildu, sem deilan stendur um. Þá er enn fremur á það að minnast, að hér er meira um að ræða fyrir þá jörð, sem hlut á að máli, heldur en eingöngu venjulegt beitiland. Því að eftir fram komnum upplýsingum, þá er gersamlega vatnslaust annars staðar en á þessu svæði. Þess vegna er mjög rík þörf vegna þess fjár, sem þarna er, að fá aðgang að þessu landi. Í þriðja lagi er þarna um fjárbeit að ræða, sem eingöngu er tekin af þeim bónda, sem hér á hlut að máli. Það er ákaflega augljóst af þeim bréfum, sem fram hafa komið, að kappið er geysilega mikið í þessu máli. Hvort þar er um að ræða pólitískt kapp, kemur ekki málinu við, en mér er nær að halda, að þarna sé meira um persónulegt kapp að ræða. Ef hér er einhver, sem efast um, að hér sé um persónulegt kapp að ræða, þá skal ég til sönnunar því, að svo sé, lesa upp bréf frá bóndanum í Nesi, sem sýnir ljóslega, hvað gífurlegt kapp er þarna um að ræða. Bréfið fer hér á eftir, þ. e. a. s. nokkur hluti þess.

„T. d. hefur oddviti 5 ár í röð varnað mér með ofbeldi, ásamt Þórarni hreppstjóra, mági sínum, að nota nokkurn hluta af fjörubeit, sem tilheyrir Nesi. Á þessum 5 árum gerði ég aðeins fjórar tilraunir til að beita í fjöruna á þeim stað, sem hér um ræðir, en þá komu þeir með mannfjölda og hundaarg, svo að ég varð að gefast upp. Einu sinni kom ég sjálfur í fjöruna í þessu sambandi, þó ekki vegna fjárgeymslu, heldur af því að 2 unglingsdrengir, sem hjá mér voru, sögðu mér, þar sem ég var að taka hey í hlöðunni, að sonur minn, sem gætti fjárins í fjörunni, hefði verið felldur niður af þeim hinum. Mér varð bilt við þessa fregn og flýtti mér niður í fjöru, ef misþyrming ætti sér stað. Þegar ég kom í fjöruna, kemur oddviti, tekur nokkuð harðlega til mín og sagði mér að snauta heim. Takinu hélt hann, meðan hreppstjórinn, mágur hans, lét ganga á mér stafinn, sem hann hafði í hendinni. Það er ekki mín sök, þótt hreppsnefndin hafi knúð mig til að sýna hinu háa Alþingi mynd af prúðmennsku heldri manna í Selvogi.“

Þetta sýnir bezt, hve mikið kappsmál hér er á ferðinni. Frsm. meiri hl. sagði, að það væri líkast því sem við vildum drótta því að sandgræðslustjóra, að hann mælti hér mót betri vitund, þar sem við í minni hl. vildum ekki fara að hans áliti. Þessu er alls ekki til að dreifa, en eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, er þessi maður mjög kappsfullur í sínu starfi, og er það ekki sagt til lasts. Má sem dæmi um það nefna, að skv. frv. til sandgræðslul., sem hann samdi, var kapp hans svo mikið að varna því, að fé gengi inn á sandgræðslusvæði, að réttur einstaklinga til fjárbeitar var alls enginn, og þeir réttlausir, þótt fé þeirra væri drepið. Þetta gat landbn. ekki fallizt á og breytti því þannig, að þessi ákvæði snertu aðeins það fé, sem þráfaldlega réðist yfir og gengi innan fullkomlega öruggra girðinga.

Hvað það snertir, að samþykkt þessa frv. muni draga fleiri dilka á eftir sér, þá skal ég ekkert fullyrða um það, en ég hygg naumast, að á því sé hætta. Mér finnst óþarfi að standa svo fast gegn frv. sem hér hefur verið gert og vil því skora á hv. dm. að samþ. frv., því að það er á sanngirni byggt.