11.03.1941
Neðri deild: 15. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (3140)

48. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Ísleifur Högnason) :

Eins og grg. frv. ber með sér, er frv. þetta flutt í þeim tilgangi að freista þess, að þingið fallist á það, að mál séu tekin til 2. umr. þrátt fyrir það, þó að n. hafi ekki skilað áliti. Eins og einnig er getið um í grg., höfum við þm. Sósíalistafl. borið fram fjölda frv. á undanförnum árum, en afgreiðsla þeirra hefur öll verið á einn veg, sem sé þann, að þeim hefur verið vísað til 2. umr. og n., síðan hafa þau aldrei frá n. komið. Ef þessi breyt., sem við förum fram á, verður samþ., er forseta skylt að taka mál til 2. umr., þó að n. hafi ekki skilað áliti, og ætti þar með að vera tryggt, að þingmenn gætu ekki skorazt undan að taka afstöðu með eða móti málum, en afstaða þm. til mála er nauðsynlegt að komi í ljós þar, sem lýðræði er ætlað að njóta sín.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en taka það fram, að við gerum ráð fyrir því, að eins og þingið er nú skipað, fáist þetta mál ekki í gegn. Það gæti þó á unnizt með flutningi þess, að það yrði lesið upp í útvarpið, hvernig Alþ. fer að með afgreiðslu á málum stjórnarandstöðunnar. Við álítum þá nokkuð hafa á unnizt, ef þjóðin fær að vita, hvernig þm. haga sér við minnihlutaflokka og stjórnarandstöðu.