28.03.1941
Efri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég þarf væntanlega ekki að skýra það, hvers vegna n. hefur ekki gert víðtækar athuganir á þessu máli, frá því það var í Nd., því ég veit ekki til, að hægt hafi verið að ná saman þeim hv. þm., sem í fjhn. Ed. eru, síðan þetta kom í n. Það er sent hingað samstundis, svo að ég held, að hann sæki ekki miklar upplýsingar til n. um þetta mál.

Ég er honum í raun og veru sammála um það; að lífeyrissjóður embættismanna sé byggður þannig í upphafi, að þeir, sem í hann hafa greitt, hafi fengið of lítið úr sjóðnum. Hann hefur stöðugt aukizt, ég hef ekki athugað nú hvað mikið, en ég veit, að hjá mörgum embættismönnum er óánægja yfir, að hann greiði ekki eins mikið og hann eigi að greiða og það safnist upphæðir þar fyrir. En ég get ekki fallizt á, að það sé sanngjarnt að láta það koma á móti þeirri uppbót, sem hér er talað um. Í raun og veru er það aldrei bætt fullkomlega, sem borgað hefur verið í sjóðinn. Ef svo er, að sjóðurinn reikni skakkt, þá eiga þeir, sem þar eru tryggðir, í raun og veru kröfu á frekari greiðslu úr sjóðnum. Ég held þess vegna, að þó að þeir gætu staðið undir slíku, sé ekki sanngjarnt, að Alþingi samþ. að láta þá bæta upp þá rýrnun, sem orðið hefur á gildi peninganna. Ég tel sanngjarnt, að Alþingi samþ. að bæta þeim upp á sama hátt og starfsmönnum ríkisins.

Viðvíkjandi 7. greininni verð ég að segja það, að ég stend þar uppi eins og hv. þm., að ég veit ekki, hvers vegna þessi breyt. var samþ.

Mér sýnist, að eins og gr. er nú, þá ætti eiginlega að greiða uppbótina fyrir fram. Ég get ekki betur séð. En mér hefur borizt til eyrna frá frsm. n. í Nd., að þetta hafi alls ekki verið tilætlunin. Ég held, að verðlagsuppbótin eigi að greiðast mánaðarlega samtímis því, að laun eru greidd, en þó þannig, að það sé eftir á, þannig, að sá, sem kemur nýr inn, hann taki ekki verðlagsuppbótina fyrr en næsta mán. á eftir. Ég hygg, að það hafi verið til þess að taka af tvímæli um, að þar væri vísað til framfærsluvísitölu 1. hvers mán., en þá ættu embættismenn og aðrir starfsmenn ríkisins að búa við vísitölu, sem væri einum mán. síðar en aðrir, Í stað þess, að aðrir fá uppbót, sem miðuð er við vísitölu næsta mán. á undan, fengju embættismenn og starfsmenn ríkisins greidda uppbót eftir vísitölu næsta mán. á eftir. Ég hygg, að tilætlunin sé, að sama vísitala gildi fyrir starfsmenn ríkisins og aðra. Ég hef borið þetta fram hér, svo það geti verið sem leiðbeining til þeirra, sem á sínum tíma eiga að úrskurða það, hvernig uppbótin á að greiðast. Ég álít, að það væri óheppilegt, að við færum að gera breyt. á þessum lögum, og gæti þá kannske þessi skýring dugað.