16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Viðskmrh. (Eysteinn Jónason) :

Ég upplýsti áðan, að fyrir Austurlandi sé nú fiskveiðabann utan 6 mílna beltis frá landi, þannig að hin eiginlegu fiskimið eru nú að mestu lokuð fyrir báta, sem stunda lóðaveiðar. Ég benti einnig á, að sjómenn og útgerðarmenn, sem þær veiðar hafa stundað, væru sviptir atvinnumöguleikum sínum og ættu því ekki um annað að velja en að snúa sér að síldveiðum og dragnóta í stað lóðaveiðanna. — Það er ekki að heyra, að neinn hv. þm. hafi tekið þetta til greina. Heldur virðist þeim algerlega í léttu rúmi liggja, þótt þessi fjöldi manna sé sviptur allri atvinnuvon og afkomumöguleikum.

Eftir að útlent hervald hefur lokað aðalfiskimiðum þeirra, er svo að sjá, sem Alþingi ætli nú að loka þeim miðum, sem eftir eru, og útiloka þar með einu afkomuvon þessara manna. Það er ekki hægt að líta framhjá þessu atriði, að það er undarleg og kuldaleg ráðstöfun að fara að loka fyrir þessum byggðarlögum einu miðunum, sem opin eru. (PHann: Forstjóri fiskideildar vill láta loka alveg, meðan á stríðinu stendur.) Hverjar sem till. hans eru, þá held ég fast við það, sem ég sagði, að framhjá þessu atriði hefur algerlega verið gengið í umr. En slíkt er ómögulegt og óverjandi.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um það, að afkoma frystihúsanna byggðist ekki eingöngu á frystingu flatfiskjar. En ég get upplýst það, að ef frystihúsin byggðu ekki rekstur sinn einkum á flatfiskinum, þá væru þau ekki rekin með hagnaði, og ef flatfiskurinn hefði ekki verið veiddur, býst ég við, að þau hefðu aldrei orðið til. Annar fiskur er aðeins örlítið brot af því magni, sem til þeirra berst. Nú hefur að vísu eitthvað verið reynt að hraðfrysta þorsk, en það hefur aðeins verið í smáum stíl og hann rétt fengið að fljóta með á stöku stað. — Þannig hefur þetta verið fram að þessu, og enginn hefur því getað byggt hraðfrystingu á þorskinum. Rekstur frystihúsanna hefur alltaf miðazt við flatfiskinn. Það er því næsta villandi að skýra þannig frá þessu, eins og þessi hv. þm. gerði. Það getur vel verið, að í framtíðinni verði þorskurinn stór liður í starfi húsanna, en enn þá er ekki komið svo og þess vegna ekki rétt að miða löggjöfina við það.

Því hefur verið haldið fram hér, að sjómenn óskuðu þess, að þetta frv. yrði samþ. Það væri réttur þeirra, sem smæsta eiga bátana, sem hér sé verið að vernda fyrir dragnótaveiðunum. Hér hefur verið upplýst, að ekki er alls staðar farið fram á algert bann eða bann fyrir alla. — Hvers vegna fara hinir 300 eyfirzku sjómenn ekki fram á dragnótabann? Það er af því, að þeir vita, að dragnótaveiðar í landhelgi eru mikið atriði í fiskveiðum og nauðsynlegur þáttur í þeirra eigin atvinnurekstri. Deilan stendur því í sjálfu sér ekki um það að banna dragnótaveiðarnar, heldur hverjum skuli leyft að stunda þær í landhelgi. Þessum fiskimönnum er vel ljóst, hvernig frystihúsin yrðu sett, ef dragnótaveiðarnar væru bannaðar í landhelgi. Þeir vilja aðeins hagnýta sér þessi hlunnindi, en útiloka aðkomuskipin. Það má segja, að þetta sé ósköp skiljanlegt og ekki nema mannlegt, en það sýnir, að það væri alveg út í bláinn að fara að banna dragnótaveiði í landhelgi mikinn hluta ársins. Því það munu allir sjá, að með þeirri ráðstöfun væri kosti frystihúsanna svo þrengt og sjávarútvegsins í heild, að örðugt væri úr að bæta. Það er bersýnilegt, að slíkt bann á ekkert fylgi meðal sjómanna, heldur vilja allir sitja að dragnótaveiðunum einir á sínum fiskimiðum. Ég hef því ekki sannfærzt af þessum rökum. En það eru núna alveg sérstakar ástæður fyrir hendi við Austurland, og mér er ómögulegt að sjá, hvernig þm. geta lokað augunum fyrir þessu atriði.

Mig minnir, að hv. 1. þm. Skagf. segði, að ekki ætti að muna miklu, þótt dragnótaveiðitíminn yrði styttur um 2 mánuði, — eftir frv. eru þeir nú raunar 3. En ef þetta er athugað nánar, þá er það hvorki meira né minna en helmingur þess tíma, sem dragnótaveiðar eru stundaðar yfirleitt. Því það er þessi tími, sem flotinn stundar dragnótaveiðar, að loknum síldveiðum. Og sennilega sá tíminn, sem mest flatfiskmagnið veiðist og berst að frystihúsunum.