16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (3197)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Bergur Jónsson:

Ég tel mig ekki hafa grætt mikið á því að hlusta á þessar umr. Þær hafa verið nokkuð harðar og svo virðist, sem á hafi rekizt hagsmunir einstakra héraða, en ég vil engri óbilgirni veita stuðning minn.

Ég tók eftir því, að einn hv. flm. þessa frv. sagði, að það væri ekki eingöngu vilji sjómanna norðanlands, að þetta mál gengi fram, heldur væri það vilji sjómanna alls staðar um land að fá dragnótaveiðil. breytt á þennan hátt. Ég fullyrði, að að svo miklu leyti sem mér er kunnugt á Vestfjörðum, þá er þetta alls ekki rétt. Vestfirðingar hafa áreiðanlega ekki viljað láta banna dragnótaveiðar frá 1. sept. til 31. des. Hins vegar hef ég lagt fram á þingi áður erindi frá útgerðarmönnum á Patreksfirði, þar sem þeir fara þess á leit, að í staðinn fyrir 1., júní komi 1. júlí, m. ö. o. að júní verði friðaður. Þetta er í samræmi við óskir útgerðarmanna þar vestra, en eins og kunnugt er, hafa þar verið byggð hraðfrystihús, sem mikið fé hefur verið lagt í. Þau hafa verið ein aðalstoð útgerðarinnar þar, og undir þeim hefur fjöldi manna átt atvinnu sína, bæði sjómenn og landmenn. Ég vil láta þetta koma fram, til þess að menn skyldu ekki halda, að þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið frá formælendum þessa frv., að það væri ósk allra útgerðarmanna og sjómanna víðsvegar um land, að frv. yrði samþ., væru að öllu leyti réttar. Ég vil fullyrða, að þær óskir, sem fram hafa komið um að skerða haustveiðitímann, eru í ósamræmi við óskir manna á Vestfjörðum, og ég býst við, að sama megi segja um Austfirði. Ég skal ekki segja um afstöðu manna til þess almennt að lengja friðunartímann til 1. júlí. Ég ætla nú að leggja fram skrifl. brtt., en ef hún verður felld, þá mun ég greiða atkv. á móti þessu frv., því að ef það væri samþ. óbreytt, þá tel ég, að sé gengið óforsvaranlega á hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna almennt vegna einkahagsmuna fárra manna úr einstökum héruðum.