18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (3213)

104. mál, hæstiréttur

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv. á þskj. 180, sem flutt er af mér ásamt þeim hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf., er um lítils háttar breyt. á l. frá 1935. um hæstarétt. Það er lagt til, að breytt verði nokkuð einni gr. í þessum lögum, 13. gr., sem er um það, hvaða skilyrði þeir eigi að uppfylla, sem fá leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti. Vil ég leyfa mér að gera grein fyrir því, hvaða breyting það er, sem við leggjum til í þessu frv., að gerð verði á þessum fyrirmælum.

Í núgildandi l. er svo fyrir mælt, að dómsmrh. geti veitt hverjum þeim leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti, sem fullnægi vissum skilyrðum. Þarf maðurinn í fyrsta lagi að hafa lokið lagaprófi með 1. einkunn. Í frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að þetta skilyrði verði niður fellt, þannig að þeir, sem lokið hafa embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands eða jafngildu prófi við erlenda háskóla og fullnægja að öðru leyti vissum skilyrðum, geti fengið leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti, hvort sem þeir hafa hlotið 1. einkunn við lögfræðipróf eða 2. Það verður ekki séð, að ástæða sé til að halda þessu skilyrði, og það munu ekki vera sett slík skilyrði um aðra, sem taka háskólapróf, hvorki t. d. lækna eða guðfræðinga. Þeir hafa sama rétt til embætta, hvort sem þeir fá 1. eða 2. einkunn við háskólapróf, og sýnist ekki ástæða til að haga þessu öðruvísi um lögfræðinga. Það hefur oft komið í ljós, að það fer ekki eingöngu eftir því, hvernig próf menn taka, hvað hæfir þeir eru til starfa, þegar út í lífið kemur. Það er reynslan, sem fyrst og fremst sker úr um það, en ekki prófin. Það er hægt að benda á það, að málflutningsmenn, sem hafa flutt mál við hæstarétt og hafa ekki náð 1. einkunn við lögfræðipróf, hafa reynzt þessu starfi vel vaxnir engu síður en margir aðrir, sem tóku hærra próf. – Þá er gert ráð fyrir því í núgildandi l., að til þess að geta öðlazt leyfi til málflutnings í hæstarétti, þurfi lögfræðingar að hafa gengið undir svokallað málflutningsmannspróf, sem er þannig, að þeir eiga að sýna það með flutningi fjögurra mála fyrir hæstarétti, og þar af sé a. m. k. eitt opinbert, að þeir séu að dómi hæstaréttar hæfir til málflutnings. Þetta leggjum við einnig til, að verði niður fellt. Má geta þess í þessu sambandi, að það er ekki skilyrði fyrir því, að lögfræðingar geti tekið við dómaraembættum, að þeir hafi gengið undir sérstakt dómarapróf, og ekki heldur sett það skilyrði, að þeir fái 1. einkunn við lögfræðipróf. Það virðist óeðlilegt, að um þetta séu gerðar strangari kröfur til þeirra, sem flytja mál fyrir hæstarétti, heldur en þeirra, sem taka að sér dómarastörf. Eins og ég gat um, kemur hæfni manna bezt í ljós, þegar út í lífið kemur, og það hlýtur að fara svo, að til þeirra, sem reynast hæfastir til þess að flytja mál, bæði fyrir hæstarétti og öðrum dómstólum, verður fyrst og fremst leitað í því efni, án tillits til þess, hversu hátt próf þeir hafa eða hvor t þeir hafa gengið undir eitthvert sérstakt málflutningspróf, eftir að þeir luku lagaprófi. Þetta er helzta breyt. Auk þess er lagt til í frv., að það skilyrði sé sett, að málflutningsmenn hafi gegnt lögfræðistörfum samtals í 5 ár áður en þeir öðlist réttindi til að flytja mál fyrir hæstarétti. Í núgildandi l. er þetta ákvæði þannig, að þeir eiga að hafa gegnt þeim störfum í 3 ár, og er þessi tími því lengdur um 2 ár. Ég skal geta þess, að í vörzlum okkar eru meðmæli með frv. frá mjög mörgum lögfræðingum, þar á meðal bæði fyrrv. og núv. sýslumönnum og bæjarfógetum, og við munum afhenda þau skjöl þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirrar grg., sem frv. fylgir, og að lokum óska, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.