18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

104. mál, hæstiréttur

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Ég hafði kvatt mér hljóðs áður en hæstv. forsrh. flutti sína ræðu. Hann hefur nú bent á svo margt til stuðnings því, að breyt. verði gerð á l. um hæstarétt, að þar verður ekki miklu við bætt. Ég vil þó gera aths. við nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hv. 7. landsk. (GÞ). Hann lagði áherzlu á það í sambandi við réttarfarið í landinu, að með þessari breyt. væri stefnt að öryggisleysi þeirra manna, sem þurfa að leggja mál fyrir hæstarétt. Nú skyldi maður ætla, ef þetta vær í svo í raun og veru, að skýrt ákvæði væri í hæstaréttarl. um það, að enginn mætti flytja mál fyrir þeim rétti nema úr hópi þeirra útvöldu, þ. e. a. s. þeirra, sem hafa fengið 1. einkunn við lagapróf og lokið þessu sérstaka málaflutningsmannaprófi eða þá fengið undanþágu samþ. 4. mgr. 13. gr. l. um hæstarétt, þar sem ákveðið er, að þeir menn geti fengið leyfi til að ganga undir prófið, sem hafa sýnt sérstaka færni í lögum, þó að þeir hafi fengið 2. einkunn við lagapróf. En 18. gr. l. ákveður, að menn megi fela að flytja mál fyrir sig maka sínum, frændum að feðgatali eða niðja, systkinum sínum, tengdaforeldrum eða tengdabörnum, og menn mega flytja sjálfir mál fyrir sig og félög eða stofnun, sem þeir veita forstöðu. Þannig get ég t. d., ef ég þarf að leggja mál fyrir hæstarétt, flutt það sjálfur fyrir hæstarétti, ekki eingöngu fyrir sjálfan mig, heldur get ég t. d. flutt mál fyrir réttinum einnig fyrir það kaupfélag, sem ég er framkvæmdastjóri fyrir. Og ef ég þarf sjálfur að leggja mál fyrir réttinn, get ég — falið systkinum mínum, konu minni eða frændum, þótt ólöglært fólk sé, að flytja þetta mál. En ef ég treysti mér eða þeim ekki til þess, þá get ég ekki falið t. d. bæjarfógetanum í Hafnarfirði eða á Ísafirði, þó að þeir hafi fengið 1. einkunn við lagapróf, að flytja þetta mál mitt, nema þeir áður hafi gengið undir málaflutningsmannapróf. Þetta lítur ákaflega einkennilega út fyrir sjónum okkar, sem höfum ekki annað en brjóstvitið að styðjast við, þó að þeir lögfróðu menn telji sjálfsagt að hafa þetta ákvæði í l.

Ég sannfærðist ekki af ræðu hv. 7. landsk. (GÞ) um það, að það væri eðlilegt að halda því fram, að lagaprófið væri eina prófið við háskólann, sem ekki veitti full réttindi. Menn geta orðið héraðsdómarar, þ. e. sýslumenn og bæjarfógetar, án 1. einkunnar við lagapróf og án þess að þurfa að ljúka neinu öðru prófi en lagaprófinu. En þeir geta ekki flutt mál fyrir hæstarétti, þó að þeir hafi verið héraðsdómarar í áratugi, nema með því að ganga undir sér stakt próf þar á eftir til þess að fá málaflutningsmannsréttindi við þann rétt.

Og viðvíkjandi öryggi eða öryggisleysi þeirra, sem þurfa að leggja mál fyrir hæstarétt, vil ég segja þetta: Úr því að menn geta flutt sjálfir sín eigin mál fyrir hæstarétti, þá á það vitanlega að vera svo, að þeir geti falið þann málflutning þeim lögfræðingum, sem þeir treysta bezt, án tillits til þess, hvaða einkunn þeir hafa fengið við lagapróf eða hvort þeir hafi gengið undir málaflutningsmannapróf. Ef ég er sjúkur, má ég velja sjálfur lækni minn, og get ég þá eins farið til læknis með 2. einkunnar próf við háskólann, ef ég treysti honum betur en öðrum. Hann hefur þá full réttindi til þess að veita mér læknishjálp. Á sama hátt á ég að geta farið til hvers málflutningsmanns, sem ég treysti bezt til að flytja mál mitt, hvort sem hann hefur fengið 1. eða 2. einkunn við lagapróf og hvort sem hann hefur gengið undir sérstakt málflutningsmannspróf eða ekki. Þetta er það réttaröryggi, sem almenningur á að fá, að hver einstaklingur í þjóðfélaginu, sem þarf að ná rétti sínum, geti, ef hann getur ekki flutt mál sitt sjálfur, falið það þeim lögfræðingi, sem hann treystir bezt til að fara með sitt mál.