18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (3217)

104. mál, hæstiréttur

Bergur Jónsson:

Það hafa nú áður komið fram frv. hér á hæstv. Alþ., þar sem gerð hefur verið tilraun til þess að breyta þeim ákvæðum, sem nú eru í l. um málflutning fyrir hæstarétti og nú eru í 13. gr. l. nr. 112 frá 18. maí 1935. En þetta frv. er að því leyti til miklu þegnlegra heldur en þau frv., sem áður hafa komið fram um þetta efni, að áður var ruglað saman hæstaréttardómurunum og þeim málflm., sem hér er um að ræða, eins og það væri gert í hugsunarleysi, enda stóðu ólöglærðir menn að flutningi frv. þá. Þá var látið sama ganga yfir dómarana og málflm., þannig, að 1. einkunnar skilyrðinu, sem hingað til hefur gilt um hrm., var líka kippt í burt að því er hæstaréttardómarana snerti. Þetta er bót í máli, að svona ákvæðum skuli ekki vera ruglað saman hér í þessu frv.

En ég vil vekja athygli á því, að það er dálítið einkennilegt við flutning þessara frv. hér á hæstv. Alþ., að það er sjaldnast nokkur lögfræðingur í þinginu fenginn til þess að vera flm. málanna, heldur venjulega menn, sem enga sérþekkingu hafa á þessu sviði. Þetta er að vísu ekki í ósamræmi við það, sem á sér nú stað um margt hér í stör fum hæstv. Alþ. Það er stundum eins og lítið sé gert úr því, hvort menn hafi nokkra sérþekkingu á þeim hlutum eða ekki, sem þeim er falið á hendur að fást við. En mér finnst það ekki nema eðlileg tilfinning hjá hverri stétt fyrir sig, sem fyrir því verður, að þeir menn, sem þekkja vegna lífsstöðu sinnar ekki neitt sérstakt inn í þann málaflokk, sem henni er tilheyrandi, eru látnir flytja mál, sem sú stétt er sérfróð í, að þm. þeirrar stéttar séu ekki að koma þar að og heimta hinar og þessar breyt., þegar málið er flutt án þess að nokkur flutningsmanna sé úr hópi þeirra manna, sem sérfróðir eru.

Það hefur verið mælt nokkuð fast fyrir þessu frv. Ég skal geta þess, að að því er snertir að fella burt ákvæðið um, að 1. einkunn við lagapróf skuli vera fast skilyrði fyrir því, að viðkomandi lögfræðingur fái rétt til þess að flytja mál fyrir hæstarétti, þá er það alls ekki ákvæði, sem ég mundi láta velta á afstöðu mína gagnvart frv., og er það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er vitanlegt, að margir menn, sem hafa góð próf frá háskólanum eða annars staðar frá, geta kannske reynzt tiltölulega lélegri til lífsstarfa heldur en þeir, sem fá verri próf. Það er því ekki algildur mælikvarði á starfhæfni manna síðar, hvernig próf þeir taka. Hin. ástæðan er sú, sem ég er hræddur um, að hafi gætt í lagadeild háskólans. Það hefur verið talað um, að þetta ákvæði í hæstaréttarl. mundi verða nokkurs konar spori á lögfræðinemana til þess að iðka nám sitt betur. Ég býst við, að svo sé um þá suma. En það er önnur afleiðing, sem ég er hræddur um, að það hafi líka, að kennarar í lagadeildinni muni yfirleitt reynast nokkuð miskunnsamir í sumum tilfellum og reyna að láta menn ekki falla frá því að ná 1. einkunn vegna þess, að það er talið skipta svo miklu máli fyrir þá í lífinu. Ég álít, að það sé alltaf heldur af illum toga spunnið, að af óviðkomandi ástæðum sé verið að ýta mönnum upp með einkunnagjöfum á prófum, hvort sem það er í háskóla eða annars staðar, og að það verði að búa þannig um l., að þau sem minnst haggi alveg köldu, objektivu áliti og objektivum úrskurði kennara á nemendum. Svo að ég gæti í sjálfu sér vel gengið inn á þetta ákvæði.

En svo er gengið nokkru lengra í þessu frv. heldur en áður hefur verið gengið í hliðstæðum frv. þessu, þar sem algerlega eru felld niður þau próf, sem hingað til hefur verið krafizt af málflm. fyrir hæstarétti, að þeir, áður en þeir mættu taka það að sér að flytja mál fyrir réttinum, yrðu að flytja ákveðinn fjölda mála. Fram til þessa hefur mér virzt flm. niðurfellingarákvæðanna um 1. einkunnar skilyrðið vilja ganga til móts við aðra, sem vildu halda því, með því að herða á öðrum skilyrðum fyrir því, að menn megi flytja mál fyrir hæstarétti, svo sem um próf og starfstíma o. s. frv. En hér er öllu slíku algerlega kippt í burtu.

Án þess að ég vilji gefa út nokkra endanlega ákvörðun mína um það, hvernig ég muni í allshn.; sem ég geri ráð fyrir að fái þetta mál til meðferðar, snúast við málinu, get ég ekki stillt mig um að gagnrýna dálítið þann málflutning, sem hér hefur verið við hafður fyrir þessu frv., eins og hæstv. dómsmrh. t. d. sagði, að ákvæðin um þetta skilyrði til málflutnings fyrir hæstarétti væru orðin úrelt. En ég heyrði hann ekki koma með ein einustu rök fyrir því, að þau væru orðin úrelt. Þegar við flettum upp fylgiskjölum frumv., sjáum við, að það, sem prentað er um próf málflm. erlendis í 2. og 3. fylgiskjali, það er frá 1929, m. ö. o. skrifað 9 árum áður en l. um hæstarétt var breytt, sem var á Alþ. 1935, þegar svona var gengið frá þeim eins og þau eru nú. Það hefði verið dálítið eðlilegri og skemmtilegri málflutningur, hefði flm. frv. getað haft eitthvað nýrri upplýsingar um það, hvernig gengið er frá málflutningsleyfum í öðrum löndum, heldur en hér er gert. Það, sem með fullri vissu má telja úrelt í þessu efni, eru þessi fylgiskjöl, sem notuð eru hér til rökstuðnings fyrir frv. Fyrir hinu voru ekki færð nein rök, að það væri úrelt að hafa ákveðin skilyrði, sem sumum kann að þyk ja vera ströng, til þess að menn geti fengið rétt til þess að flytja mál fyrir hæstarétti.

Í öðru lagi tek ég eftir því af þessum fylgiskjölum, að þar er verið að tala um nöfn á þessum málflm. í þessum löndum, sem þar eru nefnd. Þó að ég sé ekki nægilega kunnugur málflutningsskilyrðum erlendis, þykist ég geta upplýst, að það er ekki heiglum hent í Bretlandi að gerast „barristers“. En það er annar málflutningsmannahópur, sem þar er miklu fjölmennari, sem er hinir svo nefndu „solicitors“. Í frv. er engin grein gerð fyrir því, hvernig hægt er að komast upp í það að verða „solicitor“ í Bretlandi, svo að ég nefni dæmi. um það, hversu haldlítil þessi fylgiskjöl eru sem rökstuðningur í þessu máli. Það er verið í grg. frv. að slá á þá strengi, að í erlendum l. þekkist engin hliðstæð dæmi fyrir því, að menn séu prófaðir á sama hátt og hrm. hér eru prófaðir með því að flytja 4 mál fyrir hæstarétti.

Það er nokkuð þægilegt að grípa til samlíkinga þeirra, sem færðar hafa verið fram til stuðnings þessu máli. Það er sagt, að mönnum sé ekki meinað læknisleyfi, þangað til þeir hafi læknað 4 sjúklinga. Ég vil, að menn athugi, hvílíkur ofsi liggur bak við málflutning, þar sem borin eru saman jafnólík atriði eins og þetta. Og enn fremur segir hér í grg.: „Engum presti er synjað vígslu, unz hann hefur gift, skírt, fermt eða jarðað svo og svo marga menn.“ Ég vil benda á það, að eitt af þeim störfum, sem lögmenn og bæjarfógetar hafa með höndum, er að gifta menn, og það er ekki sett að skilyrði, að allir þeir, sem komast vilja að embætti sem bæjarfógetar eða lögmenn, hafi æft sig í að gifta, heldur verðum við að ganga að þeim störfum án þess að hafa lært sérstaklega neitt til þess út af fyrir sig. Við verðum að brjóta okkur braut í þeim efnum með heilbrigðri skynsemi, og á grundvelli þeirrar þekkingar, sem við kunnum að hafa um það efni.

Samanburður í þessu efni milli lækna og guðfræðinga annar s vegar og lögfræðinga hins vegar sýnir það, að meira gætir ákafa í málflutningi fyrir frv. þessu heldur en röksemda, sem reistar eru á rólegri yfirvegun. Hvernig í ósköpunum á að bera saman aðstöðu lögfræðings og guðfræðings? Hvernig á að dæma um það, hvort maður, sem búinn er að taka guðfræðipróf, sé hæfur til þess að gerast prestur? Jú, þetta er lagt undir próf. Þeir eru látnir ganga gegnum prófraun. En hún er dálítið öðruvísi heldur en próf lækna og lögfræðinga. Það er lagt undir dóm fólksins. Það er ekki álitið, að það þurfi að hafa neina sérfræðikunnáttu til þess að dæma um það, hvort þessir menn séu hæfir til þess að gerast prestar. Enda er sannleikurinn sá, að trúmál og afstaða manna til trúmála er slík, að . það væri algerlega ómögulegt fyrirkomulag, og í mínum augum hreint og beint bera allt of mikinn keim af hinu versta einræði og sérréttindafyrirkomulagi, ef tekin væri upp sú regla, að t. d. biskupi og prófasti væri falið að prófa hvern einasta guðfræðing, áður en hann gengi undir kosningar sem prestur. Ég tek þetta til dæmis um það, hvað menn geta farið út í mikinn ofsa í málflutningi til þess að koma málum sínum fram. Þetta mál er ekki mál, sem í raun og veru er hægt fyrir hvern og einn að ræða um. Menn þurfa að hafa allmikla þekkingu og reynslu á vissum sviðum til þess að geta dæmt um það.

Mér skilst, að ein aðalröksemd þeirra, sem mæla með frv. óbreyttu, sé sú, að mönnum sé heimilað að flytja sjálfir mál sín fyrir hæstarétti og að láta skyldmenni sitt eða maka gera það. En hvað kemur þetta málinu við? Er ekki betra að nota sömu röksemdafærslu og höfð er í grg. frv. og segja: Hvar er bannað að láta vini og skyldmenni halda líkræður við jarðarfarir? Hvar er bannað, að mæður, feður, húsmæður, húsfeður eða aðrir á heimilunum geri það, sem þau geta til þess að hjálpa sjúkum? Hvar er þetta bannað í l.?

Nei, hér hafa l. bara tekið þá eðlilegu afleiðingu af þeirri lífsskoðun, sem ég býst við, að meiri hl. íslenzku þjóðarinnar vilji lifa eftir, að menn eigi að hafa nokkuð frjálsar hendur um það, hvort sjálfir þeir og aðstandendur þeirra, og vinir megi taka á sig ábyrgð á þeim hlutum, sem geta kannske haft örlagaríkar afleiðingar fyrir þá sjálfa. Og svo við förum inn á dæmið um sjúkdómana og læknana, þá hefur hver einstakur maður fullt vald yfir því, ef hann er særður eða sjúkur, hvort hann leitar sér nokkurs manns með sérþekkingu eða ekki til hjálpar (HelgJ: Nei, ekki að öllu leyti.), — og sjálfsákvörðunarrétti í þeim sökum held ég, að læknirinn á Stórólfshvoli geti ekki svipt menn. Nei, ég kann illa við svona málflutning. Þarna er um að ræða dálítið alvarlegt atriði, um það, hvernig aðstaða manna í þjóðfélaginu eigi að vera til þess að ná rétti sínum, ef þeim er alvara með að gera það á skynsamlegan hátt, og það er það, sem vakað hefur fyrir löggjafanum, þegar l. um hæstarétt voru sett. Við getum hugsað okkur, að engir dómarar væru hér á landi með sérþekkingu. Við álítum það ekki rétt, og við göngum svo langt, að við heimtum, að það sé sérþekking hjá þeim mönnum, sem stjórna dómstólunum.

Ef ég sný mér einungis að frv. sjálfu, skal ég játa, að það er ákaflega undarlegt, að menn, sem talið er, að séu nægilega færir til þess að fara með dómsvald í landinu og hafa gert það árum saman, skuli vera útilokaðir frá því að mega flytja mál fyrir hæstarétti, þó að við, sem við þá hluti höfum fengizt, vitum það, að það er náttúrlega dálítið öðruvísi starf dómarastarfið en málflutningsmannsstarfið.

Þrátt fyrir þann ofsa, sem ég tel, að hafi blindað aðstandendur þessa frv., ekki beinlínis flm. þess á þingi, heldur þá, sem sömdu grg., mun ég ekki taka afstöðu gagnvart frv. að sinni, heldur athuga málið í n., þegar þangað kemur. En ég vildi gjarnan óska eftir því, ef á að halda áfram umr. um mál eins og þetta, sem ég tel mér skylt, vegna þess að ég er einn í hópi þessarar stéttar og hef með lagasetningu að gera, að reynt verði að haga málflutningnum þannig, að menn beini sér eindregið að ákvæðum l., en slái ekki um sig með úreltum slagorðum. Það er harla gagnslaust að tala um, að lagaákvæði séu orðin úrelt, án þess að færa rök fyrir því, eins og hefur komið fram í umr. Ef við eigum að halda okkur við það, að þessi ákvæði séu úrelt, þá vildi ég gjarnan fá nýrri upplýsingar en frá 1926, t. d. frá 1938, hvernig þá var með málflutning í ýmsum löndum. Jafnframt vildi ég gjarnan, að hv. flm. frv. gæfu frekari upplýsingar en eru í frv. um hina svokölluðu „barristers“ á Englandi og hvaða munur sé á þeim og „solicitors“, en fyrir þeim mismun hefur engin grein verið gerð, hvorki í frv. né í grg. Að þessu slepptu er rétt að geta þess, að í 7. lið 1. gr. er sagt, að ráðh. geti veitt þeim lögfræðingi leyfi til málflutnings, sem hafi gegnt lögfræðistörfum í 5 ár að afloknu prófi. Þetta ef nokkuð vítt orðalag, og þess er alls ekki krafizt, að viðkomandi hafi eingöngu haft lögfræðistörf með höndum. Þó að hann hefði aðeins haft þau í hjáverkum og stundað önnur störf meira, ætti hann samt að hafa nægilega reynslu til þess að gerast hæstaréttarmálflm. eftir ákvæðum frv.