28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (3227)

104. mál, hæstiréttur

*Frsm. meiri . hl. (Jóhann G. Möller) :

Það er ekki ástæða til að lengja mikið umr. um þetta. Þau rök, sem hv. 7. landsk. kom með gegn þessu frv., eru bæði mér og öðrum hv. dm. kunn frá 1. umr. Og ég held ég geri ekki hv. þm. rangt til, þó að ég segi, að í þeim sé í raun og veru ekkert nýtt, annað en þær upplýsingar, að í grg. fyrir frv. væri saga um X og Y, sem eru ákveðnir málafærslumenn í þessum bæ, sem væri algerlega röng. Hv: 7. landsk. sagði í sambandi við þessa sögu, að hann vildi ekki a. m. k. mæla með því, að þeir, sem koma með slíkan rökstuðning, yrðu hrm.

Ég verð að halda því fram, að þessi saga sé sönn. Annars skiptir það ekki máli, hvort svo er eða ekki. Aðalatriðið er, að það atvik, sem þarna er sagt frá milli X og Y, getur átt sér stað eins og málum er nú skipað, en miklu síður ef hæstiréttur er opinn til málflutnings fyrir alla, sem útskrifazt hafa úr lagadeild.

Ég vil benda hv. þm. á, að í grg. er bréf frá málflm. í Kaupmannahöfn, þar sem tekið er svipað dæmi. Það má vera, að þetta dæmi sé ekki „konkret“, en eftir eðli dæmisins getur það vel hafa átt sér stað.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um það, sem hv. þm. sagði um I. einkunnina. Allt þetta tal um I. einkunn sem skilyrði fyrir því að geta orðið hæstaréttarmálaflm. álít ég að sé eins og að glíma við draug. Þetta er úrelt ákvæði og fyrirfinnst hvergi í öðrum löndum. Hv. 7. landsk. lézt ekki skilja, að þetta ákvæði væri úrelt, enda væri hér aðeins verið að heimta meiri þekkingu. En ákvæðið er úrelt vegna þess, að þessi meiri þekking er engan veginn bundin því skilyrði að hafa I. einkunn frá háskólanum. Ég vil líka minna hv. þm. á orð hans í öðru máli, þar sem hann sagði, að það væri sitt hvað að hafa góða einkunn og teoretiska þekkingu eða að vera fær um að mæta lífinu eins og það er í raun og veru. Ég er hv. þm. alveg sammála. Lífið sjálft á þarna að velja og hafna og skera úr um, hverjir hæfir reynast til þessa starfs, en ekki I. einkunn við háskólann, sem ekki allir geta náð, þótt þeir hafi gáfur til þess. Háskólanám getur verið þeim erfiðleikum bundið, að miklir gáfumenn geti ekki stundað það sem skyldi af efnahagsástæðum.

Mér finnst, að þessi skilyrði, I. einkunn og sömuleiðis prófskilyrðið, minna á gamla tíma, þegar verið var að berjast fyrir réttindum millistéttanna og alþýðu manna á tímum stjórnarbyltingarinnar frönsku. Þá gátu ekki aðrir notið réttinda en prestar og aðrir yfirstéttamenn, sem sátu á réttindum annarra í skjóli úreltra ákvæða. Annars skilst mér á hv. 7. landsk., sem er aðalandmælandi þessa máls hér í hv. d., að honum sé ekki eins sárt um að afnema I. einkunnarskilyrðið og prófskilyrðið sjálft. Það kann að vera, að í augum andmælenda frv. skipti prófskilyrðið meira máli. En nú er það svo, að þeir, sem málfærslu stunda fyrir undirrétti, verða að ganga undir sérstakt próf, og þeir verða svo að ganga á ný undir próf, ef þeir ætla að stunda málfærslu fyrir hæstarétti. Með öðrum orðum, eftir að hafa stundað nám í 6 ár, þarf stöðugt að ganga undir ný og ný próf, og það er meira að segja erfiðleikum bundið að fá að ganga undir próf til hæstaréttar, því að það er vitað, að mjög erfitt er að fá prófmál til þess að flytja fyrir réttinum. Eftir upplýsingum hæstv. forsrh. hafa menn jafnvel orðið að bíða þess í 8 ár að fá að ganga undir prófið. Ég vil benda hv. þm. á, að það er ekkert réttlæti í því að halda fast við prófskilyrðið, en meina svo mönnum að ganga undir prófið. Þá vil ég einnig benda á, að mér finnst óeðlilegt, að hæstiréttur dæmi sjálfur um, hvaða menn hann vill velja til þess að láta flytja mál fyrir réttinum. Ég álít meira að segja; að af þessu geti stafað nokkur hætta fyrir réttaröryggið í landinu.

Hv. þm. taldi við 1. umr. þessa máls, að réttaröryggið mundi verða minna, ef öllum væri hleypt að málfærslu fyrir hæstarétti. Ég álít engu minni hættu fyrir réttaröryggið að binda málflutninginn við örfáa menn. Nei, það mætti segja mér, að samþykkt þessa frv. yrði ákaflega sterkur liður til þess að styrkja réttaröryggið og skapa trú almennings í landinu á það. — Það er fyllsta ástæða til þess fyrir almenning að spyrja, hvort réttaröryggið sé svo fullkomið sem það getur verið, þegar honum er neitað um að hafa nema 13–14 menn til málflutnings fyrir hæstarétti. Og almenningur spyr, hverju þetta sæti. Svarið er: Til þess að flytja mál fyrir hæstarétti þarf að uppfylla sérstök skilyrði. Þau skilyrði eru hv. dm. kunn. — Almenningur kemst á þá skoðun, að hér sé um óréttlæti að ræða, sem þörf sé á að afnema. Ég held, að einmitt í þessu sambandi sé ástæða til að taka tillit til skoðunar almennings um þetta atriði.

Hv. 7. landsk. minntist á, að frv. svipað þessu hefði áður legið fyrir Alþ. og hafi þá verið sent hæstarétti og lagadeild háskólans til álits. Það er mjög ánægjulegt, að hv. þm. skuli vilja bera þetta allt undir háskólann, en ég hygg, að ef málið væri sent til lagadeildar háskólans nú, mundi hún ekki öll vera því mótfallin. Einn af prófessorunum við lagadeildina nú var einn af flm. frv., sem flutt var á Alþ. fyrir nokkrum árum, um að afnema I. einkunnar skilyrðið. Ég hef talað við ýmsa menn, sem verið hafa prófessorar við háskólann, og þeir hafa látið í ljós þá skoðun, að það ætti ekki einungis að afnema I. einkunnar skilyrðið, heldur einnig öll próf við undirrétt og hæstarétt. (GÞ: Á ekki líka að afnema lagaprófið?) Lagaprófið sjálft ætti að þyngja, sem hv. þm. segir, að sé nú svo auðvelt. Það ætti að vera fróun fyrir andstæðinga þessa máls, ef lagaprófið yrði þyngt, og draga úr þeirri ástæðulausu hræðslu þeirra, að amlóðar einir og aumingjar yrðu til þess að flytja mál fyrir hæstarétti, eða jafnvel slíkir menn, sem hv. þm. sagði, að frekar mundu lenda í neðri hæð hússins við Skólavörðustíg en á efri hæð þess.

Satt að segja skil ég ekki þær röksemdir hv. þm., en rökin eiga víst að vera þau, að það sé hættulegt að fjölga málflm. við hæstarétt, vegna þess að stórar peningaupphæðir fari í gegnum hendur þeirra. Þessi sömu rök komu fram við 1. umr. hjá hv. þm. og þá um leið, að með þessu frv. væri verið að gera málflm. að „próletörum“. Ég sé nú ekki, að þessi hætta þurfi að vera fyrir hendi, en annars mætti setja það skilyrði fyrir málflutningi við hæstarétt, að menn legðu fram tryggingu fyrir þeim upphæðum, sem þeim væri falið að fara með í málfærslu sinni. Sem einn af flm. þessa frv. get ég gengið inn á slíkt ákvæði. Það mun og vera í Danmörku og víðar.

Annars mundi fljótt koma í ljós, hverjum væri trúandi fyrir því að fara með mál, og það er ástæðulaust að gera sér þær hugmyndir um íslenzka málflutningsmannastétt, að hún yrði að próletörum, þótt þessi ákvæði yrðu rýmkuð. — Annars væri ef til vill ástæða til þess að athuga, hvort íslenzk málflutningsmannastétt er ekki of þröngur hópur, að ég segi ekki klíka, og kannske of mikið í andstöðu við próletarana.

Ég álít, að þessi tvö atriði komi málinu ekki við, en ég skil vel, þar sem hér er verið að fara fram á, að sjálfsagður réttur sé veittur fleirum, og þeim, sem raunverulega eiga hann, að það sé eðlilegt, að þeir, sem einir hafa réttarins notið, snúist gegn frv. Hins vegar vænti ég, að hv. d. samþ. frv. Skal ég svo ekki fara um þetta mál fleiri orðum, þótt enn sé ýmsu ósvarað í ræðu hv. 7. landsk., en það hygg ég vera aukaatriði.