23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

107. mál, iðnlánasjóðsgjald

Skúli Guðmundsson:

Ég hafði búizt við, að iðnn. mundi bera fram brtt. við 2. umr., en nú hefur frsm. lýst því yfir, að n. muni athuga þetta frv. fyrir 3. umr. Læt ég mér þetta vel líka. En til viðbótar því, sem ég sagði við 1. umr., vildi ég minnast á það — og vænti, að n. taki það til athugunar —, hvort henni finnist borga sig að lögfesta þetta ½% gjald til þess að ná 25 þús. kr. í sjóðinn á ári. Eins og d. er kunnugt, voru fyrir skömmu sett l. um tollskrá, þar sem tekin voru saman í eina heild allmörg lagafyrirmæli um tolla, og hefur sú framkvæmd orðið miklu einfaldari fyrir þá, sem innheimta eiga þessi gjöld. Hér er lagt til, að sett verði viðbótargjald á æðimargar vörutegundir. Ég tel vafamál, að rétt sé að lögfesta þetta, sérstaklega vegna þess, að þetta veldur talsvert aukinni fyrirhöfn fyrir innheimtumennina, en hins vegar gefur þetta tiltölulega litlar tekjur. Ég held, að heppilegra væri að hækka ríkissjóðsframlagið til þessa sjóðs sem nemur þessari fjárhæð.

Þetta vildi ég taka fram og auk þess endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., að ef n. heldur fast við að setja slíkt gjald, hvort hún vildi þá ekki breyta þessu þannig, að þeim iðnfyrirtækjum, sem vinna að mestu leyti úr innlendum hráefnum, yrði sleppt við þetta gjald, því mér skilst enginn ágreiningur vera um það, að það eigi fyrst og fremst að styðja slík fyrirtæki.

Þá vildi ég einnig skjóta því til n. til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja í þessi l., eins og l. um marga hliðstæða sjóði, heimild til lántöku fyrir sjóðinn. Mér skilst, að þessi sjóður þyrfti ekki endilega að eiga sjálfur allt það fé, sem hann hefur til umráða. Hann ætti að geta tekið lán, eins og aðrir slíkir sjóðir, og fullnægt að einhverju leyti lánsþörfinni á þann hátt.

Fleira var það ekki, sem ég sé ástæðu til að taka fram á þessu stigi málsins.