21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (3247)

111. mál, Ísafjarðardjúpsbátur

Bjarni Bjarnason:

Ég hef í sjálfu sér ekkert nýtt fram að færa í þessu máli, en ég vil undirstrika nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr.

Ég tel, að ekki hafi verið athugað sem skyldi, hvort þeim héruðum, sem hafa samgöngur að verulegu leyti á sjó, hefur verið gert eins hátt undir höfði og hinum, sem hafa þær eingöngu á landi, þ. e. a. s. innanhéraðssamgöngur.

Það má vera, að ef ríflega er veitt til þessa fyrirtækis, sem sé báts á Ísafjarðardjúp, þá skapist þar með fordæmi um önnur héruð, sem væri hættulegt og útgjaldafrekt, en ég hygg þó, að óvíða og líklega hvergi annars staðar hagi þannig til, að fjörður skeri eina sýslu hér um bil í tvennt, eins og þarna á sér stað. Af þessum ástæðum virðist vegagerð hafa verið vanrækt þarna og eins vegna þess, að menn sáu, að betur hagaði til um samgöngur á sjó en landi. En sé svo, að samgöngumálin hafi verið vanrækt þarna, af því að menn hafi séð, að frekar ætti að velja sjóleiðina, þá er enginn vafi, að þarna stendur sérstaklega á. En samhliða því, sem aðstaða þessa héraðs væri bætt á svipaðan hátt og gera á með þessu frv., þyrfti einnig að gera lendingarbætur. Nú er það þannig, að vitamálastjóri er búinn að athuga þarna mjög víða við Djúpið aðstöðu til lendingarbóta, og mér skilst, að Alþingi sé fúst til að leggja fram fé til þeirra framkvæmda.

Ég mun eindregið styðja að því, að hafizt verði handa um að bæta úr samgönguþörfinni í Norður-Ísafjarðarsýslu með Djúpbát. Ég tel, að sýslan eigi að hafa forustu í þessu máli og hún eigi að eiga bátinn. Ég tel enn fremur, að ríkið eigi ekki að leggja fram sinn hluta sem lánsfé, heldur sem styrk á svipaðan hátt og það leggur fram fé til vegagerða annars staðar á landinu. Það hefur verið tekið fram af kunnugustu mönnum, eins og hv. þm. Ísaf., að Ísfirðingar ætlist ekki til, að báturinn verði notaður til annars en samgangna innan sýslunnar. Byggir hann á því m. a. þá skoðun, að báturinn þurfi ekki að vera stærri en gert er ráð fyrir í frv., eða allt að 55 smálestir. Hins vegar hafði ég hugsað mér, að slíkur bátur þyrfti að vera allt að því eins stór og Fagranes, sem mun vera um 70 smálestir, en vitanlega hef ég ekki þekkingu á því, en tel sjálfsagt, að þar verði farið eftir áliti þeirra, sem kunnugastir eru og dómbærastir um það atriði. Og ef átt væri við, að báturinn yrði sendur í snattferðir með ströndum fram, ef hann væri nógu stór til þess, hygg ég, að Ísfirðingum væri betra að hafa hann minni og njóta hans einir.

Það má vel vera, að það sé of rausnarlegt, að ríkissjóður eigi slíkan bát. En mér virðist réttmætt, að ríkið leggi allmikið fé til samgangna um Ísafjarðardjúp, því að vegagerð á landi getur ekki orðið þar mikil, vegir, sem þar verða lagðir, eru minnst til samgangna innanhéraðs, heldur til tengsla við önnur héruð.