21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (3248)

111. mál, Ísafjarðardjúpsbátur

*Bergur Jónsson:

Mér skilst, að það hafi komið mjög greinilega fram í umr. hjá hv. 5. þm. Reykv. (SK) og hv. þm. N.- Ísf. (VJ), að hér sé aðeins um það að ræða að koma upp flóabát fyrir Ísafjarðardjúp, en ekki til að greiða fyrir samgöngum um alla Vestfirði. Það er því alveg óskiljanlegt, að þetta skuli kallaður Vestfjarðabátur í nafni frv. Vestfjörðum verður að skipta í 4 svæði, ef rætt er um samgöngur með ströndum fram : 1) Barðastrandarsýslu, Breiðaf jarðar megin, vestur að Látrabjargi, 2) Vestfirði frá Látrabjargi til Súgandafjarðar, 3) Ísafjarðardjúp, 4) Strendur, sem vita að Húnaflóa, og má a. m. l. leysa samgöngumál þeirra á sjó með flóaferðum þar, eins og sú hlið Vestfjarða, sem snýr að Breiðafirði, á samgöngumál sameiginleg með öðrum héruðum fjarðarins. Ef gera ætti Vestfjarðabát, yrði hann a. m. k. að vera fyrir firðina vestan frá Látrabjargi engu síður en fyrir Djúpið. Það er langt frá, að ég sé á móti því, að komið sé upp bát fyrir Djúpið. En auðvitað verður þá að breyta frv. lítið eitt og kalla það ekki Vestfjarðabát.

Þá er það stærð bátsins. Hv. þm. Ísaf. upplýsti, að 45–50 smál. bátur mundi nægja. Þá stærð, hafa Djúpmenn tiltekið og telja hana hæfa sínum samgöngum bezt, enda gengi hann þá aðeins eftir samgönguleiðum innan fjarðar. Þó að þetta sé algerlega réttmætt mál, er vitanlega alls ekki gert með því út um samgöngumál fjarðanna vestur þaðan allt til Patreksfjarðar. Þá yrði a. m. k. að vera samvinna með Vestur-Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarsýslu.

Í umr. hefur nokkuð verið minnzt á vegamál Vestfjarða. Ég vildi, að hv. þm. færu ekki mjög langt út í það að draga úr vegaþörf Vestfjarða, þótt bætt sé úr sjálfsögðum samgönguþörfum þeirra á sjó. Það hlýtur að verða mikil þörf á vegum á landi engu að síður. Og þótt ég fylgi þessu máli, tel ég, að sjálfsagt sé, að Alþingi sé við því búið, að fleiri tillögur komi fram um samgöngubætur á sjó, a. m. k. bæði á fjörðunum vestur frá Súgandafirði til Látrabjargs og þeirri megin, sem að Breiðafirði snýr. Það verður sameiginleg krafa allra, sem bera Vestfirði fyrir brjósti, að bætt sé úr samgöngum héraðanna þar á landi við önnur héruð. Vestfirðir hafa í því efni verið ákaflega afræktir frá fyrstu tíð. Vegurinn, sem nú er ráðið, að liggi norður yfir. Kollafjarðarheiði, er mjög aðkallandi umbót. Þessu frv. er ég eindregið fylgjandi, þegar formsatriði hefur verið breytt, en það getur ekki komið í veg fyrir kröfur annarra héraða á Vestfjörðum um jafngóðar samgöngur.