23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (3259)

114. mál, ábúðarlög

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég tel rétt að láta nokkur orð fylgja frv. við 1. umr., og þá ekki sízt af því, að enda þótt landbn. standi öll að frv., þá er vafi á, að hún sé öll sammála um það.

Frv. þetta er samið af búnaðarþingi eða öllu heldur milliþn., sem starfaði milli búnaðarþinga. Frv. er mest breyt. á 3. gr. ábúðarl. frá 1933. Með frv. er fyrst og fremst stefnt að því að gefa sveitarstj. meiri umráð yfir jörðum, sem landsdrottnar nytja ekki sjálfir eða geta ekki byggt.

Á síðastliðnu þingi var gerð breyt. á 3. gr. ábúðarl. í þá átt að heimila sveitarstj. íhlutunarrétt um jarðir, og var þetta frv. flutt samkvæmt beiðni n. á búnaðarþingi. En ákvæðin, sem þá voru sett, þóttu ekki nægjanleg. Nú er því gengið lengra, svo að heimilt er að taka þær jarðir eignarnámi, sem ekki eru nytjaðar eða byggðar. Borið hefur á því, að jarðir hafa á þennan hátt lagzt í eyði. En það er talið sjálfsagt í þágu sveitarstj. að halda þessum jörðum í ábúð eða stuðla að því.

Ég hygg, að menningarmunur sé enginn um þetta í landbn. og n. sé óskipt um þetta atriði. Við nm. leggjum því til, ef frv. nær fram að ganga, að breyt. frá 1940 yrðu látnar niður falla. Annað nýmælið í 1. gr. frv. er um 3. gr. ábúðarl. frá 1933. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa upp 1. málsgr. 3. gr. Þar stendur:

„Hver maður, sem á jörð, er hann nytjar ekki að staðaldri sjálfur, skal skyldur að byggja hana hæfum umsækjanda gegn hóflegu eftirgjaldi, að dómi úttektarmanna.“

Þannig hljóða ákvæðin frá 1933, en hér er lagt til, að bætt verði við: en þó aldrei hærra en svarar 4% vöxtum af fasteignamatsverði. Ef hlunnindi, er jörð eiga að fylgja, eru ekki byggð með henni, skal verðgildi þeirra metið sérstaklega til frádráttar. Þó er landsdrottni ekki skylt að hlíta þessu ákvæði um hámarksleigu, ef . hann gefur ábúanda kost á að kaupa jörðina fyrir gildandi fasteignamatsverð. —

Eins og hv. deild er kunnugt, hafa verið sett ákvæði um, að ríkið leigi sínar jarðir gegn 3% af fasteignamatsverði. — Þar með er komin hámarksleiga á nokkurn hluta leigujarða. Það hefur vakað fyrir búnaðarþingi, að nú þegar verðlag hækkar á öllu, ekki sízt fasteignum, að þá beri að ákveða eitthvað fast um það. Þetta getur því orðið vörn fyrir sveitirnar. Nú er vitað mál, að afgjald á leigujörðum er mjög breytilegt og margar jarðir, þar sem afgjald er ekki hærra en 4%. Þetta kemur þó ekki til með að breyta gildandi ábúðarsamningum, heldur kemur aðeins til framkvæmda um leið og nýir ábúðarsamningar eru gerðir. Ég tel, að einstökum landsdrottnum sé ekki á neinn hátt gert rangt til með þessu. Úr því að jarðir ríkissjóðs eru leigðar gegn 3% af fasteignamatsverði, þá tel ég hér stillt í hóf.

Þó er það einkum hin mikla óvissa og ringulreið á verðlagi, sem gerir, að ég er þessu fylgjandi. Og það væri sannarlega mikið unnið, ef hægt yrði með þessu að stemma stigu fyrir hinni gegndarlausu verðhækkun fasteigna í sveitum.

Þetta er höfuðbreyt. í 1. gr. frv., og mun ekki ástæða til að ræða um það frekar.

Svo get ég aðeins minnzt á, að í 2. gr. er gert ráð fyrir breyt. á 9. gr. ábúðarl. Hér er lagt til, að menn geti sagt upp ábúð á jörðum með tveggja ára fyrirvara. Það var shlj. álit búnaðarþings að koma með þessa breyt., og ég tel, að landbn. sé sammála um, að hér sé um vernd að ræða fyrir leiguliðana, svo þeir geti haft tíma til að útvega sér nýtt jarðnæði.

Ég mun svo ekki ræða frekar um það atriði. Ég tala hér eiginlega sem frsm. fyrir alla n., en þó aðeins fyrir .þann hluta hennar, sem er fylgjandi ákvæðunum um hámarksleiguna, og þykir mér líklegt, að hinn hlutinn láti eitthvað til sín heyra. Svo legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr.