13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

114. mál, ábúðarlög

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Það er langt síðan þetta mál var hér til 1. umr., og þá skýrði ég með nokkrum orðum, hvað lægi til grundvallar skoðunum þeirra manna, sem breyta vilja ábúðarl. En vegna þess, hve langt er liðið frá 1. umr., þá vil ég rifja upp það, sem ég sagði þá um að setja hámarksleigu á jarðir. Hv. þm. Borgf. sagði, að í ábúðarl. væri ekki hámarksleiga ákveðin. Það er rétt, en aftur á móti hefur verið sett hámark fyrir kúgildisleigu, og er það 6% af skattmati. Það er ekki rétt, að kúgildisleiga sé greidd í fríðu. Þetta er gert til að tryggja, að ekki sé hægt að taka of háa vexti af kúgildum. Svo er í erfðaábúðarl. ákveðið, að jarðir ríkissjóðs séu ekki leigðar gegn hærri vöxtum en sem svari 3% af fasteignamatsverði. Það er því ekkert undarlegt, þó að ákvæðum skjóti upp, sem eru svipuð ákvæðunum um ríkisjarðir.

Við hv. þm. Borgf. erum sammála um það tjón, sem af hlýzt, ef jarðir eru of hátt leigðar eða í of háu verði. Mesta bölvun fyrir landbúnaðinn er að þurfa að greiða of háa vexti.

Nú er svo ástatt, að menn sækjast mjög eftir fasteignum. Þeir vilja koma peningum sínum í eitthvað fast, sem von er á þessum tímum. Mikil hætta er því á, að jarðir verði keyptar of dýrt og séu svo leigðar út í samræmi við kaupverðið. Úttektarmenn yrðu að taka tillit til, hvað fasteignin var keypt, og þá getur farið svo, að leiga verði hærri en ég álít rétt og hollt fyrir landbúnaðinn. Fyrir búnaðarþingi vakti, að ef slík ákvæði yrðu sett, þá væri hægt að sjá fyrir því, að menn „spekúleruðu“ með jarðeignir, því ef ekki má leigja jarðir hærra en 4%, þá mundu menn hika við að kaupa þær. Því ef mikil ásókn er að kaupa jarðir og þær fara upp úr öllu valdi, þá er hætta, þegar verðfallið kemur. Við þekkjum mörg dæmi slíks úr heimsstyrjöldinni. Ég veit, að fyrir búnaðarþingi vakti þetta fyrst og fremst, og meiri hl. landbn. leggur til, að þetta frv. verði afgr. og þetta ákvæði gert að lögum.

Hv. þm. Borgf. talaði um hina gömlu, góðu daga, þegar afgjaldið var greitt í fríðu. Ég tel nú, að þetta sé mjög tvíeggjað, og ég veit, að á ýmsum jörðum er þannig okurleiga, sérstaklega á ýmsum hlunnindajörðum með æðardún og öðru. Ég veit, að afurðir slíkra jarða hafa komizt upp í 30-40% af fasteignamatsverði. Þetta er af því, að verðið fer upp úr öllu valdi, og tilkostnaðurinn við að afla sér hlunnindanna verður meiri.

Mörg dæmi eru slíks á þeim tímum, þegar breytingar eru fljótar að gerast, eins og í síðustu heimsstyrjöld, og margt höfuðbólið hefur farið í rústir af þessu. Ég gæti nefnt dæmi um það, ef ég vildi. Ég sé ekki neina ástæðu til að vera að karpa um þetta, því ég býst við, að hv. þm. hafi ákveðið, hvort þeir fylgi þessu eða vilji fella það niður, eins og brtt. hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv. fer fram á. En ég tel, að ef hámarksleiga yrði samþ., þá mundi fást öryggi fyrir því, að ekki yrði farið að bjóða í jarðir í stórum stíl í einhverri vitleysu.