20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3293)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Það er ekki þýðingarmikið að hafa um þetta langar umr., bæði vegna þess, að hér er fátt manna við, og einnig vegna þess, að það virðist vera svo, að a. m. k. sumir þeir hv. þm., sem hafa lagt kapp á þetta mál, vilji ekki taka rök til greina.

Hv. frsm. meiri hl. og 1. flm. þessa máls byrjaði á því að gefa þá skýringu, að ekki væri ætlazt til, að frv. næði til þeirra, sem undanþegnir eru tekjuskatti, og það er rétt. Það á aðeins að ná til þeirra, sem eru skattskyldir af eignum og tekjum. Hv. frsm. fór um það nokkrum orðum, að í nál. mínu og hv. 3. landsk. væru óviðeigandi stóryrði, en minna af rökum. Einu stóryrðin, sem hann tilfærði, voru þau, að því væri dreift út um landið af þekkingarlitlum og ófyrirleitnum mönnum, að á þessu sviði væru dregnir undan skattgreiðslu fleiritugir milljóna króna. En það er svo, að á þessu hefur verið látið bera, ekki aðeins á fundum; heldur einnig í þingsalnum, að því hefur verið haldið fram, að það ættu að vera jafnvel 60–70 millj., sem dregið væri undan skatti af verðbréfum og skuldabréfum. Þetta tel ég lýsa svo mikilli vitleysu, að furðu gegni, eða þá að hér er um sérstaklega mikla ófyrirleitni að ræða, svo að þau stóryrði, sem voru viðhöfð, eru ekkert annað en túlkun á sannleikanum, sem blasir við bæði hér á þingi og utan þings. En vegna þess, að þessu hefur verið haldið svo mjög á lofti, þá fórum við minni hl. fjhn. að leita okkur upplýsinga um, að hve miklu leyti væri í þessu hæft, því að ef þetta væri rétt, þá væri mikil ástæða til að koma þessum l. á, en ef lítið væri í því hæft; þá væri grundvöllurinn runninn undan þessu frv. Og þær upplýsingar, sem við fengum og bent er á í nál. okkar, þær eru fengnar úr reikningum Landsbankans, þeim síðustu, sem völ var á, sem sé reikningunum frá 1939, en það er það ár, sem hv. flm. frv. hafa byggt á undanfarið. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. tók fram, að árið 1940 og á þessu ári hefur eitthvað bætzt við af verðbréfum, en ég geri ráð fyrir, að þau skiptist á milli þeirra aðila, sem eru skattfrjálsir, og hinna, sem eru skattskyldir, í svipuðum hlutföllum og áður var og þess vegna sé hér um tiltölulega lítið að ræða, a. m. k. ekki svo mikið, að ástæða sé til þess vegna að leggja í allan þann kostnað og fyrirhöfn, sem ætlazt er til með þessu frv.

Það er út af fyrir sig rétt, og sjálfsagt geta allir hv. þm. verið sammála um það, að ekki er réttlæti í því, að einstöku mönnum sé heimilt að draga það undan skatti, sem að réttu lagi á að telja fram. En í okkar skattal. er engin heimild til slíks, svo að ég held, að þar sé meira um að kenna vanrækslu skattan. heldur en viðleitni manna til að draga undan skatti.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. meiri hl. vitnaði í ræðu hv. 1. þm. Reykv. hér á þingi 1939, þá er um það að segja alveg það sama og ýmislegt annað, sem fram hefur komið í þessu máli, að það er byggt á fullkomnum misskilningi, þeim misskilningi, að það er ekki tekið til greina, hvað yfirgnæfandi meiri hluti af þessum verðbréfum er í eigu skattfrjálsra aðila. Það getur hver maður séð, sem nokkuð þekkir inn í fjármálapólitík okkar lands, að hér er ekki tekið rétt tillit til, hvað mikill hluti af verðbréfum, skuldabréfum og vaxtafé er í eigu skattfrjálsra aðila, en að fá um það nægilega glöggar skýrslur tel ég ekki unnt, en það er vist, að allar skýrslur, sem fengizt hafa um þessa hluti, eru þannig, að frekar má bæta við þá upphæð, sem er í eigu skattfrjálsra aðila, heldur en draga frá, því að það er vist, að eins og skýrslur peningastofnananna hafa verið, þá eru þær ákaflega mikið villandi, vegna þess að sömu upphæðirnar hafa í mörgum tilfellum verið taldar fram í 2, 3 eða 4 stöðum. Af þeirri sök verður útkoman alveg fölsk eftir þeim skýrslum, sem við höfum á þessu sviði aðgang að.

Snertandi það, að það sé rangt, að allir bankar og sparisjóðir séu á móti því að leggja á sig þessa auknu fyrirhöfn, sem farið er fram á í þessu frv., er það að segja, að við áttum tal við bankastjórana á síðasta þingi. Að vísu kom ekki skriflegt álit nema frá stjórn Landsbankans, en bankastjórar Útvegsbankans og Búnaðarbankans létu í ljós alveg sams konar álit í þessu efni, og þannig er einnig með allar sparisjóðsstjórnir, sem ég hef haft spurnir af eða talað við. Að vísu hef ég ekki átt tal við þá alla, en ég hygg, að ekki sé hægt að finna neinn sparisjóðsgjaldkera, sem vildi leggja á sig þá fyrirhöfn, sem frv. mundi baka peningastofnununum.

Hv. frsm. gekk svo langt í fjarstæðum sínum, að hann hélt því fram, að það mundi ekki baka bönkunum neinn aukinn rekstrarkostnað, þó að þetta frv. næði fram að ganga. Það gegnir alveg furðu, að nokkur hv. þm. skuli halda því fram, að ef farið er að innheimta skatt af öllum vaxtamiðum og öllum verðbréfum eins og gert er ráð fyrir í frv., hvort sem það er talið fram til skatts eða ekki, að því fylgi engin fyrirhöfn. Það hlýtur hver maður að sjá, að það hefur mikla fyrirhöfn í för með sér og getur ekki komið fram nema með auknum rekstrarkostnaði hjá viðkomandi stofnunum.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um, að sú skýrsla, sem fylgdi landsbankareikningnum 1939 og við vitnum í í okkar nál., væri ófullnægjandi; af því að hún taki ekki til bréfa, sem síðar hafa verið gefin út. Það er vitanlega rétt, að hún nær ekki yfir bréf, sem gefin hafa verið út eftir að hún var samin, en það liggja engin rök fyrir, að hún sé ófullnægjandi að því leyti, sem hún nær til, en hún sýnir einmitt, hvað miklar öfgar það eru, sem hefur verið haldið fram á þessu sviði, og þar með, að falskur grundvöllur sé undir tilveru þessa frv.

Þá er þetta, að það sé ekki rétt, að ekki sé hægt að fá til framtals öll handhafaskuldabréf, sem er veð fyrir, en það er frá mínu sjónarmiði fyrir handvömm þeirra, sem stjórna skattamálunum, því að eins og tekið hefur verið fram í okkar nál., er það venja, að sá; sem skuldir telur fram, er spurður, hvar þær séu, en ef hann getur ekki gefið það upp, verður hann að borga skattinn, ef hann er skattskyldur, en það getur verið, að einhverjir sleppi undan að greiða þann skatt, af því að þeir séu ekki skattskyldir, vegna þess að eignir þeirra og tekjur séu ekki það miklar, að þeim beri að borga skatt, en það er ekki til bóta að láta skattal. ná lengra niður á við en gert hefur verið, eins og mundi verða, ef frv. næði fram að ganga.

Viðvíkjandi ályktunarorðum hv. frsm. meiri hl., að hér sé annaðhvort að gera — að undanþiggja öll verðbréf og skuldabréf og helzt allt vaxtafé í landinu tekju- og eignarskatti eða koma á því skipulagi, sem lagt er til í frv., og gera allar peningastofnanir í landinu að skattainnheimtustofnunum. — Það er mér ekki hægt að ganga inn á. Og þó að eitthvað kunni að vera dregið hér undan skatti, þá held ég, að það sé ekki svo mikið, að það borgi sig undir nokkrum kringumstæðum að leggja í alla þá fyrirhöfn, sem hlyti að verða því samfara að gera allar peningastofnanir í landinu að innheimtustofnunum.

Að öðru leyti skal ég ekki þreyta þá fáu hv. þdm., sem eru hér viðstaddir, með lengri ræðu. Þetta mál er búið að vera hér þrætumál á tveimur undanförnum þingum, og kann að vera, að það verði það áfram, ef þeir, sem telja sér hag í að telja landsfólkinu trú um, að stolið sé undan skatti svo og svo miklu umfram það, sem rétt er, þráast við og ala á þessu frv., þá kann að vera, að það haldi áfram að vera draugur hér á þingi, og það heldur þá áfram að vera fyrir hverju þingi. En ef ég fæ ekki upplýsingar, sem sanna nauðsyn þessa máls betur en þær, sem enn hafa komið fram, mun ég aldrei ganga inn á að gera allar peningastofnanir í landinu að innheimtustofnunum, eins og á að gera með þessu frv.