23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3302)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vil nú byrja á því að segja það, að mér finnst það ekki skipta svo miklu máli, hvort þetta frv. er upphaflega samið af milliþn. eða ekki. Flm. hafa séð ástæðu til að breyta frv. að því er snertir vaxta- og spariféð, og þetta atriði sannar, að það hefur ekki verið fullkomlega í samræmi við vilja meiri hl. alþ., að þetta ákvæði var upphaflega sett. Og mér finnst, að þó einhver 3–5 manna nefnd komi sér saman um eitthvað, sem felur í sér rétta hugsun, en er í því formi, að það breytir hlutnum, sem um er rætt, til hins verra en ekki betra, þá eigi ekki að taka það sem góða og gilda vöru, jafnvel þó að það sé milliþn., sem gengið hefur frá því.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að það væri síður en svo, að hægt væri að rekja leiðina með því fyrirkomulagi, sem nú er, til hins rétta eiganda. En það, sem hann sagði þar rétt á eftir, sannar, að hann að vissu leyti er mér sammála, eins og einnig hv. þm: V.- Húnv. Þeir blanda því sem sé saman að finna leiðina til þess eiganda, sem ef til vill raunverulega kann að eiga bréfið, eða þá til einhvers, sem gefur sig upp sem eiganda þess. Ég get fallizt á, að þetta sé svo. En getur hv. þm. bent mér á ákvæði í frv., sem fyrirbyggja þetta? Þau eru ekki til. Hv. þm. Seyðf. viðurkennir, að þetta sé áhætta, en hann segir, að það sé ekki meiri áhætta en nú er. En þetta er misskilningur. Í fyrsta lagi mundi þetta 25% gjald nema miklu hærri upphæð, og þar með væri það aukin upphæð, sem ríkissjóður ætti úti. Það getur vel svo farið, að um verulegar upphæðir verði að ræða hjá þeim mönnum, sem annar s ættu engan tekjuskatt að greiða. Auk þess er alltaf talin meiri áhætta að eiga hjá skuldara en þeim, sem eiga veðskuldabréfin.

Það er alveg rangt, að ég hafi sagt, að ég gæti verið með frv. Ég sagði, að það væri hugsanlegt að halda eftir 1/4 parti af veðdeildarbréfum og ríkisskuldabréfum. Sú hugsun getur verið rétt, en þetta form á ekki við. Ég vil biðja þessa hv. þm. að segja mér það, hvernig tollstjórinn á að vita, hvenær gjalddagi þessa vaxtaskatts er. Það stendur, að sá, sem heldur eftir af vaxtaskatti, eigi að greiða það innan 4 vikna. Hvenær fær tollstjórinn að vita um þetta? Það er útilokað, að hann fái vitneskju um þetta nema einu sinni á ári frá skattstofunni. Mér finnst að flm. þyrftu að setja einhver ákvæði um, að sá, sem fengi yfirlýsingu um, að vöxtunum væri haldið eftir; hann væri skyldur að tilkynna það til tollstjóra. Það er ekki svo vel, að ríkissjóður hafi neitt veð fyrir þessu. Hann hefur aðeins lögtaksrétt. En þeir, sem þekkja muninn á lögtaksrétti og veðrétti, þeir vita, að þar er um mikinn aðstöðumun að ræða. Ég er sannfærður um, að menn verða himinlifandi yfir að fá þessi ákvæði, og þeim dettur yfirleitt ekki í hug að skila peningunum fyrr en þeir verða rukkaðir um þá seint og síðar meir,

Ég þekki hús, sem eru 8 veðréttir á, — sjaldan eru þeir færri en 3. Það er borgað stundum mánaðarlega af veðskuldabréfunum. Og alltaf verður tollstjóri að senda mann til að rukka þessi 25%, án þess að vita, hvert á að leita, kannske 12 sinnum á ári. Það er iðulega borgað 4 sinnum á ári, og ég held áreiðanlega, að af 90% af bréfum sé borgað a. m. k. tvisvar á ári. Og alltaf verður tollstjóri að rukka, en aldrei að vita, hverja á að rukka og hvar þeir eru.

Ég verð að segja, að ef þessi innheimta ríkissjóðs á að fara vel, verður að setja nánari ákvæði um, hvernig innheimtunni skuli varið. Við skulum hugsa okkur tölu húsa hér í bænum, – og svo að ég ekki ofbjóði neinum — segjum 5 þúsund hús, — á hverju húsi til jafnaðar hvíla 4 veðréttir. Það eru sama sem 20 þúsund bréf. Af hverju bréfi á að borga tvisvar sinnum á ári, til að taka það almennasta. 40 þúsund sinnum verður tollstjóri að arka af stað til að rukka inn þessi 25%. Og allar þessar 40 þúsund innheimtur eru á ríkissjóðs kostnað, og allar þessar 40 þúsund vaxtagreiðslur eru á ábyrgð ríkissjóðs. Ef einhverjir hv. þm., sem hér brosa, hyggja, að þessi 40 þúsund sé ýkt niðurstaða, þá bara taki þeir sjálfir dæmið og reikni. Þessir hv. þm. vita, af því, sem ég hef sagt, — og gætu líka fengið upplýst frá þeim góða manni . í milliþn., tollstjóra, — að það er ekki hægt að rekja hvert bréf til hins rétta eiganda. Og hvað er þá unnið, þegar ekki einu sinni það verður fundið, með þessu frv.? Þetta ákvæði hefur sem sagt 40 þúsund galla, en enga kosti, ekki einn einasta. Og ég vildi skjóta því til hv. frsm. fyrir hönd meiri hl. fjhn., hvort hann sæi sér ekki fært að óska, að umræðu yrði frestað, og hann við nánari athugun gæti fallizt á, til samkomulags að minnsta kosti, að aðeins a-liður frv. yrði að l. Eða að minnsta kosti að eitthvað yrði bætt úr svo alveg augljósum göllum á frv., sem ég hef sýnt fram á.