05.03.1941
Efri deild: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3343)

39. mál, húsnæði

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Aðalefni þessa frv. er nokkrar bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja mönnum húsnæði. Er þar fyrst að heimila bæjarstjórnum að leggja stóríbúðaskatt á íbúðir, sem eru yfir 20 þús. kr. að fasteignamati, og verði stighækkandi. Enn fremur að bæjarstjórn verði heimilað að taka til umráða fyrir húsnæðislaust fólk hluta af mjög stórum íbúðum. Er miðað við íbúðir, sem eru stærri en 20 fermetrar gólfflatar á hvern mann í íbúðinni. Þá er lagt til að banna að leigja erlendum setuliðsmönnum íbúðarherbergi og að leigusamningar, sem gerðir hafa verið við þá, skuli falla úr gildi 14. maí 1941.

Ég flutti á síðasta þingi frv. um húsnæði, þar sem gert var ráð fyrir ýmsum ráðstöfunum til þess að bæta úr húsnæðisskorti. M. a. var gert ráð fyrir stóríbúðaskatti. Þá var ekki nærri því komandi, að frv. yrði einu sinni tekið til meðferðar í n. Samt fóru svo leikar, að hæstv. stj. gaf skömmu seinna út bráðabirgðal., og í þeim eru ýmis atriði, sem voru í mínu frv., svo sem bann við að rífa íbúðarhús og heimild til að taka til notkunar auðar íbúðir, en þessi bráðabirgðal. eru alveg ófullnægjandi, það er alveg víst.

Ég held, að allar þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., séu alveg nauðsynlegar, alveg, óhjákvæmilegar á þessu ári, ef ekki á að horfa til stórvandræða, því að það er svo, að enn þá mælist illa fyrir hér á landi, að menn verði beinlínis að liggja á götunni, enda lifir enginn maður það af að standa uppi án þess að hafa skýli yfir höfuðið í frosthörkum á vetrum. En ef ekki verður byggt í talsvert stórum stíl í sumar, þarf engum blöðum um það að fletta, að fjöldi fólks verður húsnæðislaus næsta haust. Vitanlega verður að leggja aðaláherzluna á, að byggt verði til að bæta úr brýnustu þörf, en það verður líka að sjá um, að það húsnæði, sem til er, verði notað fyrir Íslendinga, og þá Íslendinga, sem hafa þörf fyrir það. Síðasta haust var gefið loforð af Bretum um það, að þeir flyttu úr þeim íbúðum, sem þeir eru í, fyrir ákveðinn mánaðardag. Úr þessu varð samt ekkert. Mér er sagt, að leigusamningarnir, sem gerðir hafa verið við Breta, séu yfirleitt þannig, að þeir séu aðeins uppsegjanlegir frá annarri hliðinni, þannig að Bretar geti haldið íbúðunum meðan þeir þurfa á þeim að halda. Áreiðanlega munu vera til íslenzkir leigusalar, sem óska eftir að losna við Bretana úr íbúðunum, en geta það ekki nema þeir verði leystir frá skuldbindingum sínum með 1., og það er áreiðanlegt, að til þess að losna við Bretana úr íbúðum landsmanna þarf löggjöf að koma til.

Nú kann einhver að segja, að Bretarnir kunni að virða svona l. að vettugi og sitja í íbúðunum þrátt fyrir þau. Gott og vel! Látum þá um að fremja slíkt ofbeldi, en ekki eigum við að taka á okkur ábyrgðina af slíku framferði, en það gerum við, svo framarlega sem við látum liggja milli hluta, að þeir sitji í íbúðum landsmanna. En það eru engar líkur til, að Bretar fari að fremja slíkt ofbeldi; það væri alveg í mótsögn við þau loforð, sem þeir gáfu í haust, að flytja úr íbúðunum, og sjálfra sín vegna mundu þeir ekki stofna til slíkra hluta að nauðsynjalausu.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til allshn.